131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:47]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Fjárlagafrumvarp sem ríkisstjórn leggur fram sýnir í hnotskurn hver stefna ríkisstjórnar er á hverjum tíma. Í því frumvarpi sem hér er lagt fram er í sjálfu sér ekki nein meginbreyting frá því sem verið hefur undanfarin ár hjá núverandi hæstv. ríkisstjórn enda um sama fjármálaráðherrann og sömu ríkisstjórn að ræða.

Í frumvarpinu kemur þó fram t.d. hvernig tekna skal aflað og hvernig tekjujöfnun ríkissjóðs er skipt niður á þegnana og atvinnulífið. Þá koma einnig fram tillögur og áherslur ríkisstjórnarinnar við ráðstöfun teknanna til einstakra málaflokka og verkefna. Í umræðunni um fjárlögin og meðferð þeirra birtist með skýrum hætti munurinn á stefnu stjórnmálaflokkanna í þjóðfélagsmálum.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill að íslenskt samfélag einkennist af jöfnuði, frelsi fjölbreytni og ríkri samkennd. Framtíðarsýn okkar er að allir fái að njóta sín á eigin forsendum í samfélagi þar sem samhjálp, virðing og velferð ríkir. Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill hverfa frá núverandi áherslu á auðhyggjusamfélag þar sem efnahagslegur mælikvarði er lagður á allt og alla og sú stefna sem stjórnvöld hafa haft leiðir þjóðfélag okkar inn á hættulega braut einhæfni í atvinnulífinu. Þar hefur áhersla núverandi ríkisstjórnar hins vegar verið á risavaxnar töfralausnir sem passa engan veginn í okkar fámenna og dreifbýla landi. Síðan hefur ríkisstjórnin orðið að vera á handahlaupum til þess að bjarga sér, forða sér undan svokölluðum ruðningsáhrifum slíkra stórframkvæmda svo ekki sér fyrir endann á.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafnar fákeppni og alþjóðavæðingu á forsendum hinna ríku og við höfnum því að náttúrunni sé fórnað fyrir skyndigróða. Náttúra, velferð og menning eiga að fá jafnt vægi og efnahagsleg rök. Lausnir á vandamálum jarðarinnar verða aðeins fundnar með því að jafnt tillit sé tekið til félagslegra, efnahagslegra og lífrænna menningarlegra þátta. Í slíku samfélagi blómgast sveit og borg á eigin forsendum og þar er mannlíf atvinnulíf og náttúra. Lögmálið um framboð og eftirspurn skýrir ekki eitt sér óendanlegan fjölbreytileika tilveru okkar.

Herra forseti. Þetta er sá grunnur sem við höfum til að leggja mat okkar á tillögur ríkisstjórnarinnar sem við nú ræðum. Sem betur fer hefur Íslendingum vegnað að ýmsu leyti vel í efnahagslegu tilliti á undanförnum missirum og uppgangur verið talsverður. Áhyggjuefni er hins vegar að íslensk fyrirtæki og fjármagnseigendur fjárfesta nú nánast ekkert í innlendu atvinnulífi heldur er fjármagnið sogað út úr atvinnulífinu og flutt burt úr landi. Skemmst er að minnast þeirra aðgerða og uppskipta sem urðu í sjávarútvegsfyrirtækjum á sl. vetri þar sem á nokkrum mánuðum voru sogaðir út úr íslenskum sjávarútvegi tugir milljarða króna þannig að sjávarútvegurinn stóð eftir með verulega skerta samkeppnishæfni.

Slík þróun er á fleiri sviðum og er sannkallað áhyggjuefni. Þó að margt sé gott í útrás íslenskra fyrirtækja er ástæða til að hafa áhyggjur af þeirri einhliða þróun sem hér á sér stað. Það er sjálfsagt að gæta hagsýni í rekstri og ná hæfilegum arði af fjárfestingum en þegar arðsemin ein ræður ferð er vá fyrir dyrum. Innlent atvinnulíf hrópar á fjárfestingar, hrópar á það að komið sé með fjármagn til að styðja við nýjungar, styðja við nýsköpun og styðja líka það atvinnulíf og atvinnugreinar sem fyrir hendi eru að sjálfsögðu. En þegar fjármagnseigendurnir og stórfyrirtækin hugsa um það eitt hvernig þeir geti hagrætt og farið með fjármagn sitt úr landi til þess að fjárfesta þar sem launin eru lág hlýtur það jafnframt að vera til skerðingar því sem heima er.

