131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:15]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðheyrt að það kemur við kvikuna á hæstv. fjármálaráðherra að ræða það sem við erum að bera saman því að í einu dæminu er hann kominn með nokkurra tuga milljarða kr. afgang en í öðru er hann kominn í allt annað.

Ég held því að það sé virkilegt ráð, hæstv. ráðherra, að taka saman einhverja skilvirka vinnureglu í ráðuneytinu um það hvernig bera eigi fjárlagaliðina saman frá ári til árs og innan árs svo að menn geti ekki talað út og suður eins og hæstv. ráðherra gerir hér.

Ég vil líka inna hæstv. ráðherra eftir einu: Mun hann eða hefur hann nú þegar sent áminningarbréf úr ráðuneytinu hliðstætt því sem hann sendi 23. október í fyrra þar sem lagst er gegn því að forstöðumenn ráðuneyta og stofnana komi til fjárlaganefndar og beri upp erindi sín, þar sem þeim er meinað um það sem liður í einhverjum húsagatilskipunum ráðuneytisins? Hefur slíkt bréf verið sent eða mun slíkt bréf verða sent aftur út eða fá forstöðumenn stofnana frjálsan og óhindraðan rétt og möguleika til að bera mál sín upp að eigin frumkvæði við fjárlaganefnd?

Þau gerræðislegu vinnubrögð sem ráðuneytið sýndi á liðnu hausti voru alveg með fádæmum. Því er eins gott að fá þetta nú þegar í stað á hreint. Verður slíkum gerræðislegum vinnubrögðum beitt áfram?