131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:18]

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Það er eðlilegt við 1. umr. um fjárlög að ræða almennt um það sem þar kemur fram en ekki fara yfir einstaka liði eins og gert verður í meginumræðunni sem er 2. umr.

Ljóst er að það hagvaxtarskeið sem við getum sagt að hafi hafist árið 2003 mun halda áfram og heldur áfram með meiri krafti en gert var ráð fyrir. Hagvöxturinn er mun meiri en gert var ráð fyrir fyrir nokkrum árum og er vaxandi. Þetta er góðs viti en auðvitað vandi sem þarf að taka á. Viðskiptahallinn er síðan það hættumerki sem við þurfum að fylgjast með. Aukning verðbólgu er einnig hættumerki sem þarf að fylgjast með.

Stöðugleikinn er hins vegar okkur algjör nauðsyn. Þess vegna skiptir fjárlagafrumvarp hvers árs máli. Þess vegna skipta fjárlög hvers árs miklu máli. Það er vegna þess að ríkisfjármálin skipa verðugan sess í efnahagslífi þjóðarinnar og þess vegna er afar mikilvægt að fjárlagafrumvarpið sem slíkt sé sem allra best úr garði gert.

Því miður verður að segja allt eins og það er. Því miður hefur það ekki verið raunin undanfarin ár að nægilega vel hafi verið staðið að verki, að fjárlagafrumvarpið hafi verið nægilega nákvæmt, að fjárlagafrumvarpið hafi verið nægilega vandað, að nægilega vel hafi verið áætlað fyrir útgjöldum einstakra stofnana ríkisins. Því miður verður að segja að reynslan sýnir að harla lítið mark er takandi á fjárlagafrumvörpum ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og það hvort sem litið er til ríkisútgjalda eða þess afgangs sem áætlaður er. Það virðist því miður vera þannig að afskaplega lítil stjórn sé á útgjaldaaukningu ríkisins. Það sem hefur hins vegar bjargað því sem bjargað verður er að hagvöxturinn hefur verið það mikill að hann hefur skilað ríkissjóði stórauknum tekjum og þannig hefur verið hægt að ná endum saman.

En það er kannski ekkert skrýtið þó að þessi niðurstaða sé eins og hún er. Við heyrðum hæstv. utanríkisráðherra í gærkvöldi tala um að það væri óeðlilegt að bera saman ríkisreikning og fjárlög eða fjárlagafrumvarp. Við höfum auðvitað ekkert annað til þess að bera saman, eða hvað á að bera fjárlagafrumvarpið saman við? Á að bera það saman við fjárlög ársins á undan? Á að bera það saman við væntanlega útkomu núverandi árs? Því miður eru engar af þessum tölum þannig að hægt sé að bera þær saman. Hins vegar vita menn að þegar ríkisreikningurinn er kominn þá er ýmislegt fleira komið til en er í fjárlagafrumvarpinu. En það afsakar ekki að áætlað sé fyrir ýmsum af þessum þáttum. Til er liðurinn Annað og ófyrirséð og í fjárlagafrumvarpi þessa árs er m.a. sett inn upphæð sem er áætlaður kostnaður af væntanlegum kjarasamningum. Auðvitað er því hægt að standa betur að verki.

En það er eins og hæstv. ráðherrar vilji geta ráðstafað ýmsum hlutum eftir á vegna þess að það er á einhvern hátt þægilegra. Og það er athyglisvert, þegar hæstv. fjármálaráðherra kemur hér svo í morgun og fer að svara þessum samanburði, að taka eftir dæminu sem hann tekur, dæminu sem hann finnur. Hann þarf að fara allt aftur til ársins 1989 til þess að finna það. Auðvitað væri hægt að taka miklu fleiri dæmi á þessu tímabili sem við vorum að bera saman. En hæstv. ráðherra fer alveg aftur til 1989 til þess að finna sínar tölur. Þegar hann fer að skoða tímabil þá notar hann tímabilið 1998–2003 en ekki sama tímabilið og við notuðum, þ.e. árið 2000–2003.

