131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:13]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er greinilegt að hv. þm. hefur ekki lagt vel við hlustir þegar ég flutti mál mitt. Ég fór yfir það hve mikill afgangurinn á ríkissjóði væri þegar búið er að taka frá þær sölutekjur sem hann nefndi og aðra óreglulega liði. Hver varð niðurstaðan? 95 milljarðar kr. í afgang á árunum 1998–2003.

Ég heyrði ekki betur en hv. þm. væri að bjóða mér upp á námskeið í meðferð ríkisfjármála. Ég skal gjarnan mæta á námskeið hjá honum í þeim efnum. Mikið verður gaman í þessum sal þegar hv. þm. Jón Bjarnason verður orðinn eftirmaður minn. Hann er helsti sérfræðingur Vinstri grænna í ríkisfjármálum og talsmaður þeirra á þeim vettvangi. Þá förum við saman á námskeið.

Það er rangt að leggja hlutina upp með þeim hætti sem hv. þm. gerði. Það er sjálfsagt að tala um málið af sanngirni, hvað hefur farið úrskeiðis og hvað hefur gengið eftir en það verður að bera saman réttu hlutina eins og ég fór rækilega yfir í ræðu minni. Ég tel að ýmislegt sem áður hefur verið fært til gjalda umfram fjárlögin, t.d. lífeyrisskuldbindingar, muni minnka á næstu árum. Við höfum gert það miklar ráðstafanir, t.d. í innborgunum í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins að það fer að vega þungt þar upp á móti, eins og ég vænti að hv. þm. hafi tekið eftir í skýringum mínum fyrr í dag og af kynningarfundi um fjárlagafrumvarpið fyrir helgi.