10.12.1985
Sameinað þing: 28. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1226 í B-deild Alþingistíðinda. (990)

Viðskipti Hafskips og Útvegsbankans

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Hafskipsmálið er stærsta gjaldþrotamál í sögu íslenska lýðveldisins. Fjölmargir forustumenn Sjálfstfl., stærsta flokks þjóðarinnar, ráðherrar, þingmenn, formenn stórra flokksfélaga, fyrrv. framkvæmdastjórar flokksins og formenn kjördæmissambanda eru flæktir í málið á margvíslegan hátt. Annar stærsti banki þjóðarinnar, eign almennings í landinu, tapar hundruðum milljóna kr. sem lagðar verða á fólkið í landinu í formi skattlagningar, og það sem meira er, að framtíð bankans virðist vera í stórfelldri hættu.

Fólkið í landinu verður, eftir þeim upplýsingum sem þegar hafa fram komið, látið reiða fram sérstakan skatt, Hafskipsskatt, sem gæti numið 10 þús. kr. á hverja fölskyldu í landinu. Ég mun hins vegar hér á eftir leiða rök að því að staða Útvegsbankans sé í reynd enn verri en fram hefur komið nú þegar, þannig að ætti almenningur í landinu að reiða fram allt það fjármagn, sem þyrfti til að styrkja stöðu bankans á ný, myndi þessi Hafskipsskattur á hverja fjölskyldu í landinu þurfa að nema um 20 þús. kr.

Á sama tíma og þetta er upplýst þá bendir margt til þess að forstjórar og stjórnendur Hafskips, eigendur og aðrir forráðamenn þess fyrirtækis hafi notað þau lán sem veitt voru úr þjóðbankanum til þess að flytja fjármagn í stórum stíl frá Hafskipi og yfir til annarra fyrirtækja í eigu þessara sömu stjórnenda, hliðarfyrirtækja, skúffufyrirtækja og platfyrirtækja. Þegar upp er staðið þá bendir margt til þess að þessir stjórnendur, sem fólkið í landinu þarf nú að borga fyrir hundruð milljóna kr., munu verða mun ríkari, eiga fleiri húseignir, eiga öflugri fyrirtæki en þeir áttu í upphafi vegna þess að þeir hafi misnotað lánafyrirgreiðslu þjóðbankans til að dæla fjármagni gegnum Hafskip og yfir til annarra fyrirtækja.

Enn fremur er ljóst að mörg áberandi fyrirtæki í landinu, sem áttu stóran hlut í Hafskipi, hafi notað þá eignaraðild til þess að knýja fram afslætti og uppbætur á farmgjöldum til þess að styrkja gróðastöðu sinna eigin fyrirtækja á kostnað skipafélagsins og þjóðbankans.

Allir þessir atburðir, stærsta fjármálahneyksli í sögu lýðveldisins, þar situr stærsti flokkur þjóðarinnar í hverri ábyrgðarstöðunni á fætur annarri með svo margbrotnum hætti að það er sama hvar maður kemur að þessu máli, það er ekki þverfótað fyrir þm. og forráðamönnum Sjálfstfl. Allir þessir atburðir hafa orðið til þess að þjóðina skortir nú traust á forustu landsins, skortir traust á fjármálastofnunum landsins, skortir traust á þeim fyrirtækjum sem eiga að tryggja atvinnu og lífsafkomu fólksins í landinu. Það er því eðlilegt að almenningur krefjist uppgjörs í þessu máli, krefjist þess að öll gögn séu lögð á borðið, krefjist þess að með opinberum hætti, fyrir opnum tjöldum, þar sem hver og einn hefur aðgang að því sem fram kemur, fái þjóðin að vita allt - bókstaflega allt - og sjá öll gögn sem þessu máli tengjast.

Almenningur vill hreint borð í þessu máli áður en skattseðillinn með Hafskipsskattinum kemur inn um dyrnar. Almenningur í þessu landi mun ekki sætta sig við það að þurfa að greiða 10-20 þús. kr. - hver fjölskylda í landinu - í formi sérstakrar skattlagningar vegna Hafskipsævintýrsins án þess að vera búin að fá fulla vitneskju fyrir því að öll gögn í málinu séu fram komin; án þess að það liggi ljóst fyrir hvert sé tap þeirra sem áttu Hafskip, hvert sé tap þeirra sem stjórnuðu Hafskipi. Eða er það kannske þannig að á sama tíma og fjölskyldurnar í landinu verða hver og ein að borga þennan 10-20 þús. kr. skatt, þá fari stjórnendur Hafskips og eigendur Hafskips frá þessu borði ríkari en þeir komu að því?

Almenningur vill jafnframt fá vitneskju um hvort rétt sé að fjölmörg önnur stórfyrirtæki í landinu hafi notað lánafyrirgreiðslu þjóðbankakerfisins til að safna skuldum, hvort það sé rétt að fjölmörg önnur stórfyrirtæki landsins séu nú í biðsal dauðans í bankakerfinu þar sem tap þjóðbankanna og annarra viðskiptabanka verði enn meira en Hafskipsmálið hefur leitt í ljós, að sú saga sem við erum nú að fjalla um og tengjum Hafskipi sé bara fyrsti kaflinn í enn stærri skuldabók íslenska viðskiptalífsins. Fyrirtæki eins og Arnarflug, sem Þjóðviljinn greinir frá í dag að skuldi hundruð milljóna króna, fyrirtæki eins og Sjöstjarnan, fyrirtæki eins og Byggung, fyrirtæki eins og Víðir, fyrirtæki eins og Hagvirki, fyrirtæki eins og Olís og þannig mætti áfram telja lengi. Er það rétt að þegar allt þetta sé lagt saman standi bankakerfið og þjóðin frammi fyrir því að sjálft fjármálakerfi Íslendinga riði til falls vegna skulda þessara fyrirtækja? Er þá ekki átt við þær miklu skuldir sjávarútvegsfyrirtækja sem greint var frá í fréttum í dag.

Herra forseti. Það er nauðsynlegt að Alþingi beiti sér fyrir því að almenningur í landinu endurheimti fraust sitt á stofnunum lýðveldisins, að almenningur fái á ný tiltrú á því kerfi fjármálastofnana og fyrirtækja sem fólkið í landinu hefur haldið hingað til að ætti að tryggja velferð þess og örugga gæslu fjármuna. Það hvílir því sú skylda á Alþingi Íslendinga og ríkisstj. að sjá til þess að trúnaður skapist á ný, að traust skapist á ný, að fólkið í landinu geti áfram búið við öryggi í fjármála- og atvinnulífi.

Það er rétt að við gerum okkur grein fyrir því að þessi atburðarás hefur verið með slíkum hætti og svo hröð að hver dagur getur skipt miklu máli í þessu sambandi. Í fjármálalífi þjóðar skiptir trúnaður mestu máli, traust fólksins sem á sparifé sitt í bankakerfinu og ætlast til þess að það sé farið með það á réttan og eðlilegan hátt.

Í rúmlega vikutíma höfum við beðið þess að heilsa hæstv. viðskrh. leyfði að þessi utandagskrárumræða gæti farið fram. Ég fagna því að hún leyfir honum í dag að vera hér á þingi og veita svör við þeim spurningum sem ég og aðrir þm. munum bera fram. Þeim spurningum verður einnig beint til hæstv. forsrh., til hæstv. alþm. Matthíasar A. Mathiesen fyrrverandi viðskrh., sem ráðherra viðskiptamála bar höfuðábyrgð á bankakerfi þjóðarinnar á þeim mánuðum sem mikilvægastir voru í þessari sögu, og til hæstv. iðnrh. sem um langa tíð veitti forstöðu Hafskipi og Útvegsbanka Íslands.

