131. löggjafarþing — 2. fundur,  4. okt. 2004.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:53]

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Sú staða sem blasir við okkur Íslendingum á þessu hausti er á margan hátt afar jákvæð. Öll merki benda til þess að nýtt skeið öflugs hagvaxtar sé að hefjast þar sem hjól atvinnulífsins snúast hraðar, tekjur þjóðarbúsins aukast ár frá ári og ávinningurinn skilar sér til almennings, bæði í fleiri störfum og auknum kaupmætti. Vandamálin sem við þurfum að glíma við á næstu árum verða þess vegna ekki fyrst og fremst vandamál sem tengjast samdrætti eða niðursveiflu, heldur miklu frekar ákveðnir vaxtarverkir sem fylgja velgengninni.

Það er engin ástæða til að gera lítið úr því að hröðum vexti getur fylgt þensla sem raunverulega reynir á þanþol hagkerfisins. Hins vegar er ljóst að með aðhaldssamri stjórn ríkisfjármála, skynsamlegri stefnu í peningamálum og ábyrgum samningum á vinnumarkaði er hægt að tryggja að við glutrum ekki niður ávinningnum af hagvextinum. Þess vegna eigum við að horfa bjartsýn fram til verkefna næstu ára en ekki að mikla vandamálin fyrir okkur.

Hvorki ríkisstjórnir né við sem sitjum hér á Alþingi sköpum með beinum hætti verðmæti fyrir þjóðarbúið. Það er hins vegar hlutverk okkar að skapa þau almennu skilyrði að frumkvæði og framtak einstaklinga og fyrirtækja fái notið sín. Þannig verða til ný verðmæti sem skila sér í bættum þjóðarhag. Það er einmitt reynsla undanfarinna ára. Með því að auka frelsi, opna hagkerfið, einkavæða opinber fyrirtæki og lækka skatta hafa ríkisstjórnir síðustu ára lagt sitt af mörkum til þess að skapa atvinnulífinu aðstæður sem eru í fremstu röð meðal þeirra þjóða sem við berum okkur saman við. Það er líka sá árangur sem við byggjum á þegar við veltum því nú fyrir okkur hvernig við getum tryggt að hagvöxtur og aukin umsvif skili sér til almennings.

Í því sambandi er ljóst að skattalækkanir gegna lykilhlutverki. Aukin umsvif í hagkerfinu skila sér í auknum tekjum ríkissjóðs og þessar auknu tekjur gefa okkur möguleika á því að lækka skatta meir en dæmi eru um áður. Svigrúmið vegna aukinna tekna dugar ekki bara til að lækka skatta. Það gefur okkur líka möguleika á því að auka framlög til mikilvægra málaflokka sem víðtæk samstaða er um að efla. Fjárlagafrumvarpið gerir þannig ráð fyrir að varið verði auknum framlögum, t.d. bæði til heilbrigðismála og menntamála, bæði að krónutölu og líka sem hlutfall af ríkisútgjöldum. Það er mikilvægt að árétta þetta vegna þess að öðru er iðulega haldið fram í opinberri umræðu, m.a. af síðasta ræðumanni hér í dag.

Staðreyndin er sú að þrátt fyrir allt tal um niðurskurð og fjársvelti í þessum málaflokkum sýna tölulegar staðreyndir allt aðra mynd. Með þessu vil ég ekki draga úr því að það verður geysilega mikilvægt verkefni fyrir okkur að sýna ýtrasta aðhald í ríkisfjármálum á næstu árum. Það er auðvitað á þeim grunni sem fjárlagafrumvarpið er byggt og afar mikilvægt að þingmenn standi saman um það, að þær forsendur sem koma fram um aukningu ríkisútgjalda haldi. Við megum ekki missa tökin á útgjöldum ríkisins. Það getur valdið þenslu sem okkur gengur illa að ráða við.

Talsmenn stjórnarandstöðunnar í kvöld hafa hver á fætur öðrum komið hér og talað um þreytumerki á ríkisstjórninni. Þetta er raunar það sama og þeir sögðu í fyrra. En góðir áheyrendur. Er það þreytt ríkisstjórn sem leggur grunninn að einhverju mesta hagvaxtarskeiði sem við höfum séð hér á landi? Er það þreytt ríkisstjórn sem treystir sér til að lækka skatta meira en nokkru sinni hefur verið gert? Er það þreytt ríkisstjórn sem greiðir niður skuldir og leggur á sama tíma til fjármuni til þess að standa við lífeyrisskuldbindingar framtíðarinnar? Og er það þreytt ríkisstjórn sem treystir sér til þess að hrinda þessum áformum í framkvæmd um leið og verið er að stórauka framlög til heilbrigðis-, mennta- og velferðarmála?

Svar mitt er nei. Það er ekki þreytt ríkisstjórn. Það er hins vegar spurning hvort það er þreytt stjórnarandstaða sem nú á þessu haustþingi er orðin svo lúin að hún telur þörf á því að flokkarnir styðjist hver við annan með einhverjum öðrum hætti en gert hefur verið hingað til. Það verður forvitnilegt á þessu þingi að fylgjast með því hvernig sú samvinna mun ganga. Við höfum heyrt ákveðinn áherslumun á mönnum í umræðunum í kvöld og það verður gaman að heyra á þessu þingi hvort sú samvinna mun birtast í því að menn fylki sér um Evrópustefnu Samfylkingarinnar eða virkjanastefnu Vinstri grænna eða t.d. skattastefnuna sem Össur Skarphéðinsson boðaði í kvöld og Steingrímur J. Sigfússon taldi hið mesta óráð. Það verður mjög forvitnilegt að fylgjast með þessu.

Kannski er í rauninni það eina sem stjórnarandstaðan sameinast um að vera á móti ríkisstjórninni. Það eru út af fyrir sig engin ný tíðindi. Það er kannski það eina nýja í stöðunni, fyrir utan leiktjöldin sem af og til er slegið upp til þess að reyna að láta líta út fyrir að eitthvert nýtt skeið sé hafið hjá þessari þreyttu stjórnarandstöðu.