1993  nr. 99  8. september

Lög um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum.


I. KAFLI
Tilgangur laganna og orðaskýringar.
1. gr.
     Tilgangur þessara laga er:
a.
að stuðla að framförum og aukinni hagkvæmni í búvöruframleiðslu og vinnslu og sölu búvara til hagsbóta fyrir framleiðendur og neytendur,
b.
að framleiðsla búvara til neyslu og iðnaðar verði í sem nánustu samræmi við þarfir þjóðarinnar og tryggi ávallt nægjanlegt vöruframboð við breytilegar aðstæður í landinu,
c.
að nýttir verði sölumöguleikar fyrir búvörur erlendis eftir því sem hagkvæmt er talið,
d.
að kjör þeirra sem landbúnað stunda verði í sem nánustu samræmi við kjör annarra stétta,
e.
að innlend aðföng nýtist sem mest við framleiðslu búvara, bæði með hliðsjón af framleiðsluöryggi og atvinnu,
f.
að stuðla að jöfnuði á milli framleiðenda í hverri búgrein hvað varðar afurðaverð og markað.


2. gr.
     Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
      Afurðastöð er hver sú atvinnustarfsemi lögaðila eða einstaklings sem tekur við búvörum úr höndum framleiðenda til vinnslu, flokkunar, pökkunar, geymslu, heildsölu og/eða dreifingar.
      Búvörur teljast í lögum þessum afurðir búfjár, þar með taldar afurðir nautgripa, sauðfjár, hrossa, svína, alifugla og loðdýra, afurðir nytjajurta og afurðir hlunninda. Lög þessi taka ekki til afurða alifiska.
      Efri og neðri mörk greiðslumarks eru leyfileg fráviksmörk framleiðslu á lögbýli frá greiðslumarki býlisins án þess að frávikið valdi breytingu á beinum greiðslum úr ríkissjóði nema kveðið sé á um aðrar viðmiðanir í samningum Stéttarsambands bænda og landbúnaðarráðherra skv. a-lið 1. mgr. 30. gr. eða í reglugerðum við lög þessi.
      Fóður merkir í lögum þessum vöru sem notuð er til fóðrunar búfjár við búvöruframleiðslu.
      Framleiðandi er hver sá, sem á eigin vegum hefur með búvöruframleiðslu að gera, hvort sem er einstaklingur, lögaðili, aðili að félagsbúi eða ríkisbú.
      Greiðslumark lögbýlis er tiltekið magn kindakjöts, mælt í kílógrömmum, eða mjólkur, mælt í lítrum, sem ákveðið er fyrir hvert lögbýli samkvæmt búvörusamningi og veitir rétt til beinnar greiðslu úr ríkissjóði.
      Heildargreiðslumark er tiltekið magn kindakjöts mælt í tonnum, eða mjólkur, mælt í lítrum, sem ákveðið er samkvæmt búvörusamningi með tilliti til heildarneyslu innan lands og skiptist milli lögbýla eftir greiðslumarki þeirra.
      Lögbýli eða jörð er í lögum þessum skilgreint skv. 1. gr. ábúðarlaga nr. 64 31. maí 1976, með síðari breytingum.
      Sláturleyfishafi er hver sá aðili sem hefur löggildingu eða undanþáguleyfi til slátrunar búfjár samkvæmt lögum nr. 30 28. apríl 1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum, með síðari breytingum.
      Verðlagsár er tímabilið frá 1. september til 31. ágúst árið eftir. Þó getur landbúnaðarráðherra ákveðið, að fenginni umsögn Framleiðsluráðs landbúnaðarins, að verðlagsár fylgi almanaksári.
     Rísi ágreiningur um hvað falla skuli undir hugtök þessi sker landbúnaðarráðherra úr þeim ágreiningi.

II. KAFLI
Yfirstjórn og samtök framleiðenda.
3. gr.
     Landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem lög þessi taka til.

4. gr.
     Stéttarsamband bænda fer með fyrirsvar framleiðenda búvara við framkvæmd laga þessara nema öðruvísi sé kveðið á um í lögum þessum.
     Ráðherra getur, að fengnu samþykki Stéttarsambands bænda, viðurkennt einstök landssamtök framleiðenda búvara til að fara með fyrirsvar vegna framleiðenda í viðkomandi grein við gerð samninga skv. a-lið 1. mgr. 30. gr. og aðrar ákvarðanir samkvæmt lögum þessum.
     Stéttarsamband bænda eða landssamtök skv. 2. mgr. skulu velja sér samninganefnd sem fer með umboð þeirra til samningsgerðar. Samtökin skulu tilkynna landbúnaðarráðherra um nöfn formanns og varaformanns samninganefndar eigi síðar en 1. júní vegna samninga fyrir næstkomandi verðlagsár.
     Framleiðandi búvöru, sem lög þessi taka til, á rétt til að vera félagsmaður í Stéttarsambandi bænda eða viðurkenndum samtökum búvöruframleiðenda skv. 2. mgr. þessarar greinar eftir nánari reglum í samþykktum Stéttarsambands bænda.
     Samningar, sem Stéttarsamband bænda eða viðurkennd samtök skv. 2. mgr. gera skv. a-lið 1. mgr. 30. gr., skulu vera bindandi fyrir framleiðendur viðkomandi búvara hvort sem þeir eru félagar í Stéttarsambandi bænda, samtökum skv. 2. mgr. eða standa utan þessara félagssamtaka.

III. KAFLI
Um skipan og verkefni Framleiðsluráðs.
5. gr.
     Framleiðsluráð landbúnaðarins er samstarfsvettvangur allra búvöruframleiðenda í landinu og samtaka þeirra.
     Framleiðsluráð skal skipað fimmtán mönnum. Skulu tólf menn kjörnir af Stéttarsambandi bænda á fulltrúafundi þess. Af þeim skulu fimm vera fulltrúar búgreinasambanda. Þá skipar stjórn Stéttarsambands bænda tvo menn í Framleiðsluráð, einn samkvæmt tilnefningu Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði og einn samkvæmt tilnefningu Landssamtaka sláturleyfishafa í landinu. Skulu þessir tveir fulltrúar tilnefndir úr hópi starfandi búvöruframleiðenda. Þá tilnefnir landbúnaðarráðherra einn mann í Framleiðsluráð. Velja skal jafnmarga varamenn í Framleiðsluráð með sama hætti.
     Framleiðsluráð skal skipað til tveggja ára í senn. Framleiðsluráð kýs sér formann og varaformann til sama tíma.
     Þegar rætt er um málefni er varða aðrar búgreinar en fulltrúa eiga í Framleiðsluráði ber að gefa fulltrúum félaga þeirra, einum frá hverju, kost á að sitja fund Framleiðsluráðs með málfrelsi og tillögurétti.
     Framleiðsluráð kýs úr sínum hópi aðal- og varamenn í framkvæmdanefnd. Verkefni nefndarinnar er að taka ákvörðun um og afgreiða mál sem ekki þykir fært að fresta til fundar Framleiðsluráðs. Jafnframt getur Framleiðsluráð falið framkvæmdanefnd framkvæmd einstakra mála.
     Framleiðsluráð ræður sér framkvæmdastjóra og annað starfslið eftir því sem þörf krefur.

6. gr.
     Verkefni Framleiðsluráðs landbúnaðarins eru, auk þess sem mælt er fyrir í lögum þessum, eftirfarandi:
1.
Að stuðla að því að framleiðsla og vinnsla búvara verði í samræmi við ákvæði 1. gr.
2.
Að annast stjórn búvöruframleiðslunnar eftir því sem nánar er mælt fyrir í lögum þessum og fyrirmælum sem sett eru á grundvelli þeirra.
3.
Að annast verðskráningu búvara og auglýsa verð á þeim.
4.
Að gera áætlanir um framleiðslu og sölu búvara.
5.
Að vera umsagnaraðili um skipulag vinnslu búvara og hafa eftirlit með því að starfsemi afurðastöðva sé sem hagkvæmust.
6.
Að halda skýrslur um framleiðslu og sölu búvara og að gefa út ársrit um þróun og hag landbúnaðarins.
7.
Að annast kynningar- og fræðslustarf um landbúnaðinn og framleiðsluvörur hans.
8.
Að rækja önnur verkefni sem landbúnaðarráðherra kann að fela því.


IV. KAFLI
Um verðskráningu á búvörum.
7. gr.
     Verðlagsnefnd búvara, skipuð sex mönnum tilnefndum af samtökum framleiðenda og neytenda, skal ákveða afurðaverð til búvöruframleiðenda. Af hálfu framleiðenda hefur stjórn Stéttarsambands bænda rétt til þess að tilnefna þrjá fulltrúa í nefndina en af hálfu neytenda hefur stjórn Alþýðusambands Íslands rétt til að tilnefna tvo fulltrúa og stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja einn fulltrúa í nefndina. Tilnefningu fulltrúa í verðlagsnefnd skal lokið 15. júní ár hvert. Nú notar einhver aðili ekki rétt sinn til tilnefningar og skal landbúnaðarráðherra þá tilnefna í stað þeirra samtaka framleiðenda en félagsmálaráðherra á sama hátt í stað samtaka neytenda. Nefndin skal fullskipuð 1. júlí ár hvert.
     Hagstofustjóri og forstöðumaður Hagþjónustu landbúnaðarins skulu vera verðlagsnefnd til aðstoðar.