Herra forseti. Það má skipta þessu efni í sjö meginviðfangsefni. Ég ætla í eins stuttu máli og mér er unnt að reifa þessa sjö þætti á þann veg að nokkuð sé ljóst til hvers sé ætlast af hæstv. ráðherrum og Alþingi í þeim efnum.

Fyrsti þátturinn eru aðgerðir eða aðgerðarleysi viðskrn. á s.l. 6-7 mánuðum, að meginhluta í ráðherratíð hv. alþm. Matthíasar Á. Mathiesen, atskipti eða afskiptaleysi bankastjóra Seðlabankans, formanns bankaráðs Seðlabankans, sem áður var bankastjóri Útvegsbankans, og annarra þeirra stjórnvalda sem bankaeftirlitið heyrir undir og eiga samkvæmt lögum að tryggja að þegar bent er á hættur sé gripið í taumana í tæka tíð.

Í öðru lagi staða Útvegsbanka Íslands nú. Hvernig eigi að bæta banka almennings það tjón sem hann hefur orðið fyrir og hvort rétt sé að skuldir bankans séu í reynd meiri en tvöfalt meiri en þegar hefur komið fram, að ef fram ætti að fara hreint uppgjör á Útvegsbanka Íslands sé mínusstaða bankans ekki 400 millj. heldur nær 1000 millj. kr.

Í þriðja lagi viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips, sú fullyrðing, sem sett hefur verið fram af núverandi hæstv. viðskrh., að það hefði fyrir löngu átt að vera búið að gera Hafskip upp. Hvernig stóð á því að Útvegsbankinn krafðist ekki þess gjaldþrots sem hæstv. viðskrh. segir nú að fyrir löngu hefði átt að fara fram? Hver var ferill lána í bankanum og hvernig stóð á því að veð voru ekki nægilega tryggð?

Í fjórða lagi viðskipti Hafskips við önnur fyrirtæki, innlend og erlend, viðfangsefni sem á að varpa ljósi á að hve miklu leyti lánsfjármagnið frá banka almennings í landinu var notað til að byggja upp eignarstöðu forstjóra og eigenda Hafskips í öðrum fyrirtækjum sem nú munu hafa allt sitt á þurru. Þeir hafa byggt upp nýjar höfuðstöðvar í glæsilegum byggingum hér í borginni á sama tíma og Hafskip er að rúlla. Einnig fjármögnun á stórfelldri einkaneyslu og lúxus stjórnenda og ráðamanna fyrirtækisins hérlendis og erlendis þar sem fé almennings úr þjóðbanka landsins hefur verið notað til að greiða fyrir þennan einkalúxus erlendis og hérlendis.

Í fimmta lagi margvísleg afskipti forustumanna Sjálfstfl. af málefnum Hafskips. Það hefur verið sagt undanfarna daga að það sé fyrst og fremst vegna hins pólitíska bakhjarls sem talið var að þetta fyrirtæki hefði í stærsta stjórnmálaflokki landsins með hverja silkihúfu Sjálfstfl. á fætur annarri innan vébanda fyrirtækisins að bankakerfið og aðrir þeir sem viðskipti höfðu við Hafskip trúðu því ekki að Sjálfstfl. mundi láta það fara á hausinn. Svo margir ábyrgðar- og forustuaðilar innan Sjálfstfl. hefðu þar beinna hagsmuna og forustu að gæta. Þessi stærsti flokkur þjóðarinnar verður þess vegna að vera reiðubúinn til samvinnu við þingheim allan og þjóðina til að leiða í ljós skýrt og skorinort að ekkert óeðlilegt, ekkert sem talist getur óeðlileg fyrirgreiðsla, óeðlileg hjálp, hafi átt sér stað hjá þeim forustumönnum Sjálfstfl. sem skipuðu stjórnendastöður innan Hafskips.

Í sjötta lagi þær horfur sem eru í bankakerfi landsmanna og ég vék lítillega að áðan þar sem listinn yfir fyrirtækin sem nú bíða uppgjörs og gjaldþrots virðist lengjast með hverjum degi. Það vekur spurningu um það hvernig ríkisstj. ætlar að bregðast við þessum mikla fjárhagsvanda í atvinnukerfi landsmanna.

Og svo að lokum í sjöunda lagi spurningin um það með hvaða hætti þjóðin, þingið og stjórnvöld ætla sér að tryggja að rannsókn þessa máls verði með þeim hætti að þegar upp verður staðið efist enginn um að öll kurl séu komin til grafar, að öll gögn hafi verið lögð á borðið, engu hafi verið skotið undan. Þar dugir ekki, hæstv. forsrh., að ríkisstj. án samvinnu við Alþingi taki einhliða ákvörðun um að velja þrjá menn, án þess að erindisbréf þeirra liggi nokkurs staðar á borðum og án þess að ákveðið sé að þeirra störf verði með þeim hætti að almenningur í landinu geti haft aðgang að því. Þá dugir ekki að það eitt eigi að vera sú aðferð sem á að beita í þessum efnum. Ég trúi því ekki að forustumenn í Sjálfstfl., og beini þeirri spurningu til hæstv. fjmrh., ætli að koma i veg fyrir að Alþingi fái að kjósa þær rannsóknarnefndir í þessu máli sem greinilegt er að vilji stórs hluta þingheims stendur til og sem starfsfólk Hafskips hefur í sérstakri samþykkt starfsmannafélagsins óskað eftir að verði skipaðar. Það er þess vegna nauðsynlegt að forustumenn Sjálfstfl., bæði hæstv. viðskrh. og hæstv. fjmrh., svari því skýrt og skorinort hér á eftir hvort Sjálfstfl. er reiðubúinn til þess að Alþingi kjósi þessar rannsóknarnefndir eða hvort Sjálfstfl. ætlar sér að nota tangarhald sitt á Framsfl. í ríkisstj. til þess að koma í veg fyrir að Alþingi fái að skipa þessar rannsóknarnefndir.

Við sáum í gær hvernig Framsfl. guggnaði í öðru máli. Við eigum eftir að sjá það næstu daga hvort Framsfl. ætlar líka að guggna á kröfunni um að rannsóknarnefndir Alþingis verði skipaðar í þessu máli.

Herra forseti. Í viðtali við Morgunblaðið 6. desember lýsti hæstv. viðskrh. því yfir að Hafskip hefði átt að taka til gjaldþrotaskipta fyrir löngu. Það er rétt að vekja einnig athygli á því að í umræðum á Alþingi 14. nóvember lýsti hæstv. núverandi viðskrh. því yfir að í júnímánuði hafi Seðlabankinn fengið upplýsingar um stöðu Hafskips gagnvart Útvegsbankanum sem dagsettar voru 3. júní. Engu að síður gerist það, herra forseti, að tveimur vikum síðar, 18. júní, stendur þáverandi hæstv. viðskrh., Matthías Á. Mathiesen, í þessum ræðustól og vitnar í yfirlýsingar forustumanna bankans, gerir þær þar með að sínum, þar sem því er lýst yfir hér á Alþingi að bankastjórar Útvegsbankans telji að nægar tryggingar séu fyrir þeim lánum sem veitt voru.

