131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:44]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Markmiðið er nákvæmlega það, að draga upp skýra mynd svo almenningur geti áttað sig á því hvað hér er á ferðinni. Það verður að sjálfsögðu ekki gert með því að flækja hlutina of mikið og segja: Ef þetta er tekið með en ekki þetta o.s.frv. heldur reynum við að fá sambærilegar tölur eins og kostur er. Ég er sannfærður um að þó svo að við tökum eitthvað út, eins og ég var að gera áðan þegar ég bætti fjáraukalögunum við, þá er munurinn samt sem áður allt of mikill og um það hljótum við að vera sammála. Slíkt gengur ekki.

En vegna þess að hv. þm. fór að tala áðan um bleyjuhagfræði og tengja hana við útkomuna í ríkisreikningi og samanburðinn þá hefur hv. þm. eitthvað misskilið málið því bleyjudæmið okkar ágæta var eingöngu til að fólk sem er með ung börn áttaði sig á því hvað ríkisstjórnin er að gera í skattalækkunarmálum sínum, þ.e. að skilaboð ríkisstjórnarinnar með skattalækkun sinni eru að grunnskólakennarinn fái um það bil bleyjupakkavirði í skattalækkun á mánuði á meðan hátekjumaðurinn geti farið í sólarlandaferðina sína í hverjum mánuði. Þetta eru skilaboðin sem ríkisstjórnin er að senda út til almennings í landinu, að svona eigi að jafna kjörin. Svigrúmið sem er til staðar til skattalækkunar skal nýtt á þennan hátt.

Herra forseti. Ég er algerlega ósammála þessu og það er kannski málið. Munurinn á jafnaðarmannaflokki og hægri flokki eins og Sjálfstæðisflokknum kemur kannski gleggst fram í þessu. Við viljum nota skattkerfið til þess að jafna kjörin í landinu en hægri flokkurinn hefur allt aðrar áherslur í skattamálum. Hann vill bæta hag þeirra sem hafa betri hag fyrir enn meir. Þetta er skýrt, þetta er einfalt. Við erum að sjálfsögðu ósammála um þetta og út af fyrir sig er ekkert annað við því að gera en að skipta um ríkisstjórn.