8. gr.
     Til ákvörðunar á verði búvöru til framleiðenda skal verðlagsnefnd semja um verðlagsgrundvöll er sýni áætlaða vinnuþörf, fjármagnskostnað, rekstrargjöld, launakostnað og afurðir bús sem næst meðalbúi að stærð í nautgripa- og sauðfjárrækt og er rekið við eðlilegar framleiðsluaðstæður. Verðlagsnefnd skal semja um sérstakan verðlagsgrundvöll fyrir hvora þessara búgreina verði hún sammála um það eða komi ósk þess efnis frá Stéttarsambandi bænda. Á sama hátt skal verðlagsnefnd semja um verðlagsgrundvöll og ákveða verð á afurðum annarra búgreina enda komi fram um það óskir frá Stéttarsambandi bænda og viðurkenndum samtökum búvöruframleiðenda í viðkomandi grein skv. 2. mgr. 4. gr. Við gerð verðlagsgrundvallar skulu beinar greiðslur ríkissjóðs til framleiðenda teljast til tekna og koma til lækkunar á afurðaverði þeirra afurða sem beinar greiðslur taka til.
     Nú er sauðfé slátrað utan tímabilsins 1. september til 30. nóvember og geta Stéttarsamband bænda eða samtök framleiðenda þá óskað eftir því að verðlagsnefnd ákveði sérstakt verð til framleiðenda sauðfjárafurða. Skal nefndin þá ákveða slíkt verð er gildi fram til næstu reglulegrar verðlagningar.
     Nú næst ekki meiri hluti í verðlagsnefnd varðandi ákvörðun verðlagsgrundvallar og skal þá vísa ágreiningnum til sáttasemjara ríkisins. Heimilt er þó að vísa ágreiningnum beint til yfirnefndar enda séu allir nefndarmenn sammála um þá málsmeðferð. Skal sáttasemjari leitast við að finna málamiðlun í ágreiningsatriðum og leggja fram tillögur þeim til úrlausnar er meiri hluti fæst fyrir í nefndinni. Heimilt er sáttasemjara að leita álits þeirra aðila, er annast tilnefningu í verðlagsnefnd, um ágreiningsatriði varðandi ákvörðun verðlagsgrundvallar eða verðlagningu búvara. Beri sáttaumleitanir ekki árangur innan tíu daga skal skipa þriggja manna nefnd er felli fullnaðarúrskurð. Hvor nefndarhluti verðlagsnefndar hefur rétt til þess að tilnefna mann í þá nefnd, þó ekki úr hópi nefndarmanna, en oddamaður skal tilnefndur af Hæstarétti. Nú notar annar eða báðir nefndarhlutar ekki rétt sinn til tilnefningar og tilnefnir þá landbúnaðarráðherra af hálfu framleiðenda ef þeir nota ekki rétt sinn en félagsmálaráðherra af hálfu neytenda. Þó er ráðherrum eigi heimilt að tilnefna menn sem eiga sæti í verðlagsnefnd.
     Nú dregst verðlagning vegna starfa sáttasemjara og yfirnefndar svo að hún getur eigi tekið gildi á réttum degi og gildir þá framreikningur Hagstofunnar skv. 10. gr. þar til samkomulag næst eða úrskurður fellur.

9. gr.
     Verð búvöru til framleiðenda skal miðast við það að tekjur þeirra, er landbúnað stunda, verði í sem nánustu samræmi við tekjur annarra stétta. Í verðlagsgrundvelli skal, sbr. ákvæði 8. gr., tilfæra ársvinnu á búi af stærð sem miðað er við hverju sinni og virða vinnutíma til samræmis við kjör þeirra sem vinna sambærileg störf og hafa svipaða menntun, sérhæfni og ábyrgð í starfi á almennum vinnumarkaði. Samhliða skulu ákveðnar reglur um hvernig haga skuli breytingum á launum við búvöruframleiðslu skv. 12. gr.

10. gr.
     Verðlagsgrundvöllur til ákvörðunar búvöruverðs til framleiðenda skv. 8. gr. gildir fyrir tvö ár í senn frá byrjun verðlagstímabils 1. september og skal hann vera tilbúinn fyrir þann tíma ár hvert nema annað sé ákveðið með samkomulagi í verðlagsnefnd. Þó skal taka inn verðlagsbreytingar vegna fjármagns- og reksturskostnaðar svo og launabreytingar skv. ákvæðum 12. gr. Verðlagsgrundvöllur hvers tímabils framlengist sjálfkrafa um tvö ár í senn ef honum er ekki sagt upp af fulltrúum samningsaðila fyrir 1. júní á því ári sem óskað er breytinga á honum. Þó getur nefndin komið sér saman um annan frest. Þegar verðlagsgrundvelli hefur ekki verið sagt upp færir Hagstofa Íslands hann fram til viðkomandi verðlagsárs í samræmi við áorðnar breytingar á verðlagi og kaupgjaldi eftir reglum sem ákveðnar hafa verið af verðlagsnefnd.

11. gr.
     Hagstofa Íslands skal fyrir 15. júlí ár hvert afla fullnægjandi gagna handa verðlagsnefnd um framleiðslukostnað búvara og afurðamagn, svo og tekjur annarra stétta á undangengnu ári, sbr. ákvæði 9. gr.
     Hagþjónusta landbúnaðarins skal afla árlega rekstursreikninga frá bændum, nægilega margra að dómi Hagstofu Íslands, er sýni raunverulegan framleiðslukostnað hinna ýmsu búvara. Skulu þeir vera tilbúnir og uppgerðir fyrir 15. júní ár hvert fyrir næsta ár á undan. Reikningar þessir skulu vera til afnota fyrir Hagstofu Íslands og verðlagsnefnd. Stjórn Hagþjónustu landbúnaðarins, ásamt Hagstofu Íslands, skipuleggur þetta starf hennar í samráði við verðlagsnefnd.
     Verðlagsnefnd getur ákveðið að efna til sérstakra rannsókna í því skyni að fá betri upplýsingar um þau atriði er máli skipta fyrir verðlagningu búvara. Skylt er að stofna til slíkra rannsókna ef þrír nefndarmenn eða fleiri krefjast þess. Skal nefndin í því efni leita samstarfs við Hagstofu Íslands, Hagþjónustu landbúnaðarins og aðrar opinberar stofnanir, svo og Framleiðsluráð landbúnaðarins að því leyti sem rannsóknir þessar snerta starfssvið viðkomandi stofnana. Telji umræddar stofnanir sig ekki geta látið í té starfslið til þess að framkvæma þær rannsóknir er verðlagsnefnd hefur ákveðið að fram skuli fara er nefndinni heimilt að ráða til þess nauðsynlegt starfslið enda komi samþykki landbúnaðarráðherra til.
     Skylt er einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum að láta þeim, er rannsóknir framkvæma, í té nauðsynlegar upplýsingar.

12. gr.
     Verðlagsnefnd gerir ársfjórðungslega, 1. desember, 1. mars og 1. júní, breytingar á verðlagsgrundvelli og afurðaverði til framleiðenda þegar breytingar verða á fjármagns- og rekstrarkostnaði við búvöruframleiðslu samkvæmt upplýsingum sem Hagstofa Íslands aflar og launum í samræmi við reglur lokaákvæðis 9. gr.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er verðlagsnefnd heimilt að víkja frá því að gera ársfjórðungslega breytingu á verðlagsgrundvelli og afurðaverði til framleiðenda, að hluta eða öllu leyti. Þrátt fyrir ákvæði 8.–10. gr. er verðlagsnefnd heimilt við ákvörðun á nýjum verðlagsgrundvelli að semja um tilteknar fyrir fram ákveðnar framleiðnikröfur á gildistíma grundvallarins. Verðlagsnefnd er heimilt við ákvörðun og breytingar á verðlagsgrundvelli og afurðaverði til framleiðenda að víkja frá ákvæðum 8.–10. gr. og 1. mgr. 12. gr. og breyta einstökum liðum og verði einstakra afurða, enda sé um það fullt samkomulag innan nefndarinnar.

13. gr.
     Heildsöluverð búvara skal ákveðið af nefnd fimm manna er í eiga sæti, undir forsæti verðlagsstjóra eða fulltrúa hans, tveir fulltrúar neytenda og tveir fulltrúar afurðastöðva fyrir búvörur. Fulltrúar neytenda skulu tilnefndir af sömu aðilum og tilnefna fulltrúa neytenda í Verðlagsráð. Samtök afurðastöðva skulu tilnefna tvo fulltrúa í nefndina. Fulltrúar afurðastöðva skulu tilnefndir af samtökum þeirra þannig að þegar fjallað er um heildsöluverð og verðmiðlunargjöld taki sæti í nefndinni fulltrúar frá þeirri vinnslugrein sem um er rætt hverju sinni.
     Tilnefningu fulltrúa í fimmmannanefnd skal vera lokið fyrir 15. júní ár hvert. Nú notar einhver aðili neytenda eða afurðastöðva ekki rétt sinn til tilnefningar og skal landbúnaðarráðherra þá tilnefna í stað þeirra samtaka afurðastöðva er ekki nota rétt sinn en viðskiptaráðherra á sama hátt í stað neytenda. Nefndin skal fullskipuð 1. júlí ár hvert.

14. gr.
     Fimmmannanefnd skal leitast við að ná samkomulagi um heildsöluverð búvara þar sem gengið er út frá því afurðaverði til framleiðenda sem ákveðið hefur verið skv. 7.–12. gr. og rökstuddum upplýsingum um kostnað við vinnslu og dreifingu búvara. Nefndin gerir jafnframt tillögu til ráðherra um verðmiðlunargjöld í samráði við Framleiðsluráð landbúnaðarins. Nefndin getur ákveðið að efna til sérstakra rannsókna í því skyni að fá betri upplýsingar um þau atriði er máli skipta fyrir ákvörðun heildsöluverðs á búvörum með hliðstæðum hætti og til er tekinn í 11. gr.
     Skal það samkomulag um heildsöluverð, sem stutt er meiri hluta fimmmannanefndar, gilda sem heildsöluverð á viðkomandi búvöru frá byrjun viðkomandi verðlagsárs.
     Fimmmannanefnd er, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr., heimilt í samkomulagi um heildsöluverð að gera tilteknar fyrir fram ákveðnar framleiðnikröfur til afurðastöðva, enda sé það samhljóða ákvörðun nefndarinnar.

15. gr.
     Heimilt er fimmmannanefnd að breyta heildsöluverði á búvörum þegar breytingar verða á afurðaverði til búvöruframleiðenda, sbr. 12. gr., svo og rekstrarkostnaði og vinnulaunum við vinnslu búvara samkvæmt upplýsingum sem Hagstofa Íslands aflar.

16. gr.
     Fimmmannanefnd getur að fenginni umsögn Framleiðsluráðs ákveðið að undanskilja einstakar vörutegundir verðlagningarákvæðum skv. 13.–15. gr. þegar samkeppni er að mati nefndarinnar næg til þess að tryggja æskilega verðmyndun og sanngjarnt verðlag. Fimmmannanefnd skal tilkynna verðlagsráði um ákvarðanir samkvæmt þessari grein og geta fimmmannanefnd og Verðlagsstofnun skyldað hlutaðeigandi aðila til að tilkynna um verðhækkanir viðkomandi búvara.
     Sé verð búvara til framleiðenda ekki ákveðið skv. 8. gr. skal fara um verðlagningu þeirra, þar með talið í heildsölu, samkvæmt lögum nr. 56 16. maí 1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, með síðari breytingum.

