131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:08]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra gefur ágætar skýringar á þeirri leið sem ríkisstjórnin valdi, fyrst og fremst að hvetja hátekjumenn til að vinna meira. Það er göfugt markmið út af fyrir sig. En það var fleira sem hæstv. fjármálaráðherra nefndi í ræðu sinni sem vakti athygli mína. Það er hið mikla aðhald sem áfram skal beitt í ríkisfjármálum. Það er líklega svipað aðhald og beitt var á fjárlagaárinu 2003 þegar útgjöldin jukust um rúmlega 27 milljarða kr. eða um heilar 3 millj. kr. á hverri einustu klukkustund ársins.

Kannski er sendiherrabústaðurinn sem á að fara að byggja í Berlín fyrir litlar 230 millj. kr. dæmi um aðhaldið. Það er líklega besta aðhaldsdæmið sem ég fann í fjárlagafrumvarpinu. Það er ástæða til að spyrja hæstv. ráðherra: Er sendiherrabústaðarbyggingin svo nauðsynleg á árinu 2005 að hjá henni verði ekki komist? Á einstaka stöðum í fjárlagafrumvarpinu er beitt aðhaldi en það er ekki að sjá að það sé í anda þess sem sums staðar er beitt. Þess vegna er hæstv. fjármálaráðherra spurður: Er sendiherrabústaðarbyggingin í Berlín dæmi um það aðhald sem hann vill sjá í fjárlögum næsta árs?