Hvers vegna notuðum við það? Jú, vegna þess að ákveðin breyting var gerð 1998 þegar allt var sett á rekstrargrunn og það verður að segjast eins og er að það er auðvitað eðlilegt að það taki einhvern tíma að sú breyting komi fram að fullu. Við ákváðum þess vegna að sleppa tveim fyrstu árunum þegar við unnum okkar tölur.

En annað er miklum mun athyglisverðara í máli hæstv. fjármálaráðherra og það er að hæstv. fjármálaráðherra notar líka ríkisreikninginn til samanburðar þegar hæstv. ráðherra hentar.

Ég vil vitna orðrétt í ræðu hæstv. fjármálaráðherra. Þar segir með leyfi forseta:

„Tekjuafgangur ríkissjóðs árið 2005 er áætlaður 11,2 milljarðar króna í frumvarpinu og styrkist staðan nokkuð frá áætlaðri útkomu þessa árs og verulega miðað við“ — og miðað við hvað? — „ríkisreikning 2003.“

Það er nýjasti ríkisreikningurinn og afskaplega eðlilegt að við hann sé miðað og hæstv. ráðherra gerir það að sjálfsögðu. Það finnst mér eðlilegt því að það eru auðvitað þær tölur sem við höfum gleggstar um slíkar niðurstöður.

Herra forseti. Ég sagði að því miður væri reynslan þannig að fjárlagafrumvörpin væru afskaplega lítt marktæk og það er alvarlegt. Það er mjög alvarlegt, sérstaklega í ljósi þess efnahagsástands sem við búum nú við vegna þess að það þarf að sýna aðhald og það þarf að ná utan um ríkisútgjöldin. En það er auðvitað ekki sama hvernig það er gert. Ég tel ekki að 1% hagræðingarkrafa sé besta leiðin til þess. Ég tel að það þurfi að fara yfir rekstur ríkisstofnana og skoða nákvæmlega hvað aflaga hefur farið, hvernig á því standi t.d. að sumar ríkisstofnanir eru reknar með halla ár eftir ár en aðrar ríkisstofnanir safna inneignum ár eftir ár. Þarna er eitthvað sem hlýtur að þurfa að skoða.

Það verður að segja hæstv. ríkisstjórn til tekna að nú hefur hún loksins ákveðið að setja niður ráðherranefnd til þess að fara yfir stofnanakerfi ríkisins. Vonandi verður útkoman sú að tekið verði til í kerfinu. Loksins núna telur ríkisstjórnin ástæðu til þess að setja niður ráðherranefnd til þess að fara yfir þessa þætti þrátt fyrir að ítrekað hafi verið, ár eftir ár, bent á að þetta væri nauðsynlegt og það ekki bara af okkur stjórnarandstæðingum í þingsölum heldur hefur hver skýrslan af annarri frá Ríkisendurskoðun bent til þess að þetta væri nauðsynlegt.

Herra forseti. Örlítið meira um tölur. Þegar bornar eru saman tölur ársins 2000–2003 varðandi ríkisútgjöldin liggur fyrir að frá fjárlagafrumvarpi til ríkisreiknings skeikar um 113 milljörðum kr. Að meðaltali er þetta þess vegna um 28,3 milljarðar kr. á milli fjárlagafrumvarps og þeim raunveruleika sem við blasir í ríkisreikningi fyrir þessi fjögur ár.

Sé hins vegar litið til samþykktra fjárlaga annars vegar og hins vegar ríkisreikningsins þá munar að meðaltali á hverju ári 23,5 milljörðum kr. Hæstv. fjármálaráðherra taldi þetta allt saman blekkingar og nokkuð sem alls ekki ætti að gera vegna þess að t.d. kæmi í fjáraukalögum ýmislegt sem ekki væri fyrirséð. Vissulega eru dæmi um slíkt. En því miður hefur það nú verið þannig flest undanfarin ár að flest það sem samþykkt hefur verið í fjáraukalögum hefur allt saman verið fyrirséð, allt saman verið meira og minna fyrirséð. Vegna þess að það er of mikið kæruleysi við fjárlagagerðina hafa menn verið að koma með inn hluti í fjáraukalögum sem áttu svo sannarlega heima í fjárlögum, ýmist yfirstandandi árs eða þá í fjárlögum næsta árs.