Samfélagsleg ábyrgð þessara stórfyrirtækja og fjármagnseigenda er því hverfandi, ef hún er, og sú þróun sem átt hefur sér stað í þeim efnum er íslensku samfélagi hættuleg. Þá er jafnframt áhyggjuefni í þeirri þróun að bilið á milli ríkra og fátækra í þeirri uppsveiflu sem nú kallast hefur stöðugt verið að aukast. Stefna ríkisstjórnarinnar og aðgerðir hennar hafa valdið þessari síaukinni misskiptingu í íslensku samfélagi. Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2005 sem nú liggur fyrir boðar síst breytingar á slíkri misskiptingu heldur felst í því frekar aukin misskipting. Þannig eiga þeir að fá mest sem hafa nú þegar mest fyrir og þeir að fá minnst sem nú þegar hafa líka minnst. Vinstri hreyfingin – grænt framboð getur ekki samþykkt slíka aðferðafræði eða pólitík og mun berjast fyrir sanngjarnari skiptingu náttúru-, félags- og fjármagnslegra gæða.

Frumvarp til fjárlaga liggur nú fyrir. Samkvæmt því eru heildartekjur ríkissjóðs áætlaðar um 305,8 milljarða kr. og gjöldin upp á tæpar 294,6 milljarða kr. Samkvæmt því er gert ráð fyrir 11,2 milljarða kr. tekjuafgangi í frumvarpinu. Reynsla undanfarinna ára hefur hins vegar því miður sýnt okkur að mikill munur er á því hvað ríkisstjórnin hefur lagt upp með í fjárlagafrumvarpi og síðan hver niðurstaðan hefur orðið samkvæmt ríkisreikningi. Þannig má nefna að í fjárlögum fyrir árið 2003 var gert ráð fyrir að heildarútgjöld ríkissjóðs yrðu um 260 milljarðar kr., reyndin varð hins vegar um 280 milljarðar kr.

Ef við gefum okkur að gjöldin muni hækka með sama hlutfalli á fjárlögum 2005 má gera ráð fyrir að heildarútgjöld verði 317 milljarðar kr. Þetta er að vísu talnaleikur sem ég ætla ekki að fara lengra út í hér en bendi þó á hve alvarlegt það er hversu fjárlagavinnan er illa undirbúin.

Alþingi er í þeirri stöðu að hafa nú misst Þjóðhagsstofnun sem alþingismenn og Alþingi gat leitað til til að fá hlutlausar upplýsingar og sannreyna tölur og áætlanir fjármálaráðuneytisins. Þjóðhagsstofnun var slátrað og verkefnin að því er kallað var voru færð inn í fjármálaráðuneytið, á efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins að hluta. En efnahagsskrifstofan er að sjálfsögðu bara hluti af framkvæmdarvaldinu og þess vegna þá líka hluti af þeirri áætlanagerð og erfitt fyrir þingmenn að eiga að sækja þar hlutlaus ráð og umfjöllun á því sem verið er að vinna með. Ég hef áður gagnrýnt einmitt þetta, þá stöðu sem þingið er í gagnvart efnahagsvinnunni og fjármálavinnunni sem er þó ein af frumskyldum þingsins að takast á við og þingið í raun á að bera ábyrgð á.

Það er því ekki hægt annað en að deila hér nokkuð á fjárlagagerðina og fjárlagavinnuna sem hefur einmitt birst okkur með þeim hætti að ríkisstjórnin samþykkir einhver rammafjárlög og síðan er rammanum deilt út á ráðuneytin. Þetta er pólitísk ákvörðun, er sagt, en síðan er ráðuneytanna að vinna úr. Ráðuneytin deila því svo út á stofnanir eftir því sem þeim sýnist og telja vafalaust réttast.

Síðan reynist kannski raunveruleikinn allur annar. Þegar við í fyrsta lagi fáum vinnuna hér inn í þingið skortir verulega á að nauðsynlegir útgjaldaliðir hjá einstökum stofnunum og samtökum séu þar færðir á raunvirði. Fjárlög sem eru afgreidd með þeim hætti að taka ekki raunhæft á málum og vera þar með óskhyggju á ferðinni eru ekki sönn fjárlög. Reyndin verður sú að á árinu sem kemur á eftir fjárlagagerðinni verður að hlaupa upp til handa og fóta til að bjarga í horn og við síðan samþykkjum á fjáraukalögum eða stofnanir eru sveltar og látnar fara með halla yfir áramót. Þessi stefna við fjárlagagerðina er afar óskynsamleg og leiðir í raun ekki til annars en þess að við erum stöðugt með ósanna mynd að fást við.