Enn fremur hefur komið fram fyrr á þinginu að seinni hluta júlímánaðar skilaði bankaeftirlitið skýrslu til yfirstjórnar Seðlabankans og yfirstjórnin síðan til viðskrn. þar sem sýnt var fram á að staða Hafskips gagnvart Útvegsbankanum var með þeim hætti að bankinn hlaut að tapa miklum fjármunum. Ég spurðist fyrir um það í gær hjá Tómasi Árnasyni bankastjóra Seðlabankans hvort Seðlabankinn hefði þá þegar fylgt þessu bréfi frá bankaeftirlitinu eftir með athugasemdum og viðræðum við hæstv. viðskrh. Tómas Árnason seðlabankastjóri tjáði mér að það hefði verið gert. Í ljósi þeirra upplýsinga, sem ég hef þannig fengið frá yfirstjórn Seðlabankans, hlýtur að verða spurt hér á Alþingi og knúið á um að lýst verði nákvæmlega hver voru afskipti eða afskiptaleysi viðskrn. af þessu máli í júlímánuði, í ágústmánuði, í septembermánuði. Hvernig stóð á því að hæstv. viðskrh. Matthías Á. Mathiesen beið mánuðum saman eftir að grípa í þá tauma, sem núverandi hæstv. viðskrh. segir að hafi átt að grípa í fyrir löngu, þrátt fyrir að bankaeftirlitið og bankastjórar Seðlabankans voru búnir að tjá hæstv. ráðh. hvað málið var alvarlegt?

Það er þess vegna nauðsynlegt að fram komi hér á Alþingi nákvæm lýsing hvað snertir gögn, bréf, viðtöl og fundi sem hæstv. viðskrh. Matthías Á. Mathiesen átti í mánuðunum júní, júlí, ágúst, september og október við bankastjóra Seðlabankans, við formann bankaráðs Seðlabankans, við bankastjóra Útvegsbankans og aðra þá sem að þessu máli koma. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að hv. alþm. Matthías Á. Mathiesen, fyrrverandi hæstv. viðskrh., sem nú bíður eftir því að setjast á ný í ríkisstjórn eftir nokkrar vikur samkvæmt sérstakri ákvörðun Sjálfstfl., geti ekki tekið á ný sæti ráðherra í ríkisstjórn fyrr en lögð hafa verið fram algjörlega skýr gögn um þennan þátt málsins vegna þess að samkvæmt öðrum upplýsingum bendir margt til þess að tjón Útvegsbankans hafi orðið mest á þeim tíma sem hæstv. ráðh. átti að grípa í taumana. Almenningur í landinu þurfi þess vegna að greiða nú mun hærri fjárhæðir til Útvegsbankans í formi hins sérstaka Hafskipsskatts vegna þess að hæstv. viðskrh. greip ekki í taumana í tæka tíð. Þennan þátt málsins verður því að upplýsa til fullnustu og nákvæmlega. Ef það gerist ekki í umræðunum hér í dag verður það að gerast næstu daga og vikur af hálfu Alþingis með öðrum hætti. Hæstv. fyrrv. viðskrh. getur ekki sóma síns vegna og lýðræðisins vegna sest á ný í ríkisstj. fyrr en sá þáttur málsins er orðinn algerlega ljós.

Ég vil í þessu sambandi vitna í leiðara Morgunblaðsins í dag. Þar stendur m.a., með leyfi hæstv. forseta: „Það voru sterk rök fyrir því að stöðva þennan rekstur mun fyrr og jafnvel um síðustu áramót.“

Það er dómur Morgunblaðsins, stærsta blaðs þjóðarinnar sem lengst af hefur staðið með Sjálfstfl., að þeir ráðherrar flokksins og forustumenn sem ábyrgð báru á þessu máli hefðu átt að stöðva það um síðustu áramót. Í því sambandi vitnar blaðið í orð núverandi hæstv. viðskrh. Matthíasar Bjarnasonar.

Herra forseti. Annar þáttur þessa máls er framtíð Útvegsbanka Íslands. Það kom fram í lok síðustu viku að tjón bankans kynni að verða tæpar 400 milljónir. Ég tel hins vegar að þetta tjón beint vegna Hafskipsmálsins geti orðið mun meira og vil færa að þeirri fullyrðingu eftirfarandi rök:

Í fyrsta lagi eiga eftir að koma fram sjóveðskröfur sem hafa forgang fram yfir kröfur Útvegsbanka Íslands. Í öðru lagi er tilboð Eimskipafélagsins skilyrt með því að eignir Hafskips séu í því ástandi sem þeim er lýst, en algerlega óuppgert hvort Eimskipafélagið mun sætta sig við að sú lýsing sé raunveruleikanum samkvæmt.

Í þriðja lagi: Eftir þeim upplýsingum sem ég hef, og spyr hér með hæstv. viðskrh. hvort þær séu réttar því að af hans hálfu hefur ríkislögmaður fylgst með þessum viðræðum og samningum, á Eimskipafélag Íslands ekki að greiða þær skuldir sem það yfirtekur fyrr en um næstu aldamót og það sem meira er, að skuldirnar og lánin sem yfirtekin eru eigi að vera vaxtalaus fram að þeim tíma. Ég spyr: Er þetta rétt? Er það virkilega rétt að þessir fjármunir, sem hér hafa verið ræddir, eigi að flytjast yfir í Eimskipafélagið án vaxta á sama tíma og það er verið að brjóta niður þúsundir fjölskyldna í landinu með því að knýja þær til að borga fulla raunvexti og meira en það af þeim lánum sem þær taka vegna heimila sinna og fjölskyldna? Ef þetta er rétt er náttúrlega ljóst að raunverulegt tap bankans er miklu meira ef vextirnir væru á eðlilegan viðskiptalegan hátt reiknaðir inn í þetta dæmi.

Í fjórða lagi verður að taka með í þennan reikning þau lán sem Útvegsbankinn veitti Íslenska skipafélaginu og þær fyrirgreiðslur sem því voru veittar.

Í fimmta lagi verður að skoða þau kjör sem voru á því 80 milljóna hlutafjárframlagi sem mjög svo hefur verið básúnað að átt hafi sér stað. Samkvæmt þeim heimildum sem ég hef var meginhluti þess hlutafjárframlags í formi verðbréfa sem bankinn yfirtók, en eru alls ekki með þeim kjörum sem almenn eru á þeim markaði og sem fólkið í landinu er yfirleitt látið borga, heldur taki bankinn að sér þannig verulegt tap í viðbót gegnum eðli þeirra verðbréfa sem voru látin ígilda hlutafjárframlaginu.

Þegar litið er á þessa fimm þætti er vel hugsanlegt að raunverulegt tap Útvegsbanka Íslands, ef gert er upp með eðlilegum hætti, sé miklu meira en það sem nú þegar hefur komið fram.

Til viðbótar vil ég svo vekja athygli á því, eins og ég gerði hér áðan, að ýmis önnur fyrirtæki sem skipta við Útvegsbankann eiga nú í miklum erfiðleikum. Þar greinir Þjóðviljinn í dag frá miklum skuldum Arnarflugs sem hefur verið einn af stórum viðskiptaaðilum bankans. Þar er ríkisábyrgð á 40 millj. kr. láni sem Útvegsbankinn mun að vísu ekki greiða, en fólkið í landinu verður látið greiða ef Arnarflug rúllar. Þar er Sjöstjarnan sem menn hafa heyrt um á undanförnum vikum. Þar er einnig, eftir þeim heimildum sem ég hef, fyrirtækið Byggung sem þekkt er í þessu þjóðfélagi og hefur haft mikil umsvif og kom einmitt í viðskipti í Útvegsbankanum í þeirri tíð þegar hæstv. iðnrh. Albert Guðmundsson var þar formaður bankaráðs. Enn fremur er mér tjáð að Útvegsbankinn skuldi eftirlaunakerfi starfsmanna bankans ígildi jafnvel 200-300 millj. kr. Það séu að vísu atriði sem einnig geti átt við ýmsa aðra banka sem ekki skila reglulega greiðslum inn í eftirlaunakerfi starfsmanna heldur reikni það með öðrum hætti, en þegar upp væri staðið og ætti að tryggja eftirlaun allra sem starfa í bankanum og þar hafa starfað yrði að reiða fram 200-300 millj. kr.