17. gr.
     Um ákvörðun smásöluverðs þeirra búvara, sem verðlagðar eru í heildsölu samkvæmt lögum þessum, skal fara eftir lögum nr. 56 16. maí 1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, með síðari breytingum.
     Ákvæði IV. til og með IX. kafla laga nr. 56 16. maí 1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, með síðari breytingum, skulu gilda um viðskipti með búvörur, að því leyti sem eigi er ákveðið í lögum þessum, reglugerðum eða öðrum fyrirmælum settum samkvæmt þeim. Áður en verðlagsráð og Verðlagsstofnun taka ákvarðanir samkvæmt ákvæðum nefndra kafla laganna skal leitað umsagnar Framleiðsluráðs landbúnaðarins og samtaka framleiðenda í viðkomandi búgrein skv. 47. gr. þeirra laga.

18. gr.
     Enginn má kaupa eða selja búvöru innan lands á öðru verði en ákveðið hefur verið samkvæmt ákvæðum þessara laga.
     Óheimilt er að bæta upp söluverð búvara á erlendum mörkuðum með því að hækka söluverð þeirra innan lands.

V. KAFLI
Um verðmiðlun.
19. gr.
     Verðmiðlun á búvörum skal haga þannig að afurðastöðvum sé gert kleift að greiða framleiðendum sama verð fyrir sams konar búvörur. Í því skyni skal innheimt verðmiðlunargjald af þeim búvörum sem fimmmannanefnd ákveður heildsöluverð á og skal gjald þetta teljast til heildsölu- og dreifingarkostnaðar. Landbúnaðarráðherra ákveður upphæð gjaldsins hverju sinni en gjaldið má þó aldrei vera hærra en 5 1/ 2% af heildsöluverði viðkomandi búvöru. Fimmmannanefnd skal um leið og heildsöluverð er ákveðið, að höfðu samráði við Framleiðsluráð, gera tillögu til ráðherra um innheimtu verðmiðlunargjalda, sbr. 14. gr., og skiptingu tekna af þeim milli framleiðsluvara og afurðastöðva. Skylt er að leggja samkomulag eða ákvörðun skv. 59. og 62. gr. til grundvallar ákvörðun verðmiðlunargjalda samkvæmt þessari grein.
     Tekjum af verðmiðlunargjaldi skal m.a. varið þannig:
a.
til verðmiðlunar á milli afurðastöðva til þess að jafna flutningskostnað frá framleiðendum að afurðastöð í þeim tilgangi að auðvelda hagkvæman rekstur stöðvanna,
b.
til þess að koma á hentugri verkaskiptingu á milli afurðastöðva,
c.
til að jafna aðstöðu afurðastöðvanna til að koma framleiðsluvörum sínum á markað,
d.
til þess að greiða nauðsynlega flutninga á milli svæða þar sem vöntun kann að vera á einstökum afurðum, sbr. 60. gr.


20. gr.
     Landbúnaðarráðherra getur heimilað innheimtu verðskerðingargjalds af þeim afurðum sem lög þessi ná til. Það dregst af verði til framleiðenda. Gjald þetta má að hámarki nema 5% af afurðaverði til framleiðenda og skal tekjum af því varið til markaðsaðgerða innan lands eða utan. Innheimta gjaldsins er háð því að fulltrúafundur Stéttarsambands bænda hafi óskað eftir töku þess og að tillaga um það hafi verið kynnt í fundarboði nema um sé að ræða gjaldtöku til að leiðrétta birgðastöðu skv. 41. eða 48. gr. Ráðherra setur í reglugerð ákvæði um innheimtu og ráðstöfun verðskerðingargjalds.

21. gr.
     Landbúnaðarráðherra getur heimilað innheimtu allt að 5% verðskerðingargjalds af úrvinnslu- og heildsölukostnaði afurðastöðva í sama skyni og 20. gr. kveður á um, enda liggi fyrir ósk um gjaldtöku frá landssamtökum viðkomandi afurðastöðva nema um sé að ræða gjaldtöku til að leiðrétta birgðastöðu skv. 41. eða 48. gr.

22. gr.
     Þrátt fyrir ákvæði 29. gr. getur landbúnaðarráðherra ákveðið, að fenginni tillögu Framleiðsluráðs landbúnaðarins og samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði, að útborgunarverð til framleiðenda skuli vera mismunandi hátt eftir árstímum. Sé útborgunarverðið ákveðið lægra en grundvallarverð skv. 8. gr. skal mismunurinn innheimtur sem verðmiðlunargjald. Skal tekjum af gjaldinu varið til að greiða framleiðendum álag á grundvallarverð á öðrum árstíma. Gjald þetta skal ekki hafa áhrif á útsöluverð mjólkurvara til neytenda. Gjaldið má vera allt að 15% af grundvallarverði viðkomandi búvöru á hverjum tíma.

23. gr.
     Verðmiðlunargjöld og framleiðslugjöld samkvæmt kafla þessum mega annaðhvort vera tiltekin fjárhæð á hverja þyngdareiningu viðkomandi búvöru eða tiltekið hlutfall af því verði vörunnar sem viðkomandi gjald er reiknað af. Þó mega gjöld aldrei vera hærri en ákveðið er skv. 19.–22. og 25. gr.

24. gr.
     Framleiðsluráð landbúnaðarins annast framkvæmd verðmiðlunar, þar með talið innheimtu, vörslu og reikningshald vegna verðmiðlunar og framleiðslugjalda samkvæmt kafla þessum. Reikningum hvers verðmiðlunargjalds skal haldið sérgreindum. Kostnaður af starfi Framleiðsluráðs landbúnaðarins að þessum verkefnum skal greiddur af innheimtum verðmiðlunar- og framleiðslugjöldum samkvæmt kafla þessum eftir reikningi sem ráðherra staðfestir.
     Gögn um innheimtu og álagningu, svo og reikningar þeirra gjalda sem innheimt eru samkvæmt kafla þessum, skulu endurskoðuð af tveim löggiltum endurskoðendum og skal annar tilnefndur af landbúnaðarráðherra en hinn af Framleiðsluráði landbúnaðarins. Ársreikningar vegna þessara gjalda skulu birtir í Stjórnartíðindum.
     Afurðastöðvar og heildsöluaðilar, sem versla með gjaldskyldar búvörur, skulu standa Framleiðsluráði skil á verðmiðlunar- og framleiðslugjöldum svo og þeim gjöldum sem á eru lögð skv. 25. gr. Selji framleiðandi búvörur sínar beint til neytanda ber honum að standa skil á gjöldum þessum til Framleiðsluráðs.

25. gr.
     Til að standa straum af kostnaði Framleiðsluráðs landbúnaðarins við framkvæmd laga þessara, umfram þann kostnað sem það fær greiddan samkvæmt öðrum ákvæðum þessara laga, er landbúnaðarráðherra heimilt að fenginni tillögu Framleiðsluráðs að ákveða að innheimt skuli gjald af heildsöluverði þeirra búvara sem lög þessi taka til.
     Gjald þetta má vera mishátt eftir einstökum tegundum búvara en þó aldrei hærra en 0,25% af heildsöluverði þeirra.
     Framleiðsluráði er heimilt að fengnu samþykki ráðherra að láta hluta af gjaldi, sem innheimt er samkvæmt þessari grein, renna til samtaka framleiðenda eða afurðastöðva í viðkomandi búgrein enda annist þau samtök sambærileg verkefni og Framleiðsluráði eru ætluð í lögum þessum vegna búgreinarinnar.

26. gr.
     Framleiðsluráð landbúnaðarins annast öflun þeirra gagna sem þörf er á til framkvæmdar verðmiðlunar samkvæmt kafla þessum og lætur fimmmannanefnd í té slíkar upplýsingar. Fimmmannanefnd getur óskað eftir því að Framleiðsluráð afli tiltekinna gagna vegna þessa og leggi þau fyrir nefndina.
     Aðilum, er annast vinnslu og sölu búvara, er skylt að veita Framleiðsluráði upplýsingar er að þessu lúta og þeir geta látið í té. Neiti aðili eða sinni því ekki að láta í té umbeðin gögn er heimilt að fresta greiðslu verðmiðlunargjalda eða framleiðslugjalda samkvæmt kafla þessum til viðkomandi þar til fullnægjandi skil hafa verið gerð auk þess sem heimilt er að beita dagsektum, sbr. 70. gr.

27. gr.
     Verðmiðlunargjöld, framleiðslugjöld og gjald til Framleiðsluráðs samkvæmt kafla þessum má taka lögtaki.
     Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um gjaldskyldu, innheimtu, gjalddaga, lögvernd, álagningu gjaldanna samkvæmt áætlun og annað sem lýtur að framkvæmd á innheimtu gjaldanna.
     Þá setur ráðherra í reglugerð ákvæði um framkvæmd uppgjörs og greiðslu tekna af verðmiðlunar- og framleiðslugjöldum samkvæmt kafla þessum til afurðastöðva og framleiðenda og um uppgjörstímabil.

VI. KAFLI
Um greiðslu afurðaverðs.
28. gr.
     Afurðastöð er skylt að haga greiðslum til framleiðanda fyrir innlagðar búvörur í samræmi við ákvæði þessara laga og þeirra samninga og ákvarðana sem teknar eru með heimild í þeim.

29. gr.
     Nú er ákveðið það magn búvöru sem hverjum framleiðanda eru tryggðar beinar greiðslur fyrir samkvæmt heimild í 30. gr. og verð hennar til framleiðanda er ákveðið skv. 8. gr. og er þá afurðastöð skylt að greiða framleiðanda fullt verð innan greiðslumarks samkvæmt gildandi verðlagsgrundvelli á innleggsdegi, sbr. þó 22. gr., fyrir búvörur, aðrar en þær sauðfjárafurðir sem lagðar eru inn í haustsláturtíð, 1. september til 30. nóvember. Ber að inna greiðslu af hendi eigi síðar en 10. dag næsta mánaðar eftir innleggsmánuð. Fyrir sauðfjárafurðir lagðar inn í haustsláturtíð ber að greiða með eftirgreindum hætti:
1.
Frumgreiðsla í síðasta lagi 25. október til þeirra sem slátra fyrir þann dag. Þeir, sem slátra síðar, hljóti greiðsluna í síðasta lagi tíu dögum eftir innleggsdag. Framleiðsluráð setur nánari reglur um greiðslurnar.
2.
Fullnaðargreiðsla haustgrundvallarverðs (verð ákveðið 1. september) eigi síðar en 15. desember.

