131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:41]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er augljóst mál að hv. þm. Sjálfstæðisflokksins hafa verulegar áhyggjur af þessum samanburðarfræðum. Vissulega getur í öllum samanburði ýmislegt ekki verið alveg 100% samanburðarhæft. Menn beita samt sem áður oft samanburði til að reyna að glöggva sig á myndum og við höfum dregið fram það sama og gert var í skýrslu Ríkisendurskoðunar í sumar, að það er ekki nægjanlega vel að verki staðið. Tökum t.d. eitt dæmi sem hv. þm. tók um afskriftir skatta. Hvernig stendur á því að það er alltaf sama talan meira og minna ár eftir ár? Er þá ekki hægt að áætla fyrir henni? Eða er hægt að breyta viðmiðunarreglum til að ná betur utan um þetta? Ég held að hv. þm. ætti að anda rólega og að við ættum frekar að reyna að standa saman að því að bæta þetta ferli allt saman. Það er ekki nógu gott að munurinn sé svona mikill. Það er alveg sama hvaða samanburð við tökum.

Ég tók líka í ræðu minni samanburðinn við forsendur fjárlaga. Það er auðvitað ekki nógu gott að það skuli muna svona gífurlega miklu. Það er heldur ekki nógu gott að ríkisstofnanir skuli sitja uppi með halla ár eftir ár eftir ár, það er því eitthvað að. Ég held að það sé meginatriðið og það var markmið okkar að reyna að draga fram skýra mynd um að þetta þurfi að bæta. Við erum að sigla inn í mikið þensluástand í efnahagslífinu. Þess vegna er mjög mikilvægt að við náum almennilega utan um fjárlagaferlið. Við erum fyrst og fremst að benda á það. Ég trúi því ekki, herra forseti, að það sé ekki sameiginlegt markmið okkar allra að reyna að bæta fjárlögin þannig að þau nálgist raunveruleikann eins mikið og kostur er. En miðað við hvernig sumir hv. þm. tala virðist það því miður vera óskastaða þeirra að fjarlægjast raunveruleikann meir og meir þannig að þeir geti skemmt sér sem allra mest við framlagningu fjárlagafrumvarps en gleyma svo öllu þegar ríkisreikningur kemur.