Með öðrum orðum: Ef Útvegsbanki Íslands væri gerður upp í dag, miðað við stöðu og horfur, væru skuldir bankans í reynd allt að 1000 millj. kr. Það sé í reynd það fjármagn sem þurfi að reiða fram ef á að styrkja þannig rekstur bankans að hann geti haldið áfram með eðlilegum hætti. Með öðrum orðum: Þetta dæmi er miklu stærra en hæstv. ráðherrar og aðrir forustumenn í þessum málum hafa látið fram koma til þessa. Ég spyr þess vegna hæstv. viðskrh. hvort ekki sé nauðsynlegt að hann geri þinginu og þjóðinni ítarlega grein fyrir þeirri stöðu sem bankinn er í svo að almenningur í landinu, sem á bankann, fái í raun og veru að vita afdráttarlaust og undanbragðalaust hver er staða þjóðbankans. Er það sá 20 þús. kr. skattur, sem ég nefndi hér áðan, sem verður að reiða fram ef bankinn á að geta starfað með eðlilegum hætti eða er það á bilinu 10-20 000 kr. á hverja fjölskyldu í landinu?

Í þessu sambandi er nauðsynlegt að bæði hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh. geri skýra grein fyrir því hvað ríkisstj. ætlar með Útvegsbanka Íslands. Viðskiptavinir bankans, bæði sparifjáreigendur og fyrirtæki sem skipta við bankann, spyrja nú á hverjum degi: Hvað á að gera við bankann? Hver verður framtíð þeirrar stofnunar sem ég hef skipt við í langan tíma? Viðskiptavinir annarra banka, bæði Búnaðarbankans, Verslunarbankans og Iðnaðarbankans, spyrja einnig: Eiga okkar bankar að yfirtaka skuldasúpu Útvegsbankans? Á kannske að fara að veikja möguleika þessara þriggja banka til að þjónusta það atvinnulíf sem við þá hefur haft viðskipti og þá sparifjáreigendur sem við þessa þrjá banka hafa verslað í langan tíma með því að henda skuldaskjóðu Útvegsbankans þar inn fyrir dyr? Þessari óvissu verður að eyða. Hún getur ekki varað dögum og vikum saman. Hún brýtur niður allt fjármálakerfi í landinu ef svo heldur fram sem horfir. Þess vegna er nauðsynlegt að hæstv. ríkisstj. geri þegar þjóðþinginu grein fyrir því hvað hún ætlar að gera, hvernig hún ætlar að bregðast við þessum vanda. Mismunandi yfirlýsingar um það efni hafa komið frá hæstv. ráðherrum. Hvernig ætlar hæstv. ríkisstj. að fjármagna skuldastöðu Útvegsbankans? Hvenær á að leggja það fjármagn fram? Með hvaða hætti verður sú skattheimta sem að almenningi steðjar í þessum efnum? Ég vil ítreka í því sambandi að nauðsynlegt er að grein sé gerð fyrir heildaruppgjöri Útvegsbanka Íslands þegar ákvörðun verður tekin um það efni. Hæstv. fjmrh. lýsti því yfir 27. nóvember að ríkissjóður mundi hvorki leggja fram hlutafjárframlög eða ábyrgðir til reksturs Íslenska skipafélagsins. Hæstv. fjmrh. hefur hins vegar verið hljóður um það atriði hvernig ríkissjóður og ríkisstj. hyggist reiða fram það fjármagn sem Útvegsbankinn þarf nú á að halda.

Það þriðja efnisatriði sem ég vék að áðan voru viðskipti Útvegsbanka Íslands við Hafskip sérstaklega. Það hefur mjög verið haft á orði af forráðamönnum skipafélagsins og reyndar ýmsum öðrum forustumönnum Sjálfstfl. að þessir erfiðleikar, þetta gjaldþrot stafi af ytri ástæðum. Þetta sé nánast atburðarás sem ekkert hafi verið hægt að gera við. Þá eru einkum í þeim efnum nefnd tvö atriði, annars vegar verðfall á skipum sem orðið hafi sérstaklega á síðustu mánuðum og svo hins vegar Rainbow-málið eða samningar Geirs Hallgrímssonar við utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Varðandi fyrra atriðið vil ég vekja athygli hæstv. ráðherra og þingheims á því að 5. desember s.l. birtist í fylgiriti Morgunblaðsins, Viðskipti og atvinnulíf, ítarleg grein um vanda skipafélaga og bankakerfis erlendis. Í þessari grein kom það mjög skýrt fram, bæði í texta og sérstöku línuriti sem birt var, að það verðfall sem orðið hefur á flutningaskipum átti sér stað á árunum 1981 og 1982, en verð hefur hins vegar verið nokkuð stöðugt á árunum 1983, 1984 og 1985. Það er sérkennilegt að þessi yfirlitsgrein úr Morgunblaðinu sýnir allt aðra mynd af verðþróun flutningaskipaflotans í veröldinni en forráðamenn Hafskips og Sjálfstfl. hafa haldið fram. Það er einnig í þessari grein frá því sagt, og væri það fróðleg lesning fyrir hæstv. fyrrverandi viðskrh. Matthías Á. Mathiesen og aðra ábyrgðaraðila Sjálfstfl. í þessu máli, hvernig erlendir bankar hafa á árunum 1983 og 1984 gripið til nauðsynlegra ráðstafana til að tryggja lánahagsmuni þessara banka. Er þar fremstur nefndur Morgan Guaranty-bankinn í Bandaríkjunum og ýmsir aðrir nefndir til þeirrar sögu. Þannig er alveg ljóst að í hinum erlenda viðskiptaheimi, í hinum erlenda bankaheimi, í hinum alþjóðlega skipaheimi lá ljóst fyrir á árunum 1981 og 1982 að verulegt verðfall væri að verða á þessum skipum. Erlendir bankar gripu til gagnráðstafana þegar á árunum 1983 og 1984. Þá vaknar sú spurning: Hvernig stóð á því að yfirvöld hér á landi, sem ættu að hafa fullan aðgang að þessum upplýsingum, gripu ekki í taumana í tæka tíð?

Um hina skýringuna, Rainbow-málið, ætla ég að vera fáorður. Það er í raun og veru innanflokksmál í Sjálfstfl. Það er ásökunin um að meðferð utanríkisráðherra Bandaríkjanna á Geir Hallgrímssyni utanrrh. Íslands hafi verið með þeim hætti að Hafskip hafi í raun og veru orðið gjaldþrota vegna þeirra málsmeðferðar. Ég verð að segja eins og er að ef hæstv. utanrrh. Geir Hallgrímsson telur ýmislegt vera tilefni til að setja ráðherradóm sinn að veði tel ég að þessar fullyrðingar, sem komið hafa frá stjórnarformanni Hafskips og ýmsum öðrum forustumönnum, séu í raun og veru miklu alvarlegra tilefni til þess að leggja ráðherradóm sinn að veði en ýmislegt annað sem hæstv. ráðh. hefur haldið fram í þeim efnum á undanförnum dögum.

