131. löggjafarþing — þingsetningarfundur

Minning Gunnars G. Schrams.

[14:38]

Aldursforseti (Halldór Ásgrímsson):

Hinn 29. ágúst sl. lést í Reykjavík dr. Gunnar G. Schram, prófessor og fyrrverandi alþingismaður, á 74. aldursári.

Gunnar Schram var fæddur á Akureyri 20. febr. 1931, sonur hjónanna Gunnars Schrams, umdæmisstjóra Landssímans þar, síðar ritsímastjóra í Reykjavík, og Jónínu Jónsdóttur Schram húsmóður.

Gunnar lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1950 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1956. Hann stundaði framhaldsnám í þjóðarétti við Max Planck-stofnunina í Heidelberg í Þýskalandi og háskólann þar 1957–1958 og við háskólann í Cambridge í Englandi 1958–1960, lauk doktorsprófi þar í þjóðarétti árið 1961.

Gunnar Schram stundaði blaðamennsku samhliða háskólanámi hér og heimkominn að námi loknu varð hann ritstjóri dagblaðsins Vísis á árunum 1961–1966. Þá hvarf hann til starfa í utanríkisráðuneytinu, varð ráðunautur þess í þjóðarétti. Hann var sendiráðunautur og varafastafulltrúi í fastanefnd Íslands í New York 1971–1974 og jafnframt ræðismaður Íslands í New York 1971–1972. Gunnar Schram hafði verið lektor við lagadeild Háskóla Íslands 1970–1971 og er hann sneri heim á ný 1974 frá Bandaríkjunum varð hann prófessor við lagadeildina og gegndi því embætti þar til starfsævi hans lauk.

Gunnar Schram lét til sín taka í margvíslegu félagsmálastarfi. Hann var varaformaður og ritari Sambands ungra sjálfstæðismanna 1953–1957, formaður Blaðamannafélags Íslands 1962–1963, Lögfræðingafélags Íslands 1979–1981, Félags háskólakennara 1979–1981, Bandalags háskólamanna 1982–1986 og Félags Sameinuðu þjóðanna 1969–1971. Jafnframt sat hann á fjölmörgum ráðstefnum á vegum íslenskra stjórnvalda um alþjóðamál, einkum hafréttarmál, umhverfismál og þróunaraðstoð frá 1968 og fram á síðustu ár. Gunnar var ráðunautur stjórnarskrárnefndar 1975–1983.

Gunnar Schram ritaði fræðibækur um sérsvið sín innan lögfræðinnar og margar fræðigreinar í tímarit um þjóðarétt, stjórnskipunarrétt, umhverfisrétt, hafréttarmál o.fl. Hann þótti skýr og áheyrilegur kennari og hafði frjálsmannlegt fas. Við upphaf sjónvarps á Íslandi á sjöunda áratug liðinnar aldar var Gunnar meðal hinna fyrstu til að stjórna þar umræðuþáttum um þjóðfélagsmál og aflaði það honum vinsælda landsmanna fyrir skýran málflutning og prúðmannlega framkomu.

Í kjölfar mikilla sviptinga í stjórnmálum upp úr 1980 leitaði Gunnar Schram stuðnings sjálfstæðismanna í Reykjaneskjördæmi til þingframboðs. Hann hlaut góðar undirtektir og skipaði hann 2. sæti á framboðslista flokksins í alþingiskosningunum 1983 og sat á Alþingi til 1987, skemur en margir væntu í upphafi, en sneri þá á ný til fyrri starfa sinna við kennslu og fræðistörf.

Gunnar G. Schram var góður samverkamaður á Alþingi. Málflutningur hans hér bar merki hins góða fræðimanns og kennara. Hann var fyrirmannlegur á velli, glaðsinna og drenglundaður maður.