Til viðbótar þessu sendi fjármálaráðuneytið út bréf á sl. ári til ráðuneyta og bað ráðuneyti að dreifa því til stofnana sinna að mælast gegn því að forstöðumenn einstakra stofnana kæmu fyrir fjárlaganefnd og gerðu grein fyrir rekstri og fjárhagsstöðu stofnana sinna miðað við þau verkefni sem þeim væru falin.

Þetta er afar óskynsamlegt og reyndar bein valdníðsla. Það er mjög mikilvægt fyrir þingið og fyrir fjárlaganefnd að fá til sín sem gleggstar upplýsingar um stöðu mála í samfélaginu og á stöðu þeirra verkefna og mála sem einstakar stofnanir á vegum ríkisins fara með, fá þær beint inn til þingsins og þingnefndarinnar sem er að vinna með þær, sé það talið æskilegt annars vegar af hálfu forstöðumannanna og hins vegar af hálfu þingmannanna sjálfra.

Ég skora því á hæstv. fjármálaráðherra að breyta nú um vinnutaktík og segja að af hans hálfu og ráðuneytisins væri stofnunum alveg frjálst og frítt og eðlilegt að þær beri mál sín fyrir þær þingnefndir og þá þingmenn sem þær telja á hverjum tíma rétt og nauðsynlegt. Það er hluti af hinni lýðræðislegu og eðlilegu umræðu sem við þurfum að hafa í fjárlagagerðinni.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði leggjum áherslu á að skattkerfinu sé beitt til að afla hinu opinbera nægilegra tekna til að standa undir brýnum samfélagslegum verkefnum og öflugu velferðarkerfi. Jafnframt þarf skattkerfið að fela í sér tekjujöfnun þannig að byrðum samfélagsins sé dreift á sanngjarnan hátt. Við erum því ekki sammála þeirri stefnu sem nú er lagt upp með í skattamálum. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að lækka tekjuskattinn. Lækkunin kemur fyrst og fremst hátekjufólki til góða, prósentuleg breyting gefur því hærri tölur sem tekjurnar eru hærri sem henni er beitt á, þannig að þeir sem eru með hæstar tekjurnar fá mestu ívilnunina.

Við hefðum viljað sjá þær breytingar í skattamálum að menn hefðu horft til þess að breyta fjármagnstekjuskattinum en hann er nú einungis 10%. Við hefðum lagt til og leggjum til í frumvarpi sem kemur fram á þinginu nú í upphafi hausts að tekinn verði upp fjármagnstekjuskattur. Hann getur verið innan við 20%, getur farið þess vegna hækkandi í þrepum, en þar sé samt líka ákveðin upphæð í fjármagnstekjum sem sé skattfrjáls þannig að eðlilegur sparnaður fólks sé ekki skattlagður, eins og reyndar nú er gert. En með þessu væri verið að stilla fjármagnstekjum annars vegar og launatekjum hins vegar á nokkurn jafnræðisgrunn hvað skattheimtu varðar. Í samfélaginu á ekki að vera munur á skyldum gagnvart samneyslunni hvort teknanna sé aflað af tekjum af fjármagni eða launum. Hvers vegna eigum við alltaf stöðugt að láta launamanninn og lífeyrisþegann bera byrðarnar?

Herra forseti. Þetta eru þær áherslur og þau stefnumið sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur að leiðarljósi í öflun tekna. Skattastefna núverandi ríkisstjórnar er skýr. Þeir sem hafa mest fá mest. Þannig er t.d. gert ráð fyrir að tekjuskattur einstaklinga lækki um 1% á þessu ári. Ef dæmi er tekið af einstaklingi með 2 millj. kr. í árstekjur mun skattalækkunin gefa þeim einstaklingi 20 þús. kr. á ársgrundvelli. Skattalækkun gefur hins vegar einstaklingi með 6 millj. kr. í árstekjur 60 þús. kr. eða þrefalt meiri ráðstöfunartekjur. Er það ætlunin? Er það þörfin, að létta skattbyrðinni af hinum tekjuhærri á kostnað hinna tekjulægri? Ef svigrúm hefði verið til skattalækkana hvers vegna var þá ekki skattleysismörkunum lyft, sem einhverjir mundu vilja sjá, eða á annan hátt komið til móts við þá tekjulægstu?

Þá er hátekjuskatturinn lækkaður. Hann var lækkaður í fyrra og enn er hann lækkaður, nú úr 4% í 2%. Hefði ekki verið hægt að fresta þessari lækkun á hátekjuskattinum sem gefur nokkur hundruð millj. kr. lækkun til þess að standa við samninginn við öryrkjana t.d. ef við berum saman það sem hér er verið að takast á um, annars vegar að standa ekki við gerðan samning við öryrkja um framlag fjármagns og hins vegar að skerða hátekjuskattinn? Hefði ekki verið hægt að fresta honum og standa þarna við gerðan samning?