Hæstv. iðnrh. hélt því fram hér á Alþingi 14. nóvember að lögfræðingur Útvegsbankans hefði vikulega um langt árabil komið í fyrirtækið Hafskip til þess að fylgjast með rekstrinum og meðferð mála. Nú hefur bankastjóri Útvegsbankans upplýst það að þetta sé ekki rétt. Hæstv. iðnrh. Albert Guðmundsson skuldar þess vegna þjóðþinginu skýringu á þessum ummælum sínum. Hvernig stendur á því að ein meginröksemd hans á þinginu 14. nóvember er nú felld af bankastjóra Útvegsbankans? Það leiðir einnig hugann að því að nauðsynlegt er að fram komi ítarleg lýsing á öllum lánveitingum Útvegsbankans til Hafskips, upphæðirnar, veðin, tímasetningarnar og öll önnur atriði. Einkum og sér í lagi verður að kanna þær alvarlegu ásakanir, sem fram hafa komið í viðtölum Helgarpóstsins við fyrrv. stjórnendur Hafskips og áhrifamenn í fyrirtækinu, að markvisst hafi verið beitt blekkingum af hálfu fyrirtækisins gagnvart bankakerfinu á ákveðnu tímaskeiði. Það verður að liggja alveg ljóst fyrir hvort þessar ásakanir um blekkingar eru réttar eða rangar.

Fjórði þátturinn, herra forseti, snýr að viðskiptum Hafskips við önnur fyrirtæki, innlend og erlend. Það er ljóst að þeir sem standa að Hafskipi og stóðu, bæði aðaleigendur fyrirtækisins sem og stjórnarformaður og aðalforstjóri, eru hlekkir í mjög víðtækri fyrirtækjakeðju í þessu landi. Þjóðviljinn rekur í dag nokkur dæmi um þann stóra fyrirtækjahring sem að Hafskipi stóð. Hann nefnir einnig nokkur dæmi um þau fyrirtæki sérstök sem Ragnar Kjartansson og Björgólfur Guðmundsson eru aðaleigendur og ráðamenn í. Öll þessi fyrirtækjakeðja í kringum Hafskip er sérkennileg fyrir þá sök að ýmsir helstu áhrifamenn í Sjálfstfl. sitja þar í hásæti, ýmist sem forstjórar eða aðaleigendur, áhrifamenn í flokkskerfinu, áhrifamenn í fulltrúaráðunum, áhrifamenn í prófkjörunum, áhrifamenn í stjórninni.

Hver voru svo tengsl Hafskips við þessa fyrirtækjakeðju? Ég vil nefna í þeim efnum þrjú atriði.

Í fyrsta lagi er margt sem bendir til þess að fjármunir sem Hafskip fékk að láni úr þjóðbankanum hafi verið fluttir í önnur fyrirtæki sem nú eru með allt sitt á hreinu og þeir sem eiga þessi fyrirtæki, stjórnendur Hafskips, hafi þannig safnað stórfelldum eignum.

Ég vil taka eitt dæmi sem er mjög athyglisvert í þessum efnum en er jafnframt mjög stórt dæmi. Það eru viðskipti Hafskips við Reykvíska endurtryggingu. Hvað er Reykvísk endurtrygging? Það er tryggingafyrirtæki þar sem Hafskip var einn stærsti viðskiptavinurinn. Hverjir eiga Reykvíska endurtryggingu? Þar eru þrír menn stærstir hluthafar. Tveir af þeim: Ragnar Kjartansson, Björgólfur Guðmundsson.

Það kemur fram í viðtali við forstjóra Reykvískrar endurtryggingar í Þjóðviljanum í dag að þótt Hafskip skuldi samtals um 1300 millj. kr. - 1300 millj. kr. - og hafi safnað upp skuldum út um allan heim, skuldum sem jafnvel hafa farið að rýra viðskiptakjör annarra íslenskra skipafélaga og þannig valdið margvíslegu óbeinu tjóni, þá skuldar Hafskip Reykvískri endurtryggingu ekki krónu. Meira að segja síðast fyrir nokkrum vikum gerði Hafskip upp allar sínar skuldir við Reykvíska endurtryggingu. M.ö.o.: Síðustu lánin sem lánuð voru úr banka þjóðarinnar og við eigum nú að fara að borga, fólkið í landinu, í gegnum þennan sérstaka Hafskipsskatt voru notuð til að flytja peninga úr Hafskipi og yfir í Reykvíska endurtryggingu þar sem þeir eiga 18% hvor Ragnar Kjartansson og Björgólfur Guðmundsson.

En sagan er ekki öll búin. Reykvísk endurtrygging flutti nýlega í eitt glæsilegasta eldra húsið í höfuðborginni, sem Björn Jónsson, annar ráðherra Íslendinga, reisti í upphafi þessarar aldar, hús sem stendur beint á móti Hljómskálanum. Þangað flutti Reykvísk endurtrygging og innréttaði með slíkum glæsibrag fyrir nokkru að orð hefur verið á gert í viðskiptaheiminum íslenska og lætur hann sér þó ekki allt blöskra í fínum innréttingum.

Hverjir eiga þetta hús? Hverjir keyptu þetta hús? Var það Reykvísk endurtrygging? Nei, það var ekki Reykvísk endurtrygging. Þessi „matador“ Hafskipsforstjóranna og Sjálfstfl. í fyrirtækjalífinu í landinu var ekki fullkominn án þess að það væri stofnað annað fyrirtæki til þess að eiga sjálft húsið, Staðarstaður hf. Hverjir eiga Staðarstað hf.? Jú, Björgólfur Guðmundsson og Ragnar Kjartansson. Það er ekki nóg að mjólka úr Hafskipi og yfir í annað fyrirtæki heldur er mjólkað úr því fyrirtæki og yfir í þriðja fyrirtækið til að tryggja að hringrásin geti gengið áfram og peningar almennings, sem fengnir voru í Útvegsbankanum, séu nægilega vel faldir.

Það er ánægjulegt fyrir Reykvíkinga og landsmenn alla sem hingað koma í bæinn, kjósendur Framsfl. að norðan, austan og vestan, að keyra á kvöldin fram hjá þessu húsi vegna þess að þeir hafa sérstaklega séð til þess, eigendur byggingarinnar, Björgólfur Guðmundsson og Ragnar Kjartansson, af óskammfeilni sinni að það sé flóðlýst á hverju kvöldi svo dýrðin fari nú ekki fram hjá neinum og allir geti skoðað sérstaklega, kjósendur Framsfl. og flokksmenn Sjálfstfl. allt í kringum landið, hvert peningarnir úr Útvegsbankanum fóru og hvers konar höll það er sem þeir eiga náttúrlega á hreinu í dag, Ragnar Kjartansson og Björgólfur Guðmundsson, þegar upp er staðið. Hún verður ekki tekin upp í skuldirnar. Hún stendur áfram fyrir sínu. Markaðskerfi Sjálfstfl. leyfir þeim auðvitað að halda þessari byggingu. Kenningin um frjálshyggjuna leyfir ekki að fólkið í landinu fái að ganga að þeim. „Matador“ frjálshyggjunnar krefst þess að þeir fái áfram að eiga þetta hús og Reykvíska endurtryggingu. Það er þetta m.a. sem Framsfl. ætlar að koma í veg fyrir að verði rannsakað.

En það eru mörg fleiri dæmi. Helgarpósturinn greinir frá því fyrir skömmu að trúnaðarmenn þessara manna hafi stofnað í Bandaríkjunum, og völdu nafnið ekki af verri endanum, Georgia Export Import. Það var fyrirtæki sem hafði enga skrifstofu, engan starfsmann, hafði bara skúffu hjá forstjóra Hafskips í Bandaríkjunum. Í þessa skúffu voru mjólkaðar með reglubundnum hætti ákveðnar prósentur af hverri skipsferð sem Hafskip fór til Bandaríkjanna, 1000 dollarar hér, 1000 dollarar þar. Þannig var safnað eignum fyrir umboðsmenn og stjórnendur fyrirtækisins í Bandaríkjunum. Á að rannsaka Georgia Export Import samkvæmt ákvörðun ríkisstj., hæstv. forsrh. eða á það kannske að sleppa líka eins og Staðarstaður og Reykvísk endurtrygging?

