131. löggjafarþing — 2. fundur,  4. okt. 2004.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:41]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Ég get gert þá játningu að mér létti verulega þegar ég hafði lesið stefnuræðu Halldórs Ásgrímssonar því ég sá það að bragði að ég þyrfti ekki að bregða út af vana mínum hér við upphaf umræðna af þessu tagi. Ég get svo sannarlega sagt að þetta er einhver aumasta stefnuræða sem ég hef lengi heyrt og alveg örugglega sú lélegasta sem núverandi forsætisráðherra hefur flutt, enda reyndar hans fyrsta. Það má því segja að það leggist lítið fyrir þá sem hafa brotið trúnað og lekið út efni ræðunnar í tvennum skilningi. Þeir hafa gert sig litla og af litlu tilefni. En að þessu gamni slepptu vil ég auðvitað nota tækifærið og færa nýjum forsætisráðherra árnaðaróskir, sömuleiðis nýjum umhverfisráðherra og fyrrverandi forsætisráðherra í nýju hlutverki sömuleiðis. Við fögnum því sérstaklega að hafa Davíð Oddsson utanríkisráðherra sprækan hér á meðal okkar í kvöld og í hópi ræðumanna.

Ég get tekið undir margt af því og allt auðvitað sem hann sagði um samstarf okkar stjórnarandstæðinga og hans sem forsætisráðherra. Það hefur gengið á ýmsu og oft verið stormasamt en eitt er víst að það hefur aldrei verið leiðinlegt að eiga við Davíð Oddsson. Harðar deilur vorsins og sumarsins eru mönnum að sjálfsögðu í fersku minni. Því miður virðast stjórnarliðar lítið hafa af þeim lært ef marka má t.d. upphaf þingsetningarinnar á föstudaginn var þegar þingforseti, Halldór Blöndal, setti þingið með miklum tilþrifum og kaus að nota þingsetningarfund í beinni sjónvarpsútsendingu þar sem hann hafði einn orðið til þess að hjóla beint í þessi brennheitu deilumál sumarsins með afar hlutdrægum hætti og hefja málflutning fyrir hinum vonda málstað ríkisstjórnarinnar í fjölmiðlamálinu sem síðar breyttist í raun og veru í stjórnarskrármál með því ferli sem hófst frá og með 2. júní sl. þegar 26. gr. stjórnarskrár lýðveldisins var virkjuð í fyrsta sinn. Ég lýsi því yfir fyrir mitt leyti að ég er albúinn til þessarar umræðu hafi stjórnarliðar sérstakan áhuga á því að rifja hana upp og halda henni áfram. Og það hrekur mig ekki einu sinni af hólmi þó að Morgunblaðið hafi af einhverjum hvötum tekið sér það hlutverk að vera einhvers konar „fúllbakk“ í vörn ríkisstjórnarinnar, liggja endilangt í öftustu vörn og hreinsa stanslaust út af. Hitt get ég játað að ég hefði svona fyrir fram búist frekar við því að litlu karlarnir, litla fólkið sem leitaði linnulaust í sjö vikur að undankomuleiðum til þess að þurfa ekki að horfast í augu við dóm þjóðar sinnar, kysu frekar að gleyma þessu öllu saman heldur en hefja þinghaldið á að rifja það upp. En verði þeim að góðu.

Um innihald þessarar stefnuræðu þarf ekki að hafa svo mörg orð. Ræðan er að mestu leyti fremur gerilsneydd upptalning á því sem ráðuneytin hyggjast afreka. Það hefur verið límt saman upp á gamla móðinn. Vandræðin ef einhver eru virðast í hugarheimi hæstv. forsætisráðherra fyrst og fremst vera stjórnarandstöðunni að kenna. Það erum t.d. við sem gætum spillt því að það semjist í kennaradeilunni. Það er andinn í umfjöllun hæstv. forsætisráðherra um það mál. Og það á að vera okkar uppfinning að ríkisstjórnin hafi svikið sína samninga við öryrkja. Staðreyndirnar tala sínu máli í báðum þessum málum. Fjárhagsleg spennitreyja sveitarfélaganna er staðreynd og það er ekki einhver uppdiktun stjórnarandstöðu. Hin harða kjaradeila í hverrar skugga við tölum hér saman er líka staðreynd. Sömuleiðis er það staðreynd að ríkisstjórnin gerði samning við öryrkja, einhvers konar aflausnarsamning eftir allar illdeilurnar sem hún hafði troðið við þá rétt fyrir kosningar 2003. Nú reyna menn að kalla þetta viljayfirlýsingu. Nú eru menn allir á hlaupum frá innihaldi samningsins en það er ekki lengra síðan en í fyrra sem ábyrgðaraðilar hans töluðu um áfanga í því að efna hann að fullu. Og það er heldur nöturlegt að sjá menn svo lúbarða færa sig á aftasta bekkinn eins og hæstv. heilbrigðisráðherra Jón Kristjánsson er að gera þessa dagana.