Vegna þess að hæstv. fjármálaráðherra gerði svo mikið úr fjáraukalögunum skal ég gleðja hæstv. ráðherra með því að segja honum að á þessu sama tímabili skeikar á milli ríkisreiknings og fjárheimilda, þ.e. fjárlaga plús fjáraukalaga, um 19 milljörðum kr. að meðaltali á ári og er það ekki munur sem neinu meginmáli skiptir. Aðalatriðið er að þessi munur er allt of mikill. Á því þarf að taka og það er nauðsynlegt að menn horfist í augu við að það verður að bæta áætlunargerðina. Dæmið sem ég nefndi áðan um ráðherranefndina sýnir auðvitað að ríkisstjórnin hefur áttað sig á því að það þarf að bæta hlutina og ætlar vonandi að taka á því máli. Vonandi er þetta ekki einhver nefnd sem á bara að vinna og vinna og skila skýrslu sem fer ofan í skúffu. Vonandi verður einhver árangur af þessu.

Það er einnig athyglisvert þegar bornar eru saman tölur um afgang ríkissjóðs, því þar skeikar gífurlega miklu, að á þessu sama árabili, frá 2000–2004, er mismunurinn á afganginum miðað við fjárlagafrumvörpin og ríkisreikninginn um 85 milljarðar kr. og að meðaltali þá um 21 milljarður á ári.

Ef hins vegar er litið til fjárlaganna þá er munurinn meiri eða 22,5 milljarðar að meðaltali á ári, sem sýnir að menn hafa verið of bjartsýnir í breytingunum hér í þingsal, breytingum sem vissulega eru fyrst og fremst á ábyrgð ríkisstjórnar.

En það er ekki bara svo að illa sé staðið að áætlunargerð einstakra ríkisstofnana og eins og ég sagði áðan þá er það ekki bara stjórnarandstaðan sem hefur verið að benda á að ekki sé almennilega að þessum málum staðið. Ríkisendurskoðun hefur reglulega gefið út skýrslur. Í sumar kom út ný skýrsla. Í júnímánuði 2004 kom út skýrsla sem heitir Framkvæmd fjárlaga árið 2003. Þar eru ýmsar mjög merkilegar upplýsingar.

Á bls. 35 er t.d. birt afskaplega merkileg tafla um þjóðhagsstærðir í fjárlagafrumvörpum árin 1999–2003 og raunniðurstöður. Það verður að segjast eins og er að munurinn þar er gífurlegur þannig að forsendur fjárlaganna öll þessi ár hafa greinilega verið víðs fjarri raunveruleikanum. Nokkur dæmi héðan úr töflunni:

Áætlað var að verg landsframleiðsla mundi aukast að meðaltali á árunum 1999–2002 um 2,4%. Rauntalan er 8,2%. Þarna skeikar heilum 5,8%. Þegar þessi grundvöllur undir allan reikninginn er nýttur er það ekkert skrýtið þó að mismunur verði ansi mikill.

Ef við skoðum síðan samneysluna sjáum við að meðaltalið 1999–2002 í forsendunum var 2,8%. Raunveruleikinn er hins vegar 11,7%. Þarna er mismunurinn upp á 5,4%, einnig gífurlega mikill.

Ef síðan er tekið einstakt ár, árið 2003, sjáum við að áætlað var í forsendunum að verg landsframleiðsla mundi aukast um 1,5%. Raunveruleikinn varð 3,6% eins og fram kemur í tölum Hagstofunnar og birt er hér. En miðað við nýjustu tölur virðist þetta nú vera enn hærri tala, ef ég man rétt upp á 4,3%, þannig að enn er munurinn gífurlega mikill eða töluvert á þriðja prósentið. Sama er að segja um samneysluna. Í forsendunum var gert ráð fyrir að hún mundi aukast um 1%. Raunveruleikinn var 7,1%. Munurinn þarna er því rúmlega 6%.