Þannig er þessi „matador“ mjög margslunginn. Dæmin eru sjálfsagt miklu fleiri. (Gripið fram í: Hvað með Cosmos?) Jú, ég ætla ekki að verja tíma þingsins til að telja upp allan þennan „matador“. Ég tel hins vegar að þjóðin eigi kröfu til þess að hann verði lagður á borð þjóðarinnar svo að almenningur í landinu fái að skoða hvern reit, fái að skoða hve mikið var lagt á reit Reykvískrar endurtryggingar, hvað var mikið lagt á reit Staðarstaðar, hvað var mikið lagt á reit Georgia Export-lmport, sérstaklega þegar fullyrt er í viðtölum Helgarpóstsins við fyrrv. stjórnendur fyrirtækisins í Bandaríkjunum að það hafi verið gagnkvæmir samningar innan Hafskips um mörg skúffufyrirtæki af þessu tagi þar sem hver studdi annan í því að færa fjármagnið til og þar sem virt endurskoðunarfyrirtæki á heimsmælikvarða sögðu sig að lokum frá því að endurskoða þessa reikninga í Bandaríkjunum. Coopers & Lybrand, eitt virtasta endurskoðunarfyrirtæki í heimi, sagði sig frá því að endurskoða reikninga Hafskips í Bandaríkjunum vegna þess að svindlið væri svo mikið, tilfærslurnar væru svo vafasamar að þeir vildu ekki koma nálægt þessu svínaríi. Ég spyr hæstv. forsrh. landsins: Ætlar ríkisstj. að tryggja að það sem Coopers & Lybrand sögðu sig frá og vildu ekki leggja nafn sitt við verði líka rannsakað?

En öll sagan er ekki búin vegna þess að það hafa komið fram margvíslegar upplýsingar um að ýmis elstu fyrirtækin sem áttu í Hafskipi, Frjáls fjölmiðlun með Hörð Einarsson, fyrrv. formann fulltrúaráðsins, og Svein Eyjólfsson, einn af skuggaráðherrum Sjálfstfl., Karnabær, Tropicana-smjörlíkið hjá Davíð Scheving, Páll Jónsson í Polaris og fjölmargir aðrir, hafi notið sérstakra vildarkjara hjá Hafskipi hf. allt fram á síðustu stundu. Það hafi verið veittir afslættir af farmgjöldum. Það hafi verið greiddar desember- og jólauppbætur fyrir þessa herra til þess að þeir færu ekki í jólaköttinn. Þannig hafi þessi fyrirtæki verið notuð til þess að mjólka áfram lánin úr þjóðbankanum yfir í Tropicanasmjörlíkið, yfir í nýja húsið hjá DV hérna uppi í bæ, yfir í Sanitas, yfir í Coca Cola og ýmsar aðrar heildsölur sem ég ætla ekki að nefna vegna nærstaddra.

Í þriðja lagi er svo ljóst að fjármunir þessa fyrirtækis hafa verið notaðir til að fjármagna svo einstætt lúxuslíf hérlendis og erlendis að jafnvel þá sem eru kunnugir erlendum ferðalögum, eins og hæstv. forsrh., Páll Pétursson og sá sem hér stendur, rekur í rogastans yfir þeim upplýsingum sem fram koma um reikningshald Hafskipsforstjóranna á hótelum erlendis. Íslensku þjóðinni þætti sjálfsagt dýrt að borga þessa 300 dollara svítu eða herbergi sem hæstv. forsrh. bjó í á hótel Intercontinental rétt hjá Lexington Avenue í New York þar sem hann gisti þegar hann var þar sem forsrh. Íslands fyrir skömmu. Ég tel það þó fullkomlega eðlilegt því að við þurfum að búa vel að forsrh. okkar þegar hann er í New York. Forstjórar Hafskips létu sér ekki nægja að búa á hótel Intercontinental eins og Steingrímur Hermannsson. Þeir lögðu undir sig 1000 dollara svítur í New York, 40 þús. kr. nóttin, tvenn mánaðarlaun og rösklega það fiskverkunarfólks í landinu pr. nótt. Og þegar þeir löbbuðu út úr einu hótelinu í eitt skipti af mörgum, því að þeir voru oftast nær erlendis meira en hálft árið, var hótelreikningurinn upp á 800 þús. kr. Það væri fróðlegt að vita hvað samanlagðir hótelreikningar Hafskipsforstjóranna erlendis eru hátt hlutfall af því tapi sem þjóðin á nú að borga í gegnum þennan sérstaka Hafskipsskatt. Ef ein dvölin kostaði nærri milljón þurfa þeir ekki að hafa verið oft á hótelum, þessi heilu og hálfu ár sem þeir dvöldu erlendis, til þess að það nálgist fjórðung og jafnvel helming af þeirri skuld sem þjóðin á að borga í gegnum þennan skatt. Það er m.a. þetta, hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh., sem þjóðin vill fá að rannsaka. Við viljum fá að vita það, fólkið allt í kringum landið, í sveitum landsins og í sjávarþorpunum, hvort reikningurinn sem kemur með skattseðlinum til almennings á Íslandi er til að borga lúxuslíf þessara heiðursmanna af því að þeir reyndust ekki verðugir þess trausts sem þjóðbankinn, banki almennings í landinu, sýndi þeim með því að lána þeim fé. Þeir sólunduðu því í 40 þús. kr. nætur á fínustu lúxushótelum veraldar, í 800 þús. kr. hótelreikninga, í 10 metra breiðar drossíur með bar og sjónvarpi og borðaklæddum einkabílstjórum, í golfkúlur með sérstöku Hafskipsmerki og Concorde-ferðalög fram og aftur um heiminn, að ógleymdum þeim veislum sem sagt er að þeir hafi haldið forustu Sjálfstfl. með reglubundnum hætti hér á landi. (Gripið fram í.) Það er alveg ljóst að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson telur rétt að taka það sérstaklega fram að hann hafi ekki verið boðinn í þær veislur, en það vekur athygli að hann er hinn eini af þm. Sjálfstfl. sem gerir þá athugasemd hér í salnum.

