03.12.1973
Sameinað þing: 28. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 997 í B-deild Alþingistíðinda. (881)

Minnst látins fyrrv. alþingmanns

Forseti (Eysteinn Jónsson) :

Halldór Ásgrímsson fyrrv. kaupfélagsstjóri og alþm. andaðist s. l. laugardag, 1. des., 77 ára að aldri.

Halldór Ásgrímsson var fæddur 17. apríl 1896 að Brekku í Hróarstungu í Norður-Múlasýslu. Foreldrar hans voru Ásgrímur bóndi þar, síðar bóndi á Grund í Borgarfirði eystra, Guðmundsson bónda í Snotrunesi í Borgarfirði Ásgrímssonar og kona hans, Katrín Helga Björnsdóttir bónda í Húsey í Hróarstungu Hallasonar.

Halldór Ásgrímsson stundaði nám í Unglingaskóla Borgarfjarðar veturinn 1910–1911, hóf nám í Gagnfræðaskólanum á Akureyri 1914 og lauk gagnfræðaprófi 1916. Hann var kennari við barna- og unglingaskólann á Borgarfirði 1916–1919 og veitti unglingaskólanum forstöðu 1919–1920. Veturinn 1920–1921 var hann í Reykjavík við nám í Samvinnuskólanum. Hann gerðist starfsmaður Kaupfélags Borgarfjarðar á árinu 1920, var kaupfélagsstjóri þess félags 1922–1940 og rak jafnframt bóksölu á Borgarfirði 1922–1940 og búskap á föðurleifð sinni Grund 1923–1932. Kaupfélagsstjóri á Vopnafirði var hann 1940–1959 og veitti jafnframt Kaupfélagi Borgarfjarðar forstöðu 1940–1942. Árið 1960 var hann skipaður útibússtjóri Búnaðarbanka Íslands á Egilsstöðum við stofnun útibúsins, sem hann byggði upp með miklum myndarskap. Hann lét af því starfi sjötugur á árinu 1966.

Halldór Ásgrímsson var kjörinn til ýmissa trúnaðarstarfa í héraði sínu. Hann var sýslunefndarmaður í Norður-Múlasýslu 1923–1940 og 1942–1959, átti sæti í hreppsnefnd Borgarfjarðarhrepps 1928–1940 og í hreppsnefnd Vopnafjarðarhrepps 1942–1946, í sóknarnefnd á Borgarfirði 1922–1940 og var formaður skólanefndar Vopnafjarðar 1950–1959. Halldór Ásgrímsson átti sæti á Alþ. 1946–1967, var þm. Norðmýlinga og síðar þm. Austurlandskjördæmis, sat á 23 þingum alls.

Halldór Ásgrímsson var Norðmýlingur að ætt og uppruna. Hann ólst upp við sveitastörf, aflaði sér menntunar á unglingsárum og átti rúmlega tvítugur mikinn þátt í stofnun samvinnuverslunar í heimabyggð sinni. Þar var hann bráðlega kjörinn til forustu og framkvæmdastjórnar, og næstu fjóra áratugi veitti hann kaupfélögum forstöðu. Hann var áhugasamur, hagsýnn og eljusamur kaupfélagsstjóri, örvaði til framkvæmda í sveitunum, stuðlaði að hafnarbótum og byggingu verksmiðju til fiskvinnslu og bætti með því hag bæði félaga og félagsmanna í sveitum og við sjóinn. Að störfum á Alþ. gekk hann með alúð og elju, eyddi ekki tíma í ræðuhöld um þarfir fram, en vann af röggsemi að afgreiðslu mála. Varaforseti í neðri deild var hann á 9 þingum. Halldór Ásgrímsson átti alla tíð sæti í fjvn., að undanskildu fyrsta þinginu, aukaþinginu 1946. Hann varð fljótlega gjörkunnugur fjármálum ríkisins og verklegum framkvæmdum á vegum þess um landið allt. Hann var löngum áhrifamaður í fjvn., fastur fyrir, ef honum þótti ekki stefnt í rétta átt, og naut trausts samstarfsmanna sinna fyrir hagsýni og glöggskyggni.

Halldór Ásgrímsson var mikilhæfur og áhrifamikill þm. Að loknu farsælu starfi átti Halldór heimili hér í Reykjavík síðustu æviárin.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Halldórs Ásgrímssonar með því að rísa úr sætum.- [Þingmenn risu úr sætum.]