Fyndnasta setningin í ræðunni er þó sennilega á bls. 2. Þar segir:

„Líkt og undanfarin ár verður tekjuafgangi ríkissjóðs varið til greiðslu skulda.“

Er það tekjuafgangurinn í fyrra eða hittiðfyrra? Hver var hallinn þá, 8 milljarðar eða svo á hvoru ári fyrir sig?

Auðvitað er það rétt sem hæstv. utanríkisráðherra kom inn á, að það þarf að horfa til þess hvernig fjármunum hefur verið varið innan ársins. En ef ekki væri stórfelld sala á eignum ríkisins undanfarin ár þá væri útkoman ekki björguleg hjá hæstv. fjármálaráðherra Geir Hilmari Haarde.

Auðvitað eru það ekki orð á blaði og allra síst sjálfshól og auglýsingaskrum sem mestu máli skiptir þegar til kastanna kemur. Það eru verkin sem sýna merkin. Geðþekki félagshyggjuflokkurinn í stjórnarandstöðu úr verðlaunaauglýsingunum fyrir kosningarnar 2003, hvað er hann? Það er gamli Framsóknarflokkurinn, í stjórn með íhaldinu að framfylgja stefnu þess og virðist láta sér vel líka.

Tökum skattamálin. Hver er stefnan í skattamálum? Að lækka sérstaklega skatta á hátekjufólk. Það er sama stefna og Bush hefur. Þeir eiga fleira sameiginlegt með Bush, Davíð Oddsson, Halldór Ásgrímsson og ráðuneyti þeirra, heldur en brennandi áhuga á ónefndum utanríkismálum. Þeir eru með sömu skattapólitík. Sá er að vísu munurinn að í Bandaríkjunum er það beinlínis viðurkennt og því sérstaklega lofað að lækka skatta hinna tekjuhæstu. En hér er reynt að fela það. Staðreyndin er sú að skattalækkanir eru efnahagslegt óráð við þær aðstæður sem við stöndum frammi fyrir þegar áhyggjur manna eru umfram annað af verðbólgu og viðskiptahalla, velferðarmálin eru svelt og skólarnir geta ekki tekið við nýjum árgöngum. Ef ríkissjóður er aflögufær, er þá ekki nær að nota það svigrúm til að lagfæra stöðu sveitarfélaganna sem rekin eru með halla og bullandi skuldasöfnun ár eftir ár? Hvort er betra innlegg í þróun velferðarsamfélagsins á Íslandi, að lækka skatta hátekjufólks eða nota opinbera fjármuni til að gera leikskóladvöl gjaldfrjálsa í áföngum, eins og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum barist fyrir?

Það er reyndar svo, herra forseti, að það er furðulega lítil umræða á Íslandi um þróun þjóðarbúskaparins og erlenda skuldasöfnun. Ég heyrði hvorugan málsvara stjórnarflokkanna nefna það á nafn hér áðan. Það er engu líkara en það sé í gangi þjóðarsamsæri um að allir ljúgi því að öllum að það sé allt í himnalagi og veislan geti haldið áfram endalaust. Hvað veldur þeirri miklu meðvirkni skal ósagt látið en það er eins og ansi margir hugsi: Flýtur á meðan ekki sekkur og meðan ég hef gott út úr hlutunum þá er best að tala ekki um ástandið.