Þess vegna, herra forseti, er það því miður nauðsynlegur þáttur í skoðun þessa máls að kanna sérstaklega tengsl forustu Sjálfstfl. við Hafskip og rekstur þess. Ég tek það strax fram að ég er ekki í þessum efnum að væna forustu Sjálfstfl. um saknæmt atferli þó að hæstv. iðnrh. hafi nú sérstaklega skrifað saksóknara ríkisins bréf, beðið Þórð frænda að sjá um að sannleikurinn komi í ljós, heldur er það nú einu sinni þannig í okkar þjóðfélagi að þau fyrirtæki sem talin eru njóta pólitískrar velvildar hafa greiðari aðgang að sjóðum, fjármagni og bönkum en önnur fyrirtæki. Okkar þjóðfélag og okkar fjármálakerfi er því miður með þeim hætti að þar er lögð á metaskálarnar pólitísk velvild þegar verið er að skoða hverjir eigi að fá fjármagn og hverjir ekki. Það hefur löngum verið einkenni á íslensku þjóðfélagi og er ekkert nýtt. En það er einmitt þess vegna sem nauðsynlegt er að þáttur Sjálfstfl. í þessu máli sé eitt af þeim atriðum sem upp á borðið á að koma. Í engu fyrirtæki á Íslandi eru jafnmargar silkihúfur Sjálfstfl. saman komnar og í Hafskipi. Það þekkja allir Albert Guðmundsson. Hann er stór stærð í þessu máli. En ég ætla ekki að gera lítið úr virðingu og vigt hæstv. iðnrh. með því að segja: Að vísu er hann ekki peð á þessu taflborði en hann er varla meira en hrókur þegar öllum taflmönnum Sjálfstfl. í Hafskipsmálinu er stillt upp. - Það verður að vara við því að Sjálfstfl. komist upp með að fórna Albert Guðmundssyni í þessu máli til þess að þvo æru flokksins. Það er alveg ljóst, t.d. á sjónvarpi í gær, að öfl innan Sjálfstfl. eru að vinna að því að reyna að koma því inn hjá þjóðinni að þetta sé eiginlega bara hann Albert. Þess vegna sé þetta allt í lagi svo framarlega sem Albert sé kannaður einn og helst eigi hann að segja af sér, eins og sjónvarpið sagði í gær að ýmsir þm. Sjálfstfl. vildu. Formaður þingflokks Sjálfstfl. lét það eitt duga að gera þá athugasemd við sjónvarpið að hann væri ekki heimildarmaður að fréttinni. Hann bar hana hins vegar ekki til baka.

Albert Guðmundsson sagði á þingi, eins og ég hef áður vikið að, að lögfræðingur bankans hefði reglulega komið í fyrirtækið. Bankastjórinn hefur nú sagt að þetta sé ekki rétt. Albert Guðmundsson sagði í sömu umræðu á þingi 14. nóvember að hann hefði engin bein afskipti haft af málefnum Útvegsbankans og Hafskips. Ég hjó eftir þessu, „bein afskipti“, vegna þess að í okkar pólitíska heimi, okkar fjármálaheimi hafa menn oft og iðulega áhrif með óbeinum afskiptum af málefnum fyrirtækja og málefnum þjóðbanka.

Albert Guðmundsson hefur einnig sagt það, síðast í sjónvarpi fyrir nokkrum dögum, og hælt sér af, að þegar hann hætti sem stjórnarformaður í Hafskipi hefði allt verið í góðu lagi. En hann segir á öðrum stundum að hann hafi engin afskipti haft af málefnum Hafskips gagnvart bankanum. Það er kapítuli út af fyrir sig að formaður í bankaráði hafi engin afskipti af stærsta viðskiptavini bankans og stjórnarformaður í einu af stærstu fyrirtækjum landsins hafi engin afskipti af viðskiptum fyrirtækisins við viðskiptabanka þess. Ég verð að segja eins og er að ég skil ekki alveg hvernig hægt er að reka trippin í tveimur slíkum stöðum ef hvort tveggja á að ganga upp. Það gengur alla vega ekki upp að hæla sér bæði af því að allt hafi verið í lagi þegar hann fór frá bankanum og fyrirtækinu og svo því að hann hafi engin afskipti haft af málefnum bankans og viðskiptum við fyrirtækið.

Matthías Á. Mathiesen er forustumaður Sjálfstfl. í næststærsta kjördæmi landsins. Það er athyglisvert að það eru oddvitar Sjálfstfl. í tveimur stærstu kjördæmum landsins, Reykjavík og Reykjanesi, sem bera stjórnarfarslega ábyrgð á þessu máli á ákveðnu tímabili. Friðrik Sophusson er varaformaður flokksins og sérstakur áhrifamaður á aðalfundum Hafskips. Ragnar Kjartansson var um áraraðir framkvæmdastjóri flokksfélaga og fulltrúaráðs Sjálfstfl. í Reykjavík, Björgólfur Guðmundsson formaður Varðar um áraraðir, Hörður Einarsson formaður fulltrúaráðsins um áraraðir, Jón Zoëga annar framkvæmdastjóri flokksfélaganna í Reykjavík, Davíð Scheving Thorsteinsson miðstjórnarmaður í Sjálfstfl. Jónas Rafnar, fyrrv. alþm. Sjálfstfl. og bankastjóri Útvegsbankans, vék úr þeirri stöðu til að koma öðrum alþm. Sjálfstfl., Lárusi Jónssyni, í þá stöðu og var svo af þriðja alþm. Sjálfstfl., Matthíasi Á. Mathiesen, skipaður formaður bankaráðs Seðlabankans. Það er slíkur fjöldi af alþm. Sjálfstfl. í þessu máli, forustumönnum flokksins hér í Reykjavík um áraraðir, atkvæðamönnum í prófkjörum flokksins, að það hlýtur óhjákvæmilega að vera mikilvægur liður í rannsókn og umfjöllun þessa máls að þáttur Sjálfstfl. í málinu öllu verði á borðinu þegar upp er staðið þannig að þjóðin geti sannfærst um að hér hafi ekkert óeðlilegt átt sér stað.

Næstsíðasti þáttur þessa máls, herra forseti, er staða bankakerfisins í heild. Við heyrðum í hádegisfréttum að forsvarsmenn frystihúsa ganga á fund bankakerfis og ríkisstj. til að lýsa skulda- og rekstrarstöðu þessarar höfuðatvinnugreinar í landinu. Sagt er að fjölmörg af umsvifamestu fyrirtækjum landsins, og ég nefndi nokkur hér áðan, séu á fallanda fæti. Þannig mun vera um Víði sem mér er tjáð að Fjárfestingarfélagið undir forustu Eyjólfs Konráðs Jónssonar hafi lánað 100 millj. fyrir skömmu, 100 millj. sem nú þegar séu tapaðar hjá þessu fyrirtæki, Víði, sem í áraraðir hefur verið sérstakt gælufyrirtæki Sjálfstfl. og verið dælt í það miklum fjármunum af almannafé. Er í fersku minni Víðishúsið svonefnda og fyrirgreiðslan við það í tíð síðustu samstarfsstjórnar Framsfl. og Sjálfstfl. Byggung, umsvifamesta byggingarfyrirtæki sem ungir sjálfstæðismenn stofnuðu, hafði verið í viðskiptum í öðrum banka, flutti sig þaðan yfir í Útvegsbankann þegar breytingar voru gerðar á stjórn bankans.

Þannig er hægt að nefna fjölmörg önnur fyrirtæki. Ísbjörninn er dæmi um fyrirtæki sem að dómi margra hefði orðið gjaldþrota ef Reykjavíkurborg og Landsbankinn hefðu ekki gripið inn í málið. Það segir kannske sína sögu um ástandið í efnahagslífi þjóðarinnar að í sömu vikunni sem formaður Sjálfstfl., hæstv. fjmrh., gerðist ábyrgðaraðili í fjármálakerfi þjóðarinnar var málað yfir tvö helstu stoltfyrirtæki Sjálfstfl. í Reykjavík, málað yfir Ísbjörninn og málað yfir Hafskip. Tímamót þegar málningarrúllan varð helsta hagstjórnartæki ríkisstj. Á þessi málningarstarfsemi að halda áfram í tíð þessarar ríkisstj.? Á að mála yfir Arnarflug, mála yfir Víði, mála yfir Byggung, mála yfir Sjöstjörnuna, mála yfir Hagvirki? Hvað eru þau mörg stórfyrirtækin sem þessi ríkisstj. ætlar að láta mála yfir meðan hún stjórnar efnahagsmálum landsmanna, ríkisstj. sem fyrir nokkrum mánuðum stofnaði sérstakan þróunarsjóð eins og hvert annað grín til að styrkja atvinnulífið í landinu?

