131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:04]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það var einkennileg deyfð yfir hæstv. fjármálaráðherra. Undanfarin ár hefur hann verið býsna glaðbeittur á þessum stundum. Hann hefur verið ánægður með verk sitt en nú er eitthvað að naga hæstv. ráðherra. Ég ætla ekki að vera með neinar getgátur um hvað veldur. Óneitanlega vekur það athygli að fjölbreytnin í talnaleiknum hjá hæstv. ráðherra er ekki mjög mikil. Hér er 1% lækkun á tekjuskatti og 1% hagræðingarkrafa á stofnanir. Það er þetta 1% sem virðist aðalatriðið hjá hæstv. fjármálaráðherra.

Ég ætla í stuttu andsvari ekki að fara í allar myndir þessa eina prósents en það er nauðsynlegt að spyrja hæstv. fjármálaráðherra strax að því hvernig á því stendur að niðurstaða ríkisstjórnarinnar hafi verið að lækka tekjuskatt um 1% flatt á alla jafnt og eyða í það um það bil 5 milljörðum kr., lækka hátekjuskatt um 2% og eyða í það 650 millj. kr. en ekki velta upp ýmsum öðrum möguleikum til að nota sömu fjármuni til að skila þeim á jafnari hátt til íbúa þessa lands. Hvernig stendur á því að sama upphæð var t.d. ekki notuð til að lækka hinn svokallaða matarskatt úr 14% í 7%? Kostnaður við það er, eins og ég sagði, svipaður og þær áætlanir sem hér er gert ráð fyrir. Af hverju var ekki farið í að hækka skattleysismörk, sem einnig var hægt? Hver er ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin velur þá leið sem skilar sem ójafnast til þjóðarinnar þeim lækkunum sem um er að ræða?