Staðreyndin er sú að nú stefnir í 65 milljarða viðskiptahalla á þessu ári. Áætlunin er upp á 104 milljarða kr. á næsta ári og 140 milljarða kr. 2006. Hvað þýðir þetta? Yfir 300 milljarða kr. uppsafnaðan viðskiptahalla á þremur árum, ef þessar áætlanir ganga eftir. Hvað er það? Það eru rúmlega ein fjárlög ríkisins. Það á að reka íslenska þjóðarbúið með halla út á við á þessu ári og tveimur næstu sem nemur rúmlega heilum fjárlögum. Hver er greiðslubyrðin af því? Hverjir eru vextirnir og afborganirnar bara af þeim þriggja ára viðskiptahalla, ef svo heldur sem horfir? Það er ekki þannig að hægt sé að útskýra þetta með lántökum vegna stóriðjuframkvæmda. Þær skýra tæplega helminginn af þessu. Afgangurinn er aukin skuldasöfnun íslenskra heimila, atvinnulífs og sveitarfélaga. Þau eru þó skuldsett fyrir. Íslensk heimili náðu því vafasama meti, líklega fyrir einu eða tveimur árum síðan að verða þau skuldugustu í heimi. Skuldir þeirra stefna nú óðum í 200% af ráðstöfunartekjum.

Hvað gera menn við þessar aðstæður? Jú, hinir ábyrgu einkavæddu bankar ýta undir einkaneyslu. Ríkisstjórnin lækkar skatta, hellir olíu á eldinn. Einn rær á móti þessum þunga straumi, aumingja Seðlabankinn og baksast við að hækka stýrivexti. Auðvitað er hundleiðinlegt að fara með þessar tölur. Auðvitað er miklu skemmtilegra að panta meira kampavín og halda veislunni áfram, lofa skattalækkunum, reka ríkissjóð með því að selja eignir og hala inn á viðskiptahalla á meðan hann varir, á meðan menn hafa lánstraust. En staðreyndin er sú að það er ekkert hættulegra stöðugleika og lífskjörum í landinu en hinar gríðarlegu hreinu erlendu skuldir þjóðarbúsins. Hugsum okkur þann dag, sem er því miður handan við hornið ef svo heldur fram sem horfir, að hreinar erlendar skuldir íslenska þjóðarbúsins verði eitt þúsund milljarðar kr. Þá þurfa menn ekki doktorspróf í stærðfræði til að átta sig á því hvaða fjárhæðir t.d. 10% gengisfelling eða 1% hækkun erlendra raunvaxta færir til í samfélaginu. Þeir sem eru að reyna að skapa traustar forsendur fyrir langtímakjarasamninga ættu að velta því samhengi fyrir sér.

Kannski er þó smánarlegasta málið í farteski ríkisstjórnarinnar og í forsendum fjarlagafrumvarpsins svikin við öryrkja sem ég nefndi áðan. Það er ömurlegt að sjá tilburði ríkisstjórnarinnar til að drekkja þeim svikum í umfjöllun um vaxandi fjölda öryrkja. Til hvers er sá leikur gerður? Eiga þeir sem hafa misst starfsorkuna undanfarin missiri að skammast sín sérstaklega? Eiga þeir að hafa samviskubit, hæstv. forsætisráðherra? Eiga þeir að koma og skila bótunum? Nei, eigum við ekki að reyna að ræða þetta á efnislegum forsendum?

Reyndin er sú að fjöldi öryrkja á Íslandi í dag er enn hlutfallslega lítill, t.d. í norrænum samanburði. Slæmt atvinnuástand og vaxandi harka á vinnumarkaði sem öryrkjar hafa mætt undanfarin ár skýrir að mínu mati þá breytingu sem þar er orðin en ekki eitthvað annað. Eða hvað er verið að gefa í skyn?

Ég hefði gjarnan viljað koma inn á mesta utanríkismálahneyksli síðari ára, einhliða ákvörðun Halldórs Ásgrímssonar og Davíðs Oddssonar um að lýsa yfir stuðningi við hið ólögmæta árásarstríð gegn Írak. Ég vitna til þess að fyrir liggur tillaga okkar í stjórnarandstöðunni um að þau mál verði gerð upp og það fyrr en síðar.

Að lokum segi ég, góðir áheyrendur: Það er mikil þörf á því að taka til, bæði efnislega og huglægt, í íslenskum stjórnmálum. Það er orðin mikil þörf á breytingum. Það eitt vitum við og yfir því getum við glaðst að með hverjum deginum sem líður erum við þó einum degi nær því að losna við þessa þreyttu ríkisstjórn. Þegar af þeirri ástæðu er ástæða til að þakka fyrir hvern dag sem okkur auðnast líf og heilsa til að að sjá það renna upp.

Ég þakka þeim sem hlýddu. Góðar stundir.