Þessir atburðir hafa orðið til þess að það er óhjákvæmilegt að bankaeftirlitinu verði falið, eins og mér var tjáð að hefði komið fram í hádegisfréttum í dag að ríkisstj. hefði samþykkt, að gera sérstaka skýrslu um skuldugustu fyrirtækin við bankakerfið í landinu. Það væri æskilegt að hæstv. viðskrh. gerði þinginu nánari grein fyrir þeirri beiðni um skýrslu. En það er nauðsynlegt að sú skýrsla komi fram, hún verði birt og almenningur fái að skoða alla þessa þætti máls og Alþingi veiti þá nauðsynlegar lagaheimildir til að aflétta bankaleynd í þessum efnum.

Síðasta atriðið, herra forseti, er með hvaða hætti þjóðþingið og ríkisstj. eiga að taka höndum saman til að tryggja þá rannsóknarmeðferð málsins að Íslendingar öðlist á ný þá tiltrú á stofnunum lýðveldisins og þjóðbönkunum sem nauðsynleg er. Hæstv. viðskrh. setti fram þá skoðun fyrir nokkrum dögum að það væri nóg að láta skiptaráðanda annast þessa rannsókn. Formaður bankaráðs Útvegsbankans, hv. alþm. Valdimar Indriðason, hélt sömu skoðun fram í sjónvarpinu s.l. föstudag. Ég mótmælti þá þessari skoðun, vakti athygli á því að slík meðferð skiptaráðanda mundi taka mörg ár og ljóst væri að hún myndi aðeins ná til hluta málsins. Þessi skoðun mín var síðan staðfest í viðtölum Ríkisútvarpsins næsta dag við skiptaráðanda og í baksíðufrétt Morgunblaðsins s.l. sunnudag. Það er því ljóst að fleira verður að gera. Í hádeginu í dag barst einnig sú tilkynning að hæstv. ríkisstj. hefði ákveðið að kosin yrði eða skipuð þriggja manna nefnd, jafnvel tilnefnd af Hæstarétti, til þess að annast rannsókn málsins. Ég spyr: Hvers vegna vill hæstv. ríkisstj. ekki samvinnu við Alþingi um að skipa þessa rannsókn? Hvers vegna þorir Sjálfstfl. ekki að láta rannsóknarnefndir Alþingis fjalla um þetta mál? Hvers vegna vilja Sjálfstfl. og Framsfl. loka þetta mál inni í nefnd þriggja embættismanna eða sérfræðinga, sem mun starfa fyrir lokuðum dyrum, þegar höfuðkrafan í tillögunum um rannsóknarnefnd Alþingis er að sú athugun fari fram fyrir opnum tjöldum þannig að almenningur í landinu og fjölmiðlarnir fái aðgang að öllu því sem fram kemur en þurfi ekki að horfa á heildarskýrslu sem einhverjir þrír menn leggja saman þannig að þeir einir hafi aðgang að öllum upplýsingum og gögnum málsins? Það dugir ekki að hæstv. ríkisstj. velji bara þrjá menn, jafnvel þótt Hæstiréttur sé notaður til þess, án þess að erindisbréf þessa hóps liggi fyrir, án þess að það liggi fyrir hvort hann á að starfa fyrir opnum tjöldum eður ei og án þess að Alþingi, kjörnir fulltrúar þjóðarinnar, fái aðgang að þessari málsmeðferð. Ég skora því á hæstv. ríkisstj. að lýsa því yfir í umræðunum í dag að hún sé reiðubúin til samvinnu við alla þingflokka um að skipa þessari rannsókn með þeim hætti að þjóðin og þingið geti vel við unað.

Herra forseti. Hafskipsmálið er reiðarslag. Það er ekki aðeins gjaldþrotamál af óvenjulegri stærð. Það er líka mál sem snertir 1200-1300 íbúa í höfuðborginni þar sem fyrirvinna heimilanna missir atvinnu. Rúmlega 1000 íbúar höfuðborgarinnar verða að halda þessi jól í óvissu þess hvað tekur við. 200-300 starfsmenn hafa misst atvinnuna og það kemur fram í blöðum að illa gengur að útvega þeim ný störf. Þess vegna mun jólahaldið á hundruðum heimila í Reykjavík bera mikinn skugga. Ég held að þingheimur ætti að hlýða á þá áskorun sem starfsmannafélag Hafskips hefur sent Alþingi. Þar er skorað á Alþingi að kjósa sérstaka rannsóknarnefnd til þess að starfsfólkið sem nú hefur misst atvinnu sína geti verið í fullvissu þess að öll gögn og efnisatriði málsins hafi verið lögð fram.

Herra forseti. Það bíður svo næstu daga að taka ákvarðanir um hvað þarf að gera til að koma í veg fyrir slíka atburði sem hér hafa orðið. Það þarf margt að gera. Það þarf ekki bara að kjósa þær rannsóknarnefndir sem hér hafa verið lagðar fram tillögur um, bæði af Alþb. og Alþfl. Það þarf líka að samþykkja það frv. um sjálfstætt bankaeftirlit sem Guðrún Helgadóttir og nokkrir aðrir þm. Alþb. hafa flutt. Það þarf líka að setja strangar reglur um afskipti stjórnmálamanna af rekstri fyrirtækja og bankastarfsemi. Geta menn þar farið í smiðju t.d. til Bandaríkjanna og skoðað hvaða ströngu reglur eru þar í gildi. Það þarf í fjórða lagi að skoða rækilega ákvæði þeirra bankalaga sem taka eiga gildi um næstu áramót, sérstaklega hvað varðar bankaleynd, til að koma í veg fyrir að í skjóli bankaleyndar verði áfram haldið á málum eins og gert hefur verið hingað til. Ég tel það skyldu þjóðþingsins að ekki verði staðið upp frá störfum hér fyrir jól fyrr en gengið hefur verið frá verulegum hluta þessara mála.

Ég vil að lokum beina þeirri fsp. til hæstv. ríkisstj. hvort hún sé einnig reiðubúin til samstarfs við þjóðþingið um nauðsynlegar lagabreytingar og nauðsynlegar aðgerðir aðrar sem tryggja að Hafskipsmálið verði ekki upphafskafli í langri sögu heldur lokakafli í ljótri sögu, sögu sem mun varpa skugga um langan tíma á íslenskt þjóðlíf, á stjórnstofnanir lýðveldisins, á fjármálakerfi Íslendinga. Málið er samkvæmt fréttum erlendis að rýra traust á þjóðina í nágrannalöndum og í alþjóðlegum fjármála- og lánastofnunum á þann veg að þau lánskjör sem Íslendingum verða boðin á næstu árum verða verri, verða dýrari fyrir fólkið í landinu en þau hefðu ella orðið. Við skulum gera okkur grein fyrir að við berum þess vegna í þessum efnum ekki bara ábyrgð á því sem gert er hér innanlands. Við berum líka ábyrgð á því að orðstír Íslendinga í nágrannalöndum og í samfélagi siðaðra þjóða verði ekki með þeim hætti að við verðum talin í flokki þeirra ríkja þar sem allt er leyfilegt, þar sem siðleysið ríkir og þar sem sjálfsagðar kröfur um meðferð fjármála og skyldur opinberra stjórnmálamanna eru ekki hafðar í heiðri. Það er því mikil ábyrgð sem hvílir á þeim sem eru í þessum sal, það er mikil ábyrgð sem hvílir á þeim sem þjóðin hefur kjörið til þess að leysa þau stóru vandamál sem að henni steðja.