Þess vegna er ekki skrýtið að Ríkisendurskoðun bendi á í skýrslu sinni það sem ég vil vitna orðrétt í, með leyfi forseta:

„Ljóst er að verulegrar ónákvæmni hefur gætt undanfarin ár í þeim spám og forsendum sem fjárlög hafa byggst á.“

Herra forseti. Auðvitað er þetta hluti af skýringunni. Þetta er ekki niðurstaða stjórnarandstöðunnar eða Samfylkingarinnar sem hæstv. ráðherra virðist líka svo illa við að bent sé á. Þetta er orðrétt úr skýrslu Ríkisendurskoðunar. Það er fleira, herra forseti, sem fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar. En það er rétt að halda því til haga að hæstv. ráðherra var ekkert mjög ánægður í sumar með skýrsluna og gerði við hana ýmsar athugasemdir. En ég er ekki að vitna held ég í þau atriði sem hæstv. ráðherra gerði athugasemdir við heldur þau sem tengjast þeim málflutningi sem við höfum haft uppi og ég er enn að ítreka. Það kemur m.a. fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að í árslok 2003 hafi um 120 fjárlagaliðir af 530 verið með verulegan uppsafnaðan fjárlagahalla og í fjárlagafrumvarpinu nú er ekkert tekið á þeim vanda. Þegar verið er að tala um verulegan uppsafnaðan fjárlagahalla þá er það yfir 4% sem miðað er við í reglugerð fjármálaráðuneytisins um það að skoða þurfi sérstaklega slíkar stofnanir. En því miður virðist vera minna gert í því en ástæða er til.

Herra forseti. Fyrst ég er á annað borð byrjaður að vitna í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í sumar er rétt að halda því áfram. Hér segir m.a. á bls. 7 orðrétt í skýrslu Ríkisendurskoðunar:

„Í 41. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að „ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum“. Það getur vart talist ásættanlegt að margar stofnanir og ráðuneyti hafa farið langt fram úr fjárheimildum á undanförnum árum.“

Það er í raun og veru farið á skjön við stjórnarskrána þegar slíkt gerist. Nú gætum við sagt: „Þetta er alltaf að gerast,“ og það er margt til í því. Þetta er því miður alltaf að gerast og hefur gerst á Íslandi allt of lengi. Það er kominn tími til að því linni.

Það kemur orðrétt fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar, svo hæstv. fjármálaráðherra sé ekki að bera Samfylkinguna fyrir þeim upplýsingum að: „Í nágrannalöndum eru fjárlög virt og það heyrir til undantekninga að stofnanir fari fram úr heimildum.“

Hvernig stendur á því að þetta er allt öðruvísi á Íslandi? Er allt í himnalagi á Íslandi? Er stjórn íslenskra ríkisfjármála með þeim hætti að það er allt í himnalagi þrátt fyrir að þetta gerist eingöngu hjá okkur. Ekki bara einu sinni og ekki bara tvisvar heldur ár eftir ár. Ég hef tekið þátt í fjárlagaumræðum í fimm ár. Öll þau ár hefur þessi sama mynd verið uppi og því virðist ekkert vera að linna. Það virðist ekkert draga úr þessu ástandi. Hvernig stendur á því? Jú, ástæðan er auðvitað sú að fjárlagagerðin er ekki nægilega vönduð og það er ekki nægjanlegt eftirlit með framkvæmd fjárlaganna.

Ýmsar stofnanir, eins og ég sagði áðan, eru með uppsafnaðan vanda og það er ekkert tekið á honum. Það er engin krafa um það frá ríkisvaldinu að þær stofnanir dragi úr þjónustu sinni sem væri eðlilegt ef ríkisvaldið vildi að þær væru reknar fyrir þá peninga sem þeim er ætlað. Það er ekki gert, heldur er haldið áfram ár eftir ár eftir ár. Á sama tíma eru ýmsar aðrar stofnanir, eins og ég sagði áðan, að safna inneign og ekkert gert í því heldur. Það er því nauðsynlegt að fjárheimildir og fjárlög hvers árs miði við raunveruleikann. Þannig á það auðvitað að vera gagnvart hverri einstakri stofnun og hver stofnun á að fá fjárheimild sem dugar fyrir þeirri þjónustu sem ætlast er til að stofnunin framkvæmi. Meðan svo er ekki heldur þetta áfram. Ég held því að hæstv. fjmrh. ætti að sleppa því að fara á námskeið hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni. Ég held að það væri nær að hæstv. fjmrh. liti til kollega sinna í nágrannalöndunum og kannaði hvað við gætum betur gert. Ég trúi því að það sé sameiginlegt áhugamál okkar að ná utan um vandann, vegna þess að fjárlögin skipta máli og þau geta haft veruleg áhrif á efnahagslífið.