Herra forseti. Önnur stefna ríkisstjórnarinnar birtist og það er að leggja á skólagjöld, skólagjöld í ríkisháskólunum. Hækkun innritunargjaldanna í Háskóla Íslands um 40% er ekkert annað en skólagjöld. Vísir að því sem koma skal. Þau voru hækkuð fyrir tveimur árum og nú kemur næsta hækkun. Mig minnir, og hæstv. forseti getur þá leiðrétt mig, að átök hafi verið um það á sínum tíma í þingflokki framsóknarmanna, sem að mestu er óbreyttur þeim flokki sem nú er hér, hvort ætti að setja á skólagjöld þá. Er það ekki rétt hjá mér, hæstv. fjármálaráðherra, að viss átök voru í þingflokki framsóknarmanna þá? Er Framsóknarflokkurinn núna samþykkur að stórhækka skólagjöldin í háskólanum? Hvar kom sú stefnubreyting fram? Kom hún fram fyrir síðustu kosningar? Ekki man ég eftir því. Það væri fróðlegt að heyra hvaðan þessi stefnubreyting Framsóknarflokksins kom um að það væri núna stefna Framsóknarflokksins að stórhækka skólagjöld í Háskóla Íslands, sem var deilumál í Framsóknarflokknum gamla fyrir um þremur árum. Og þó að það sé ekki mikið þá sýnir það innrætið að komugjöld á heilsugæslustöðvar skulu hækka. Það er kannski ekki svo há upphæð, 26–28 millj. kr. er gert ráð fyrir á fjárlögum. Það er sennilega til að mæta ruðningsáhrifunum vegna stóriðjunnar sem hæstv. fjármálaráðherra talaði svo mjög um. En þetta sýnir innrætið hjá núverandi ríkisstjórn, að hækka komugjöld á heilsugæslustöðvar um 26–28 millj. kr. Það sést hvar á að bera niður til að jafna út tekjuskattslækkunina á hátekjufólkinu.

Herra forseti. Ég hef áhyggjur af efnahagsstjórninni. Ég hef áhyggjur af þeim mikla viðskiptahalla sem við stöndum frammi fyrir. Talað er um 60–70 milljarða viðskiptahalla á þessu ári, hann geti farið upp í 80–100 milljarða á næsta ári eða jafnvel meiri. Einungis tæpur helmingur af þessum viðskiptahalla er talinn stafa af hinni margumræddu stóriðju. Hverju stafar hinn af? Hann stafar af innflutningi á neysluvörum fyrst og fremst. Og þessi viðskiptahalli er ekki góðkynja eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur látið hafa eftir sér. Í þessu andrúmslofti á síðan að fara að beita skattalækkunum. Ég veit ekki hvar hæstv. fjármálaráðherra hefur fengið slík ráð en þau eru að flestra mati sem fjalla um efnahagsmál talin hið mesta óráð við þær aðstæður sem nú eru.

Einmitt núna þurfum við að takast á við það að halda uppi velferðarsamfélaginu, halda uppi öflugu velferðarsamfélagi til að þess að þeir sem m.a. hafa lægstar tekjur verði ekki enn frekar undir í samkeppninni í samfélagi okkar. Hvert er síðan tekjuaukinn sóttur? Jú, hann er sóttur núna fyrst og fremst í stórhækkun á virðisaukaskatti og vörugjöldum. Skattlagning á þessum viðskiptahalla. Það er svo sem gott að fá tekjurnar en það er samt áhyggjuefni hvað stendur á bak við þær því að viðskiptahalli getur ekki verið tekjustofn til framtíðar, hann getur ekki verið það. Ef ríkissjóður ætlar að fara að stíla upp á framtíðarrekstur sinn á að skattleggja viðskiptahallann er hann á býsna hættulegri braut, eins og hæstv. fjármálaráðherra er nú.

Frú forseti. Fjárlagafrumvarpið fer nú til fjárlaganefndar þar sem ég á sæti og þar verður farið vandlega yfir alla þessa þætti, einstaka þætti í gjöldum og tekjum. Ég vona að við fáum á fund nefndarinnar þá einstaklinga, fulltrúa fyrirtækja, stofnana og samtaka sem óska eftir að koma sjónarmiðum sínum beint á framfæri við fjárlaganefnd. Ég vona að þeir fái greiða leið til þess.