     Heimilt er einstökum framleiðendum að semja um annan hátt á greiðslum en að ofan greinir.
     Greiðslur samkvæmt þessari grein skulu miðaðar við framleiðsluheimild hvers framleiðanda skv. 30. gr.
     Um greiðsluskyldu afurðastöðva fyrir innlegg umfram greiðslumark, en innan efri marka þess, fer eftir gildandi samningum landbúnaðarráðherra og Stéttarsambands bænda skv. a-lið 1. mgr. 30. gr.
     Áður en afurðastöð kaupir eða tekur til sölumeðferðar sauðfjárafurðir umfram efri mörk greiðslumarks framleiðanda skal gert sérstakt samkomulag milli afurðastöðvar og framleiðanda um slátrun, afurðaverð og greiðslu þess, eftir því sem við á. Samsvarandi magn afurða skal markaðsfært erlendis á ábyrgð viðkomandi aðila. Þó getur Framleiðsluráð landbúnaðarins heimilað sölu þeirra innan lands ef framleiðsla verður minni en sala.
     Taki mjólkursamlag við mjólk umfram greiðslumark framleiðanda sem verður utan heildargreiðslumarks við lokauppgjör skal samsvarandi magn mjólkurafurða markaðsfært erlendis á ábyrgð mjólkursamlags og framleiðanda. Framleiðsluráð landbúnaðarins getur þó heimilað sölu þeirra innan lands ef gengið hefur á birgðir og skortur á mjólkurvörum er því fyrirsjáanlegur.
     Hafi verið tekin ákvörðun um verðskerðingu skv. 20.–21. gr. er afurðastöð skylt að halda henni eftir við uppgjör og standa Framleiðsluráði landbúnaðarins skil á hinu innheimta verðskerðingarfé.

VII. KAFLI
Um stjórn búvöruframleiðslunnar.
30. gr.
     Til þess að hafa stjórn á framleiðslu búvara þannig að hún verði í samræmi við tilgang laga þessara er landbúnaðarráðherra:
a.
rétt að leita eftir samningum fyrir hönd ríkisstjórnarinnar við Stéttarsamband bænda um magn mjólkur- og sauðfjárafurða sem framleiðendum verður ábyrgst fullt verð fyrir á samningstímanum skv. 8. gr. Samningarnir skulu gerðir fyrir 1. ágúst ár hvert og gilda næsta verðlagsár. Heimilt er að semja til lengri tíma í einu og að binda samninga við einstakar búvörur. Á sama hátt er landbúnaðarráðherra heimilt í stað ofannefndra samninga að semja um beinar greiðslur ríkissjóðs til framleiðenda mjólkur- og sauðfjárafurða á lögbýlum.
b.
heimilt að ákveða skiptingu framleiðslu einstakra búvara, þar með taldra þeirra sem um er samið skv. a-lið, eftir héruðum. Skal sú skipting miðuð við félagssvæði búnaðarsambandanna en ráðherra er þó heimilt að ákveða aðra svæðaskiptingu að fengnu samþykki Framleiðsluráðs landbúnaðarins og viðkomandi búnaðarsambanda.
     Heimilt er að skipta framleiðslu innan hvers svæðis eða fela stjórn viðkomandi búnaðarsambands eða samtaka framleiðenda, sem viðurkennd eru skv. 2. mgr. 4. gr., að skipta framleiðslunni milli einstakra framleiðenda samkvæmt reglugerð er ráðherra setur.
c.
heimilt að innheimta eftirtalin fóðurgjöld af innfluttu fóðri og hráefnum í það:
1.
Grunngjald sem má nema allt að 50% af tollverði hinnar innfluttu vöru.
2.
Sérstakt fóðurgjald sem má nema allt að 150% af tollverði hinnar innfluttu vöru.
3.
Sérstakt grunngjald sem má nema allt að fjórum krónum af hverju kg hinnar innfluttu vöru.
     Fóðurgjöld samkvæmt þessari grein mega vera tiltekin fjárhæð á hverja þyngdareiningu fóðurs eða tiltekið hlutfall af tollverði þess. Heimilt er að ákveða fóðurgjöldin mishá eftir fóðurtegundum.
     Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um gjaldskyldu og er þar heimilt að undanskilja einstakar tegundir fóðurs gjaldskyldu, þar með talið fóður sem nýtt er til fóðrunar gæludýra og loðdýra. Heimilt er að endurgreiða framleiðendum búvara hið sérstaka fóðurgjald eða hluta þess og skal miða endurgreiðslur við framleiðslumagn sem ákveðið er eftir þörf markaðarins fyrir viðkomandi búvöru eða ákveðið skv. b-lið þessarar greinar. Heimilt er að fela Framleiðsluráði landbúnaðarins að annast endurgreiðslur samkvæmt þessari grein í samræmi við ákvæði reglugerðar þar um og skal Ríkisendurskoðun þá endurskoða reikninga yfir endurgreiðsluféð. Kostnaður við framkvæmd endurgreiðslna skal greiddur af tekjum af hinu sérstaka fóðurgjaldi.
     Hið sérstaka fóðurgjald, sem kemur til endurgreiðslu samkvæmt þessari grein, skal ekki leiða til hækkunar á búvöruverði.
     Ráðherra getur í reglugerð ákveðið að innflytjendur fóðurs skuli fá tiltekinn gjaldfrest á þeim hluta hins sérstaka fóðurgjalds sem kann að koma til endurgreiðslu enda sé sett fullnægjandi trygging fyrir gjaldinu.
d.
heimilt að innheimta sérstakt jöfnunargjald af innfluttum kartöflum og vörum unnum úr þeim. Gjald þetta skal greitt af tollverði hinnar innfluttu vöru og má að hámarki ákveða gjaldið annaðhvort þannig að:
1.
samanlagt tollverð og jöfnunargjald hinnar innfluttu vöru miðað við meðaltal innflutningsverðs viðkomandi vöru eða vöruflokks síðasta almanaksmánuð sé ekki hærra en heildsöluverð sömu vöru án álagningar þegar það er ákveðið skv. 13.–15. gr. á innlendri framleiðslu,
2.
eða lagt sé allt að 200% gjald á tollverð hinnar innfluttu vöru sé heildsöluverð viðkomandi framleiðsluvöru hér á landi ekki ákveðið skv. 13.–15. gr.
     Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um álagningu jöfnunargjalds og hvaða vörur skuli gjaldskyldar. Að öðru leyti gilda ákvæði 32. gr. um innheimtu á jöfnunargjaldi samkvæmt þessum staflið. Tekjur af gjaldi þessu skulu renna í ríkissjóð. Ákvæði 2. mgr. 34. gr. gilda ekki um ákvarðanir samkvæmt þessum staflið.

     Heimilt er að beita ofangreindum heimildum samtímis.
     Sérstakt grunngjald skv. 3. tölul. c-liðar 1. mgr. er grunntaxti. Ráðherra er heimilt að hækka hið sérstaka grunngjald allt að því að það hækki í réttu hlutfalli við hækkun sem kann að verða á vísitölu byggingarkostnaðar, sbr. lög nr. 42/1987. Grunntaxtinn er miðaður við vísitölu 1. júlí 1987, þ.e. 100 stig.

31. gr.
     Sé ákveðið að lækka fóðurgjöld sem lögð hafa verið á samkvæmt heimild í c-lið 1. mgr. 30. gr. eða fella þau niður skal endurgreiða hlutfallslega það sem innheimt kann að hafa verið af birgðum sem til eru þegar lækkun eða niðurfelling er ákveðin.
     Séu heimildir til álagningar fóðurgjalda samkvæmt c-lið 1. mgr. 30. gr. nýttar skal á sama hátt heimilt að láta hækkun ná til fóðurbirgða sem eru í vörslu innflutnings- og dreifingaraðila er hækkun tekur gildi. Þessir aðilar skulu veita nauðsynlega aðstoð við talningu á birgðum, en tollstjórar skulu staðreyna birgðauppgjör og annast innheimtu og skil gjaldanna, sbr. 32. gr.

32. gr.
     Tollstjórar annast innheimtu fóðurgjalda við innflutning og skulu gera reikningsskil fyrir gjöldunum til ríkissjóðs eftir því sem fjármálaráðuneytið og reglur um opinber reikningsskil mæla fyrir.
     Að því leyti sem eigi er ákveðið í lögum þessum eða reglugerð eða öðrum fyrirmælum settum samkvæmt lögum þessum um ákvörðun tollverðs, vöruflokkun, gjalddaga, innheimtu, lögvernd gjaldsins, refsingar og aðra framkvæmd varðandi fóðurgjöld skulu gilda eftir því sem við geta átt ákvæði tollalaga nr. 55 30. mars 1987.

33. gr.
     Tekjur af grunngjaldi og sérstöku grunngjaldi skv. 1. og 3. tölul. c-liðar 1. mgr. 30. gr. renna í ríkissjóð.
     Tekjur af hinu sérstaka fóðurgjaldi, að frádregnum þeim hluta sem varið er til endurgreiðslna skv. c-lið 1. mgr. 30. gr., skulu renna til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Framleiðnisjóður landbúnaðarins skal ráðstafa tekjum af gjaldinu, að fenginni staðfestingu landbúnaðarráðherra, sem lánum eða framlögum til eflingar nýrra viðfangsefna í landbúnaði og til stuðnings við búgreinar og breytingar búskaparhátta á lögbýlum. Tekjum af hinu sérstaka fóðurgjaldi skal haldið sérgreindum í reikningum Framleiðnisjóðs og skal Ríkisendurskoðun endurskoða þann hluta reikninga sjóðsins, auk lögboðinna endurskoðenda hans.

