131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:06]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu mun koma fram sérstakt frumvarp um breytingar á skatthlutföllum og öðru sem því tengist. Það er ekki hluti af fjárlagafrumvarpinu að öðru leyti en því að það hefur áhrif á tekjuspána í frumvarpinu.

Ég skal með ánægju svara hv. þm. Það er gert ráð fyrir 1% lækkun tekjuskatts, eins og fram er komið. Það er hluti af áætlun ríkisstjórnarinnar til þriggja ára um lækkun tekjuskattsins. Menn vilja lækka jaðarskattinn sem leggst á hverja viðbótarkrónu sem almenningur aflar sér í tekjur. Það er skýringin. Við höfum jaðarskatt til ríkisins, upp á 25,75%. Skoðun mín og margra annarra er að það sé of hátt hlutfall þegar við bætist það sem til viðbótar kemur til staðgreiðslu og rennur til sveitarfélaganna. Markmiðið er að minnka jaðaráhrifin í skattkerfinu og gera eftirsóknarverðara að afla sér meiri tekna. Þetta eru með öðrum orðum vinnuhvetjandi aðgerðir, hvetja til þess að vinnuframboð aukist. Það er engin tilviljun. Það er sérstök þörf á því á næstu árum að hvetja til þess að meira vinnuframboð verði á vinnumarkaðnum með tilliti til þess sem þar er fram undan varðandi framkvæmdir. Þetta er ástæðan.

Auðvitað er hægt að tína til margar aðrar leiðir til að ráðstafa fjármunum úr ríkissjóði. Það þekkjum við öll. Samfylkingin hefur aldeilis ekki legið á liði sínu í því efni, að koma með góðar hugmyndir um að fella niður tekjur ríkissjóðs.