Herra forseti. Ég ætla að láta þetta duga í bili varðandi tilvitnanir í þá skýrslu Ríkisendurskoðunar sem út kom í sumar, en geri ráð fyrir að í seinni ræðum mínum muni ég hugsanlega líta örlítið meira í það ágæta rit.

Herra forseti. Það er athyglisvert sem fram kemur um skattaloforð ríkisstjórnarinnar. Við munum öll að eitt meginmál stjórnarflokkanna í síðustu alþingiskosningum var loforð um lækkun skatta. „Lækkum skatta á heimilin,“ var yfirskrift á stóru og miklu áróðursplakati sem dreift var og víða sýnt fyrir kosningar. Það er augljóst mál að nú virðist vera, eins og segir í einhverjum texta frá fjármálaráðuneytinu, komið að heimilunum. En það sem er svo sérkennilegt í þessu öllu saman er að farið er í verulegt manngreinarálit um það hvaða heimili eigi að njóta. Það er augljóst mál að þar eru áherslur ríkisstjórnarinnar algerlega á skjön við það sem við í Samfylkingunni viljum. Við teljum eðlilegt að þegar skapast hefur svigrúm, sem við erum út af fyrir sig sammála hæstv. fjmrh. um að er til staðar vegna þess mikla hagvaxtar sem augljóslega á sér stað og þar af leiðandi stórauknar tekjur ríkissjóðs, þó það sé ekki nema vegna þess, þá er ákveðið svigrúm. Við teljum hins vegar að það eigi að dreifa þessu öðruvísi. Við höfum áður lifað hagvaxtarskeið í tíð núverandi ríkisstjórnar. Þá var heldur ekki beitt jöfnunaraðgerðum í að dreifa því sem afgangs var. Og aftur á að fara sömu leið. Við höfum þess vegna lagt til, eins og fram hefur komið, að matarskattur verði lækkaður úr 14% í 7% og teljum að með því, og þá séu notaðar svipaðar upphæðir, sé verið að dreifa þeim miklum mun réttlátar til fólksins því við vitum að matarinnkaup þeirra sem lægri hafa launin eru hlutfallslega mun hærri en hjá hinum og þangað eiga þessir peningar að fara. Síðan er auðvitað hægt að halda áfram með útfærslur af þessu tagi miðað við þær upphæðir sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að nota til skattalækkana.

Herra forseti. Þar sem tími minn er senn á þrotum mun ég í seinni ræðu minni fara frekar yfir skattalækkanirnar, en rétt að lokum fjalla um stöðuna í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Það er algerlega með ólíkindum að sú staða skuli ekki vera löngu leiðrétt. Að vísu átti nefnd, sem var gefið hlé meginhluta þessa árs, að fara yfir þessi mál en nú hefur verið ritað undir viljayfirlýsingu um að skoða eigi málin af einhverri alvöru, viljayfirlýsing sem átti að sjálfsögðu að liggja fyrir strax í upphafi nefndarvinnunnar. Því miður hafa sveitarfélögin verið rekin með miklum halla undanfarin ár, halla sem ekki virðist draga úr og þess vegna eru þau í algerri spennitreyju. Þetta er augljóslega eitt af brýnustu úrlausnarefnum sem nú liggja fyrir, að bæta fjárhag sveitarfélaga eða réttara sagt að rétta af kúrsinn, þ.e. að tekjur sveitarfélaganna taki eitthvert mið af hinum stórauknu tekjum ríkissjóðs á undanförnum árum.