34. gr.
     Ákvarðanir um beitingu heimilda, sem felast í ákvæðum þessa kafla, skulu teknar með reglugerð. Skal réttur framleiðenda þar ákveðinn með tilliti til framleiðslu þeirra á búvöru á tilteknu tímabili. Þá er heimilt í reglugerð að ákveða að réttur framleiðenda skuli vera mismunandi eftir bústærðum, búrekstraraðstöðu, fjármagnskostnaði vegna framkvæmda á ábýlisjörð, búskapartíma vegna frumbýlinga og ættliðaskipta á jörðum og þegar framleiðsla er dregin saman eða búskap hætt. Enn fremur má þar ákveða að réttur framleiðenda skuli skerðast vegna aðstoðar sem Framleiðnisjóður landbúnaðarins veitir til nýrra búgreina eða búháttabreytinga.
     Áður en reglugerðir um beitingu ákvæða þessa kafla eru gefnar út skal leitað tillagna Framleiðsluráðs landbúnaðarins, Stéttarsambands bænda og samtaka framleiðenda í viðkomandi búgrein.

VIII. KAFLI
Um aðlögun búvöruframleiðslunnar.
35. gr.
     Ríkissjóður skal leggja fram fjármagn til þess að mæta áhrifum samdráttar í framleiðslu mjólkur- og sauðfjárafurða. Fjármagni þessu skal varið til eflingar nýrra búgreina, markaðsöflunar og til fjárhagslegrar endurskipulagningar búreksturs á lögbýlum. Fjármagnið skal renna í Framleiðnisjóð landbúnaðarins sem úthlutar því samkvæmt ákvæðum reglugerðar er landbúnaðarráðherra setur.

IX. KAFLI
Um aðlögun og stjórn framleiðslu sauðfjárafurða 1991–1998.
36. gr.
     Frá 1. maí 1991 til 31. ágúst 1992 skal laga fullvirðisrétt til framleiðslu sauðfjárafurða að innanlandsmarkaði með því að ríkissjóði er heimilt að greiða fyrir fullvirðisrétt til framleiðslu sauðfjárafurða allt að 3.700 tonnum og greiða förgunarbætur vegna fækkunar áa eftir nánari ákvörðun í reglugerð.
     Framleiðendur sauðfjárafurða á lögbýlum geta fram til 31. ágúst 1992 haft aðilaskipti að fullvirðisrétti, enda séu uppfyllt skilyrði þau sem ráðherra setur í reglugerð. Ríkissjóði er við slík aðilaskipti heimilt samkvæmt ákvörðun landbúnaðarráðherra að fella niður allt að 20% fullvirðisréttarins gegn greiðslu eftir nánari ákvörðun í reglugerð.
     Eigendum lögbýla er heimilt að leggja fullvirðisrétt/greiðslumark lögbýlisins inn til geymslu til 31. ágúst 1998 án þess að það veiti hlutdeild í heildargreiðslumarki á tímabilinu og greiðir ríkissjóður þá förgunarbætur vegna fækkunar áa.
     Fullvirðisréttur utan lögbýla, sem ekki hefur verið boðinn ríkissjóði skv. 1. mgr. fyrir 1. september 1992, skal falla niður.
     Takist ekki eftir ofangreindum leiðum að laga fullvirðisréttinn að innanlandsmarkaði skal færa fullvirðisrétt miðað við 31. ágúst 1992 niður um það sem á vantar og komi greiðsla fyrir eftir nánari ákvörðun í reglugerð. Við lok aðlögunar fullvirðisréttar að innanlandsmarkaði skal miða við að hann verði í samræmi við heildargreiðslumark verðlagsársins 1993–1994, sbr. þó 1. mgr. Landbúnaðarráðherra er heimilt að ákveða í reglugerð, að höfðu samráði við Stéttarsamband bænda, að niðurfærsla skuli vera mismunandi eftir landsvæðum. Jafnframt er heimilt að undanþiggja einstaka framleiðendur niðurfærslu að því marki sem þegar gerðir samningar við ríkissjóð kveða á um.
     Áður en greiðslur ríkissjóðs fyrir fullvirðisrétt og förgun bústofns verða inntar af hendi skal liggja fyrir staðfesting þess að ám hafi verið fargað og að ásetningur haustin 1991 og 1992 verði í samræmi við umsamda fækkun og niðurfærslu.
     Greiðslur vegna niðurfærslu fullvirðisréttar til framleiðslu sauðfjárafurða skulu greiddar handhafa réttar til beinna greiðslna á lögbýlinu vegna framleiðslu sauðfjárafurða verðlagsárið 1993–1994 samkvæmt skrám Framleiðsluráðs landbúnaðarins 31. janúar 1993. Þetta gildir þó ekki ef gert er samkomulag á milli ábúanda og eiganda lögbýlis, þegar ekki er um sömu aðila að ræða, um annan hátt á greiðslum, enda berist tilkynning þess efnis til landbúnaðarráðuneytisins fyrir 31. janúar 1993.
     Taki leiguliði við greiðslunum getur eigandi lögbýlis óskað eftir því við ábúðarlok að tekið verði tillit til þeirra við mat skv. 16. gr. ábúðarlaga, nr. 64/1976, að því marki sem þær teljast bætur fyrir skerðingu á búrekstraraðstöðu eftir lok ábúðartímans.

37. gr.
     Heildargreiðslumark sauðfjárafurða er tiltekið magn kindakjöts, reiknað í tonnum, sem beinar greiðslur ríkissjóðs miðast við. Heildargreiðslumark skiptist í greiðslumark lögbýla. Það skal endanlega ákveðið fyrir 15. september ár hvert vegna framleiðslu næsta verðlagsárs, en verður 8.600 tonn verðlagsárið 1992–1993.
     Við ákvörðun heildargreiðslumarks skal byggt á neyslu síðasta almanaksárs og söluþróun fyrstu sex mánuði yfirstandandi árs. Heimilt er einnig að taka tillit til líklegrar neysluþróunar á komandi ári. Þá skal tekið tillit til birgða 1. september þannig að þær samsvari þriggja vikna sölu innan lands. Til neyslu telst öll sala kindakjöts frá afurðastöð á innlendum markaði, svo og það kindakjöt sem framleiðendur taka úr sláturhúsi.
     Landbúnaðarráðherra skal, að fengnum tillögum Framleiðsluráðs landbúnaðarins, ákveða heildargreiðslumark fyrir hvert verðlagsár og setja í reglugerð nánari ákvæði um skiptingu í greiðslumark lögbýla.

38. gr.
     Greiðslumark skal bundið við lögbýli. Framleiðsluráð landbúnaðarins skal halda skrá yfir greiðslumark lögbýla og handhafa réttar til beinna greiðslna samkvæmt því. Á hverju lögbýli skal aðeins einn framleiðandi vera skráður handhafi. Þó er heimilt, þegar um fleiri sjálfstæða rekstraraðila er að ræða sem standa að búinu, að skrá þá sérstaklega.
     Greiðslumark hvers lögbýlis fyrir verðlagsárið 1992–1993 skal vera í hlutfalli við fullvirðisrétt þess eins og hann er að loknum 1. hluta aðlögunar fullvirðisréttar að innanlandsmarkaði að teknu tilliti til aðilaskipta að fullvirðisrétti fram til 31. ágúst 1992. Heimilt er að binda greiðslumark verðlagsársins 1992–1993 við tiltekinn ásetning sauðfjár á hverju lögbýli.
     Greiðslumark hvers lögbýlis verðlagsárið 1993–1994 skal vera í hlutfalli við fullvirðisrétt þess að lokinni aðlögun að innanlandsmarkaði 31. ágúst 1992 að teknu tilliti til aðilaskipta að fullvirðisrétti.
     Við ákvörðun greiðslumarks ofannefndra verðlagsára er heimilt að taka tillit til fullvirðisréttar sem bundinn er í samningum og heimtekins kjöts haustin 1990 og 1991.
     Greiðslumark þaðan í frá breytist í hlutfalli við breytingar á heildargreiðslumarki.
     Fari framleiðsla á lögbýlinu umfram efri mörk greiðslumarks þess, án sérstaks samkomulags við afurðastöð, skal það sem umfram er og ekki rúmast innan heildargreiðslumarks koma til lækkunar á greiðslumarki þess á næsta verðlagsári. Þá er heimilt að skerða greiðslumarkið um allt að 0,5 kg fyrir hvert framleitt kílógramm umfram efri mörk.
     Nýti rétthafi greiðslumarks það ekki til framleiðslu að neinu leyti í full tvö ár er landbúnaðarráðherra heimilt að fella það niður, enda hafi viðkomandi rétthafa verið tilkynnt um það og honum gefinn kostur á að leggja greiðslumarkið inn til geymslu.

39. gr.
     Frá 1. september 1992 eru heimil aðilaskipti greiðslumarks á milli lögbýla, enda séu uppfyllt skilyrði þau sem ráðherra setur í reglugerð. Slík aðilaskipti taka ekki gildi fyrr en staðfesting Framleiðsluráðs landbúnaðarins liggur fyrir. Sé ábúandi lögbýlis annar en eigandi þess þarf samþykki beggja fyrir aðilaskiptum að greiðslumarki frá lögbýli.
     Leiguliða er heimilt að kaupa greiðslumark á lögbýlið og skal það skráð sérstaklega á nafn hans. Nú vill leiguliði selja slíkt greiðslumark og skal jarðareigandi eiga forkaupsrétt að greiðslumarkinu. Tilkynna skal jarðareiganda um fyrirhugaða sölu, verð og greiðsluskilmála og hann skal hafa sagt til um það innan 30 daga frá því tilkynning barst honum hvort hann ætlar að neyta forkaupsréttar.
     Landbúnaðarráðherra setur nánari reglur um aðilaskipti með greiðslumark og skráningu þess. Ef hætta skapast á að tilfærsla á greiðslumarki gangi gegn æskilegum landnýtingarsjónarmiðum er landbúnaðarráðherra heimilt að takmarka eða stöðva slík aðilaskipti að höfðu samráði við umhverfisráðuneytið. Sama gildir ef fyrir liggur rökstutt álit Landgræðslu ríkisins um að hin fyrirhuguðu aðilaskipti fari í bága við gróðurverndarsjónarmið.

40. gr.
     Bein greiðsla er framlag úr ríkissjóði til framleiðanda sauðfjárafurða og skal svara til 50% af framleiðslukostnaði kindakjöts. Það greiðist samkvæmt greiðslumarki hvers lögbýlis.
     Beinar greiðslur skulu greiðast mánaðarlega á tímabilinu frá mars til desember fyrir það verðlagsár sem hefst 1. september það ár, í fyrsta sinn í mars 1992. Fullnaðargreiðsla skal innt af hendi eigi síðar en 15. desember. Heimilt er að binda beinar greiðslur við tiltekinn ásetning sauðfjár á lögbýlinu.
     Beinar greiðslur breytast ekki þegar framleiðsla á lögbýlinu er 80–105% af greiðslumarki þess verðlagsárið 1992–1993. Þó er heimilt að greiða beinar greiðslur út á framleiðslu allt að efri mörkum greiðslumarks við lokauppgjör enda rúmist þær greiðslur innan heildargreiðslumarks ársins. Fráviksmörk þessi, þ.e. efri og neðri mörk greiðslumarks, skulu endurskoðuð árlega með hliðsjón af markaðsaðstæðum. Nái framleiðsla ekki tilskildu hlutfalli greiðslumarks skerðast beinar greiðslur ársins hlutfallslega frá því marki sem sett er hverju sinni. Heimilt er að víkja frá framangreindu ákvæði vegna fjárskiptasamninga á vegum sauðfjárveikivarna. Heimilt er að telja sölu líffjár til framleiðslu. Heimilt er að skerða eða fella niður beinar greiðslur ef framleiðandi hefur gerst sekur um ólöglega sölu eða dreifingu á kjöti af heimaslátruðu sauðfé.
     Landbúnaðarráðherra skal að fengnum tillögum Framleiðsluráðs setja nánari reglur um beinar greiðslur, m.a. um framkvæmd þeirra, viðmiðun við framleiðslukostnað og gæðaflokkun, hlutfall nýtingar til að fá fulla beina greiðslu og greiðslutilhögun.

41. gr.
     Framleiðsla innan heildargreiðslumarks skal notuð til að fullnægja þörfum innlenda markaðarins. Verði birgðir kindakjöts í lok verðlagsárs umfram þriggja vikna sölu skulu þær markaðsfærðar innan lands eða utan með markaðsstuðningi sem kostaður skal með innheimtu verðskerðingargjalds, sbr. 20. og 21. gr., hjá framleiðendum kindakjöts og afurðastöðvum við slátrun og innlegg á því verðlagsári sem birgðirnar verða markaðsfærðar. Framleiðsluráð landbúnaðarins ákveður, að höfðu samráði við samtök sauðfjárframleiðenda og afurðastöðva, hvernig birgðunum skuli ráðstafað og er afurðastöðvum, framleiðendum og öðrum sem kunna að eiga umrætt kjöt skylt að lúta ákvörðun Framleiðsluráðs. Ákvæði 24., 26. og 27. gr. gilda um innheimtu verðskerðingar.
     Þá er heimilt með samkomulagi landbúnaðarráðherra og Stéttarsambands bænda að ákveða sérstaka lækkun á heildargreiðslumarki næsta verðlagsárs til að koma birgðastöðu í jafnvægi á allt að tveimur árum. Fjármunum, sem sparast vegna þessa, skal varið til söluátaks á birgðunum innan lands.
     Ríkissjóður ábyrgist að birgðir 1. september 1992 verði ekki umfram áætlaða þriggja vikna neyslu, þ.e. 500 tonn, og mun bera kostnað af markaðsfærslu á birgðum umfram þau mörk.

42. gr.
     Ágreiningi um ákvörðun á greiðslumarki lögbýlis, skráningu á greiðslumarki, rétt til beinna greiðslna og framkvæmd verðskerðingar samkvæmt þessum kafla og reglugerðum þar um er heimilt að skjóta til þriggja manna úrskurðarnefndar sem landbúnaðarráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Skal einn tilnefndur af Stéttarsambandi bænda, einn án tilnefningar og einn samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar Íslands. Ráðherra skipar einn úr þeirra hópi formann nefndarinnar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Úrskurði nefndarinnar verður ekki skotið til ráðherra.

43. gr.
     Allir þeir, sem hafa fullvirðisrétt til ráðstöfunar eða hagnýtingar eða hafa með höndum framleiðslu sauðfjárafurða, eru háðir þeim breytingum á réttarstöðu sem lög þessi hafa í för með sér.
     Með hugtakinu fullvirðisréttur í lögum þessum er átt við rétt í sérstakri fullvirðisréttarskrá Framleiðsluráðs landbúnaðarins, sbr. reglugerð nr. 313/1991, með síðari breytingum.
     Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um aðlögun og stjórn framleiðslu sauðfjárafurða og störf og málsmeðferð úrskurðarnefndar skv. 42. gr.

X. KAFLI
Um aðlögun og stjórn framleiðslu mjólkur 1992–1998.
44. gr.
     Heildargreiðslumark mjólkur er tiltekið magn mjólkur, mælt í lítrum, sem beinar greiðslur ríkissjóðs miðast við. Við ákvörðun þess skal byggt á neyslu innlendra mjólkurvara sem farið hafa um afurðastöð undanfarandi tólf mánaða tímabil og áætlun Framleiðsluráðs landbúnaðarins fyrir komandi ár að teknu tilliti til birgða. Heildargreiðslumark skiptist í greiðslumark lögbýla. Það skal endanlega ákveðið þremur mánuðum fyrir upphaf verðlagsárs vegna framleiðslu næsta verðlagsárs, en verður 100 milljónir lítra verðlagsárið 1992–1993, að lokinni aðlögun fullvirðisréttar til framleiðslu mjólkur að innanlandsmarkaði. Heimilt er að færa niður heildargreiðslumark mjólkur haustið 1993 eða síðar vegna endurkomu fullvirðisréttar sem leigður hefur verið Framleiðnisjóði landbúnaðarins. Um greiðslur fyrir niðurfærslu fullvirðisréttar til samræmis við úthlutað greiðslumark fer eftir samningum skv. a-lið 1. mgr. 30. gr.
     Landbúnaðarráðherra skal, að fengnum tillögum Framleiðsluráðs landbúnaðarins, ákveða heildargreiðslumark fyrir hvert verðlagsár og setja í reglugerð nánari ákvæði um skiptingu í greiðslumark lögbýla.

45. gr.
     Greiðslumark skal bundið við lögbýli. Framleiðsluráð landbúnaðarins skal halda skrá yfir greiðslumark lögbýla og handhafa réttar til beinna greiðslna samkvæmt því. Á hverju lögbýli skal aðeins einn framleiðandi vera skráður handhafi. Þó er heimilt, þegar um fleiri sjálfstæða rekstraraðila er að ræða sem standa að búinu, að skrá þá sérstaklega.
     Greiðslumark hvers lögbýlis fyrir verðlagsárið 1992–1993 skal vera jafnt fullvirðisrétti þess eins og hann er að lokinni aðlögun hans að innanlandsmarkaði haustið 1992.
     Greiðslumark þaðan í frá breytist í hlutfalli við breytingar á heildargreiðslumarki. Greiðslumark lögbýlis breytist ekki þótt innlegg þess í afurðastöð fari umfram greiðslumarkið.
     Nýti rétthafi greiðslumarks það ekki til framleiðslu að neinu leyti í full tvö ár er landbúnaðarráðherra heimilt að fella það niður, enda sé viðkomandi rétthafa tilkynnt um það, gefinn kostur á að leggja greiðslumarkið inn til geymslu og hann hafi staðfest samþykki sitt við þessari ráðstöfun.

46. gr.
     Heimil eru aðilaskipti greiðslumarks á milli lögbýla, enda séu uppfyllt skilyrði þau sem ráðherra setur í reglugerð. Heimilt er þar að kveða á um að sala greiðslumarks, sem framleiðandi hefur leigt Framleiðnisjóði eða öðrum framleiðanda, sé háð því að það hafi verið nýtt til innleggs á lögbýli leigusala í allt að tvö ár fyrir sölu.
     Slík aðilaskipti taka ekki gildi fyrr en staðfesting Framleiðsluráðs landbúnaðarins liggur fyrir. Sé ábúandi lögbýlis annar en eigandi þess þarf samþykki beggja fyrir flutningi greiðslumarks frá lögbýli.
     Leiguliða er heimilt að kaupa greiðslumark á lögbýlið á sama hátt og kveðið er á um í 2. mgr. 39. gr.
     Landbúnaðarráðherra setur nánari reglur um aðilaskipti með greiðslumark og skráningu þess.

47. gr.
     Bein greiðsla er framlag úr ríkissjóði til framleiðanda mjólkur og skal svara til 47,1% af framleiðslukostnaði mjólkur samkvæmt verðlagsgrundvelli á innleggsdegi. Hún greiðist samkvæmt greiðslumarki hvers lögbýlis.
     Landbúnaðarráðherra skal að undangengnum samningum við Stéttarsamband bænda setja nánari reglur um beinar greiðslur, m.a. um framkvæmd þeirra, greiðslutilhögun, fráviksmörk og ráðstöfun beinna greiðslna vegna ónýtts greiðslumarks. Heimilt er að ákveða misháar beinar greiðslur eftir árstímum.

48. gr.
     Framleiðsla innan heildargreiðslumarks skal notuð til að fullnægja þörfum innlenda markaðarins. Verði birgðir mjólkurafurða í lok verðlagsárs of miklar að mati Framleiðsluráðs landbúnaðarins skulu þær markaðsfærðar innan lands eða utan með markaðsstuðningi sem kostaður skal með innheimtu verðskerðingar, sbr. 20. og 21. gr., hjá mjólkurframleiðendum og mjólkursamlögum við innlegg á því verðlagsári sem birgðirnar verða markaðsfærðar. Framleiðsluráð landbúnaðarins ákveður, að höfðu samráði við samtök mjólkurframleiðenda og afurðastöðva, hvernig birgðunum skuli ráðstafað og er afurðastöðvum, framleiðendum og öðrum, sem kunna að eiga umræddar afurðir, skylt að lúta ákvörðun Framleiðsluráðs. Ákvæði 24., 26. og 27. gr. gilda um innheimtu verðskerðingargjalds.
     Safnist upp birgðir vegna samdráttar í neyslu skal landbúnaðarráðherra, í samráði við Stéttarsamband bænda, ákveða sérstaka lækkun á heildargreiðslumarki næsta verðlagsárs til að koma birgðastöðu í jafnvægi á allt að tveimur árum. Heimilt er að verja fjármunum sem sparast vegna þessa til að draga úr tekjuskerðingu framleiðenda eða til söluátaks á birgðum innan lands.

49. gr.
     Ákvæði 42. gr. um úrskurðarnefnd gildir einnig um ágreining vegna ákvörðunar á greiðslumarki lögbýla samkvæmt þessum kafla.
     Allir þeir sem hafa fullvirðisrétt/greiðslumark til ráðstöfunar eða hagnýtingar eða hafa með höndum framleiðslu mjólkur eru háðir þeim breytingum á réttarstöðu sem lög þessi hafa í för með sér.
     Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um aðlögun og stjórn framleiðslu mjólkur.

XI. KAFLI
Um vinnslu og sölu búvara.
50. gr.
     Framleiðsluráð landbúnaðarins skal stuðla að fjölbreyttu framboði búvara á hverjum tíma, svo og framförum og aukinni hagkvæmni búvöruframleiðslunnar, þannig að hún verði í samræmi við þarfir markaðarins.

51. gr.
     Byggingu og staðsetningu afurðastöðva skal haga á þann hátt sem hagkvæmastur er fyrir heildarskipulag viðkomandi búgreinar.
     Áður en opinber lánastofnun tekur ákvörðun um veitingu lána til að reisa eða endurbyggja afurðastöð fyrir búvörur skal stofnunin leita umsagnar Framleiðsluráðs landbúnaðarins um hina fyrirhuguðu framkvæmd.
     Við löggildingu sláturhúsa samkvæmt lögum nr. 30 28. apríl 1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum, með síðari breytingum, skal gætt ákvæða 1. mgr. þessarar greinar.

52. gr.
     Áður en ákvarðanir eru teknar um inn- og útflutning landbúnaðarvara skulu aðilar, sem með þau mál fara, leita álits og tillagna Framleiðsluráðs landbúnaðarins.
     Innflutningur landbúnaðarvara skal því aðeins leyfður að Framleiðsluráð staðfesti að innlend framleiðsla fullnægi ekki neysluþörfinni.

53. gr.
     Landbúnaðarráðherra veitir leyfi til að flytja til landsins kartöflur, nýtt grænmeti, sveppi og blóm. Ráðherra getur, að fengnum meðmælum þeirrar nefndar sem starfar skv. 3. mgr., ákveðið að innflutningur tiltekinna vara, sem greinin tekur til, skuli tímabundið vera undanþeginn leyfisveitingu. Innflutningur þeirra vara, sem greinin tekur til, skal því aðeins leyfður að innlend framleiðsla fullnægi ekki eftirspurn.
     Ákvæði þessarar greinar tekur þó ekki til skipa og flugvéla sem koma í landhelgi og hafa innanborðs þær vörur sem um getur í 1. mgr. ef birgðirnar eru, að áliti hlutaðeigandi tollyfirvalda, eigi meiri en svo að hæfilegur forði sé handa áhöfn og farþegum.
     Áður en leyfi til innflutnings skv. 1. mgr. eru veitt skal ráðherra leita álits nefndar sem skipuð er tveimur fulltrúum framleiðenda tilnefndum af samtökum þeirra og tveimur fulltrúum innflytjenda þessara vörutegunda sem viðskiptaráðherra tilnefnir og oddamanni tilnefndum af landbúnaðarráðherra. Skal nefndin láta ráðherra í té rökstutt álit um hvort innflutnings sé þörf og hve mikils.
     Ákvæði 52. gr. taka ekki til innflutnings á þeim vörum sem grein þessi tekur til.

54. gr.
     Landbúnaðarráðherra getur með reglugerð ákveðið að mjólk og mjólkurvörur, egg, kartöflur, garðávextir og grænmeti, sem selja á innan lands eða flytja skal á erlendan markað, skuli metið, flokkað og merkt eftir tegundum, gæðum og uppruna enda fullnægi varan reglum um heilbrigði og hollustuhætti sem settar eru á grundvelli laga nr. 81 3. ágúst 1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, og laga nr. 24 1. febrúar 1936, um eftirlit með matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum.
     Til að standa straum af kostnaði við mat samkvæmt þessari grein er ráðherra heimilt að láta innheimta sérstakt matsgjald af þeirri vöru sem matið tekur til og má gjaldið vera tiltekin krónutala á hverja þyngdareiningu eða hlutfall af verði vörunnar til framleiðanda. Matsgjaldið má þó aldrei vera hærra en sem nemur 1,5% af verði vörunnar til framleiðanda. Framleiðandi þeirrar vöru, sem tekin er til mats, er ábyrgur fyrir greiðslu matsgjalds. Gjald þetta má taka lögtaki. Heimilt er að ákveða að það skuli innheimt með búnaðarmálasjóðsgjaldi samkvæmt lögum nr. 41 15. maí 1990.
     Landbúnaðarráðherra ákveður yfirstjórn mats þeirra búvara sem ákveðið er að taka til mats samkvæmt þessari grein.
     Um löggildingu matsmanna fer eftir ákvæðum í reglugerð og er þar heimilt að ákveða að afurðastöð og söluaðilar skuli á sinn kostnað hafa í þjónustu sinni matsmenn til að framkvæma mat samkvæmt þessari grein. Þá eina má skipa eða löggilda sem matsmenn sem hafa góða þekkingu á viðkomandi búvöru og reynslu í öllu er varðar meðferð varanna og mat á þeim.
     Í reglugerð skulu sett ákvæði um matsreglur, gæðaflokkun, framkvæmd mats, yfirmat og annað sem lýtur að matinu.
     Afurðastöðvum og öðrum, sem annast sölumeðferð þeirra búvara sem mat samkvæmt þessari grein tekur til, er skylt að sjá matsmönnum fyrir aðstöðu til að framkvæma matið samkvæmt nánari reglum sem settar skulu í reglugerð.
     Við verðlagningu búvara skal verð þeirra ákveðið mismunandi eftir tegunda- og gæðaflokkum sem ákveðnir eru samkvæmt þessari grein, lögum nr. 30 28. apríl 1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum, lögum nr. 57 16. maí 1990, um flokkun og mat á gærum og ull, og öðrum lögum og reglum um sama efni.

55. gr.
     Þeir sem versla með búvörur skulu fullnægja skilyrðum laga og annarra ákvarðana yfirvalda um slíka starfsemi og hafa fullnægjandi aðstöðu til meðferðar, flutnings og geymslu þeirrar vöru sem þeir taka til sölumeðferðar samkvæmt reglum heilbrigðisyfirvalda.
     Nú selur framleiðandi eigin búvöruframleiðslu til smásöluverslunar eða neytenda og er honum þá skylt að fullnægja ákvæðum laga og annarra ákvarðana yfirvalda um flokkun, mat, flutning, geymslu og annað sem lýtur að meðferð vörunnar.
     Skylt er seljanda og kaupanda að veita Framleiðsluráði landbúnaðarins allar umbeðnar upplýsingar um söluna, þar á meðal um uppruna vörunnar, svo að ganga megi úr skugga um að ofangreind skilyrði hafi verið uppfyllt.

56. gr.
     Landbúnaðarráðherra er heimilt með reglugerð, að fenginni tillögu Framleiðsluráðs landbúnaðarins og samtaka afurðastöðva mjólkuriðnaðarins, að skipta landinu í mjólkursölusvæði eftir því sem best hentar framleiðslu- og markaðsaðstæðum.
     Þegar ákveðin hefur verið skipting landsins í sölusvæði er afurðastöðvum á sölusvæðinu skylt að taka við mjólk frá framleiðendum innan sölusvæðisins enda fullnægi varan reglum um heilbrigði og gæði og sé innan marka heimilaðs framleiðslumagns, sbr. 30. gr.

57. gr.
     Nú kemur upp deila á milli framleiðenda og afurðastöðvar innan sölusvæðis um móttöku mjólkur eða önnur atriði varðandi samskipti þessara aðila og er þá aðilum heimilt að leggja ágreining til úrskurðar þriggja manna nefndar. Skal einn nefndarmaður tilnefndur af Framleiðsluráði, annar tilnefndur af samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði og oddamaður tilnefndur af landbúnaðarráðherra.

58. gr.
     Nú hefur landbúnaðarráðherra ákveðið skiptingu landsins í sölusvæði fyrir mjólk, sbr. 56. gr., og skulu þá framleiðendur mjólkur á hverju mjólkursölusvæði kjósa sér stjórn er hefur á hendi umsjón mjólkurmálanna á því svæði.
     Þar sem starfandi eru fleiri en eitt mjólkurbú á sama mjólkursölusvæði sem hafa á hendi daglega sölu á mjólk og mjólkurvörum skulu þau hafa sameiginlega yfirstjórn er nefnist samsölustjórn. Þau kjósa á aðalfundi mjólkurbúanna fulltrúa á sameiginlegan fulltrúafund fyrir mjólkursölusvæðið sem svo kýs stjórn samsölunnar á því svæði.

59. gr.
     Framleiðsluráði landbúnaðarins og afurðastöðvum í mjólkuriðnaði er heimilt að gera samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara fyrir innlendan og erlendan markað. Í slíku samkomulagi er heimilt að kveða á um verðtilfærslu til að jafna framlegð mismunandi framleiðslutegunda á milli mjólkurbúa. Fimmmannanefnd getur gripið inn í verðtilfærslu milli afurða telji hún það nauðsynlegt. Verðtilfærsla má aldrei verða hærri fjárhæð en sem svarar hráefnisverði hverrar afurðar. Samkomulagið öðlast ekki gildi fyrr en landbúnaðarráðherra hefur staðfest það.

60. gr.
     Þar sem eitt mjólkurbú er starfandi eða samsölustjórn samkvæmt ákvæðum 58. gr. innan sölusvæðis sem ákveðið er skv. 56. gr. skal það eða hún annast alla heildsöludreifingu á nýmjólk, rjóma, súrmjólk og skyri. Heildsöluaðilinn skal sjá um að ætíð sé nóg af þessum vörum á sölusvæði hans sé þess nokkur kostur.

61. gr.
     Mjólkursamlögum og verslunum, er selja mjólk og mjólkurvörur, ber að hlíta opinberum verðákvörðunum og má aldrei grípa til sölustöðvunar á mjólk og skyldum vörum þótt ósamkomulag kunni að koma upp út af verðlagningu þessara vara.

62. gr.
     Framleiðsluráð landbúnaðarins og sláturleyfishafar skulu gera samkomulag um verkaskiptingu á milli sláturleyfishafa vegna slátrunar og verkunar sauðfjár- og stórgripaafurða til sölu á erlenda markaði með tilliti til mismunandi heimilda þeirra til slátrunar og verkunar á þessum búvörum til útflutnings og þess að sala hvers sláturleyfishafa á innlendum markaði miðist við hlutfall heimilaðrar framleiðslu skv. 30. gr. þeirra framleiðenda sem eru í viðskiptum hjá sláturleyfishafa.
     Heimilt er að gera slíkt samkomulag til tiltekins tíma og skal aðilum heimilt að óska endurskoðunar á því vegna breyttra aðstæðna, eftir því sem nánar er tekið til í samkomulaginu. Samkomulagið öðlast ekki gildi fyrr en landbúnaðarráðherra hefur staðfest það.
     Nú næst ekki slíkt samkomulag sem um ræðir í 1. mgr. eða ráðherra neitar að staðfesta það og skal ráðherra þá úrskurða framangreinda verkaskiptingu. Úrskurður þessi skal vera tímabundinn og má gilda í allt að tvö ár. Aðilum er á þessu tímabili frjálst að gera með sér samkomulag skv. 1. mgr. er komi í stað úrskurðar ráðherra. Í slíkum úrskurði er heimilt að kveða á um magn og verkun þessara búvara og skiptingu þeirra til sölu innan lands og utan.
     Brjóti sláturleyfishafi gegn samkomulagi eða úrskurði samkvæmt þessari grein er ráðherra heimilt að svipta viðkomandi sláturleyfi samkvæmt lögum nr. 30 28. apríl 1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum, með síðari breytingum.

63. gr.
     Framleiðsluráð landbúnaðarins hættir rekstri Grænmetisverslunar landbúnaðarins frá og með 1. júní 1986.
     Landbúnaðarráðherra er þó heimilt að ákveða að breyting skv. 1. mgr. verði fyrr enda hafi þá náðst samkomulag við aðila skv. 3. mgr. um yfirtöku á rekstri fyrirtækisins, sölu og leigu á eignum þess og að hið nýja fyrirtæki gefi fastráðnu starfsfólki Grænmetisverslunar landbúnaðarins kost á sambærilegum störfum. Skulu ákvæði 14. gr. laga nr. 38 14. apríl 1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þá ekki ná til þeirra starfsmanna Grænmetisverslunar landbúnaðarins sem njóta lögkjara samkvæmt þeim lögum.
     Heimilt er landbúnaðarráðherra að selja samtökum framleiðenda kartaflna og grænmetis eða hlutafélagi í eigu þessara aðila eignir Grænmetisverslunar landbúnaðarins, aðrar en fasteignir. Þá er ráðherra heimilt að leigja sömu aðilum núverandi fasteignir Grænmetisverslunar landbúnaðarins til reksturs dreifingar- og sölufyrirtækis með kartöflur og grænmeti.
     Tekjur, sem fást við sölu og leigu á eignum skv. 3. mgr., ásamt sjóðum Grænmetisverslunar landbúnaðarins við starfslok, skulu lagðar í sérstakan sjóð sem hefur það verkefni að styrkja stofnræktun garðávaxta, rannsóknir og tilraunir með ræktun og meðferð garðávaxta og vöruþróun á þessu sviði. Sjóðurinn skal vera í vörslu Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og annast stjórn hans úthlutun úr sjóðnum samkvæmt ákvæðum reglugerðar er landbúnaðarráðherra setur.

64. gr.
     Þar sem afurðastöð búvara er í eigu aðila sem hefur með höndum annan rekstur er skylt að halda bókhaldi og fjárreiðum afurðastöðvarinnar aðgreindum frá öðrum rekstri viðkomandi aðila.
     Þá getur fimmmannanefnd ákveðið að afurðastöðvar skuli setja reikninga sína upp með samræmdum hætti.

XII. KAFLI
Ýmis ákvæði.
65. gr.
     Framleiðsluráð lætur safna og gefa út ár hvert skýrslu um framleiðslu búvara, vinnslu þeirra og sölu, markaði, markaðshorfur og afkomu landbúnaðarins á hverjum tíma.
     Skylt er öllum þeim, er hafa með höndum vinnslu eða sölu búvara, að láta ráðinu í té allar upplýsingar er því geta að gagni komið við störf þess og þeir geta veitt.

66. gr.
     Kostnaður við framkvæmd IV. kafla þessara laga greiðist úr ríkissjóði. Ráðherra ákveður þóknun nefndarmanna í verðlagsnefnd og fimmmannanefnd.

67. gr.
     Slátrun alifugla skal fara fram í löggiltum sláturhúsum, sbr. lög nr. 30 28. apríl 1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum.

68. gr.
     Skattstjórar skulu fyrir 1. júní ár hvert ókeypis og ótilkvaddir gefa Framleiðsluráði upp, í því formi sem það ákveður, afurðamagn og bústofn á hverju lögbýli og hjá öðrum framteljendum sem hafa meiri hluta tekna sinna af landbúnaði. Einnig er þeim skylt að veita aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar eru í þessu sambandi.
     Framleiðsluráð landbúnaðarins getur ákveðið að seljendur fóðurs skuli ársfjórðungslega senda ráðinu skrá yfir alla sölu. Tilgreina skal hverjir kaupendur eru, heildarmagn hvers kaupanda og einingaverð.

69. gr.
     Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

70. gr.
     Með mál út af brotum gegn lögum þessum og reglugerðum, sem settar verða samkvæmt þeim, skal farið sem opinber mál. Varða brot sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
     Ef aðili, sem samkvæmt lögum þessum er skylt að gefa Framleiðsluráði skýrslu eða upplýsingar, tregðast við að láta þær í té má beita dagsektum frá 100–5.000 kr., eftir því sem nánar er ákveðið í reglugerð.

71. gr.
     Ákvæði laga þessara um greiðslumark og beinar greiðslur ríkissjóðs til framleiðenda mjólkur og sauðfjárafurða á lögbýlum falla úr gildi 31. ágúst 1998 nema samningur hafi verið gerður á grundvelli a-liðar 1. mgr. 30. gr.

Ákvæði til bráðabirgða.
A.
     Framleiðnisjóður landbúnaðarins skal bera kostnað við sölu á kindakjöti sem fellur til haustið 1992 vegna reglugerðar sem landbúnaðarráðherra setur skv. 5. mgr. 36. gr. laganna um mismunandi niðurfærslur eftir landsvæðum.
B.
     Heimilt er að verja á árinu 1993 allt að 250 milljónum króna af innheimtum verðjöfnunargjöldum af mjólk til að greiða fyrir niðurfærslu fullvirðisréttar til framleiðslu mjólkur sem framkvæmd var 1. september 1992 og tók gildi frá og með verðlagsárinu 1992–1993. Framleiðnisjóður landbúnaðarins skal greiða fyrir niðurfærslu fullvirðisréttar að því marki sem fullvirðisréttur, sem leigður hefur verið Framleiðnisjóði, er tekinn í notkun á ný verðlagsárið 1992–1993. Greiðsla vegna niðurfærslu skal vera 50 kr. fyrir hvern lítra mjólkur í fullvirðisrétti.
     Greiðslur vegna niðurfærslu fullvirðisréttar til framleiðslu mjólkur skulu greiddar handhafa beinna greiðslna á lögbýlinu vegna framleiðslu mjólkur verðlagsárið 1992–1993 samkvæmt skrám Framleiðsluráðs landbúnaðarins 31. mars 1993. Þetta gildir þó ekki ef gert er samkomulag á milli ábúanda og eiganda lögbýlis, þegar ekki er um sömu aðila að ræða, um annan hátt á greiðslum, enda berist tilkynning þess efnis til landbúnaðarráðuneytisins fyrir 31. mars 1993.
     Þá skal Framleiðnisjóður bæta niðurfærslu sem nauðsynleg kann að verða vegna þess greiðslumarks (fullvirðisréttar) sem losnar úr leigu hjá sjóðnum verðlagsárið 1993–1994 eða síðar.
C.
     Heimilt er að verja á árunum 1993–1995 allt að 450 milljónum króna af innheimtum verðjöfnunargjöldum af mjólk til að styrkja úreldingu mjólkurbúa eða hagræðingu í mjólkuriðnaði samkvæmt sérstökum reglum sem landbúnaðarráðherra setur.
     Heimilt er að veita styrki til búháttabreytinga af ofangreindri fjárhæð á búum sem liggja fjarri afurðastöð og til búa þar sem flutningskostnaður vex verulega vegna úreldingar mjólkurbús.
D.
     Heimilt er á árinu 1993 að verja allt að 175 milljónum króna af innheimtum verðjöfnunargjöldum af mjólk til að standa straum af hluta kostnaðar við niðurgreiðslu á birgðum mjólkurvara sem til staðar verða í árslok 1992. Skal fjárhæð þessi endurgreidd úr ríkissjóði á árinu 1994, sbr. 6. gr. samnings um stjórnun mjólkurframleiðslu frá 16. ágúst 1992.
E.
     Fram til 31. ágúst 1993 skal tilkynna viðkomandi búnaðarsambandi ef selja á greiðslumark til framleiðslu mjólkur út af svæði þess. Þá skulu aðrir bændur á búnaðarsambandssvæðinu eiga forkaupsrétt að greiðslumarkinu í fjórar vikur eftir að tilkynning um sölu berst til búnaðarsambands. Sé forkaupsréttar neytt skal andvirði greiðslumarksins staðgreitt eða fullnægjandi trygging sett að mati seljanda. Landbúnaðarráðherra setur nánari reglur um auglýsingu og framkvæmd forkaupsréttar samkvæmt þessu ákvæði.
F.
     Á verðlagsárinu 1992–1993 skulu beinar greiðslur til framleiðenda mjólkur á lögbýlum miðast við þann hluta greiðslumarks sem ónotaður er 1. janúar 1993.
G.
     Fram til 1. september 1993 getur landbúnaðarráðherra, þrátt fyrir ákvæði 4. málsl. 20. gr., heimilað innheimtu verðskerðingargjalds, enda liggi fyrir ósk um það frá stjórn Stéttarsambands bænda.