131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:07]

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hefur nú mælt fyrir fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2005. Umfjöllun um frumvarp til fjárlaga setur jafnan mikinn svip á störf Alþingis á hverju haustþingi, enda felur það í sér pólitíska stefnumótun ríkisstjórnarinnar í einstökum málaflokkum. Samþykkt fjárlaga er grundvallarlagasetning um rekstur og starfsemi ríkisins á hverju ári og hafa fjárlögin því mikil áhrif á þjóðlífið og snerta hagsmuni hvers einasta Íslendings á einhvern hátt.

Samkvæmt starfsáætlun Alþingis er gert ráð fyrir að lokaumræða um fjárlagafrumvarpið fari fram þann 3. desember nk. Það er mikilvægt að Alþingi takist að ljúka afgreiðslu fjárlaga sem fyrst fyrir upphaf þess fjárlagaárs sem frumvarpið tekur yfir. Það skiptir máli fyrir alla aðila að vita tímanlega um niðurstöður fjárlaga svo þær forsendur sem þær fela í sér séu ljósar með góðum fyrirvara þannig að sem best svigrúm sé fyrir stofnanir og aðra til að ganga frá rekstraráætlunum og starfsáætlunum fyrir komandi ár. Til þess að starfsáætlun Alþingis gangi eftir er ljóst að fjárlaganefnd og allir aðilar sem koma að umfjöllun um frumvarpið þurfa að vinna markvisst og vel á þeim tíma sem fram undan er á þessu haustþingi.

Virðulegur forseti. Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2005 ber með sér að ríkissjóður stendur vel. Það kemur einnig fram í upplýsingum í fylgigögnum frumvarpsins og er ljóst að í megindráttum hefur tekist að halda uppi efnahagslegum stöðugleika á undanförnum árum og allt útlit er fyrir að svo verði einnig á allra næstu árum. Hagvöxtur hefur verið nánast viðvarandi. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur aukist mikið og allt útlit fyrir að sú þróun haldi áfram. Allt er þetta í samræmi við þau meginmarkmið sem stjórnarflokkarnir hafa unnið að frá því þeir hófu ríkisstjórnarsamstarf árið 1995. Þessir þættir skipta hvað mestu máli fyrir þjóðfélagið í heild.

Vakið hefur athygli á alþjóðlegum vettvangi hve vel hefur tekist til hjá ekki stærri þjóð en okkar. Það að okkur skuli takast að reka tæplega 300 þúsund manna þjóðfélag með allri þeirri þjónustu sem við rekum og með þeim góða árangri sem verið hefur í efnahags- og atvinnumálum, er mörgum undrunarefni í hinu alþjóðlega samfélagi.

Eins og kunnugt er teljast lífsgæði á Íslandi með því allra besta sem þekkist í heiminum. Okkur tekst að halda uppi einhverri bestu heilbrigðisþjónustu sem þekkist. Sama má segja um velferðarmálin almennt. Menntunarstigið er alltaf að aukast með sífellt öflugra menntakerfi. Það er ljóst að við getum öll verið stolt af þessari stöðu. Hins vegar má alltaf gera betur á einstökum sviðum. Seint verður sagt að hinum fullkomna árangri sé náð. Metnaður okkar allra í þessum efnum er mikill og svo hefur verið í langan tíma. Við sættum okkur einfaldlega ekki við annað en það besta sem völ er á.

Grundvöllur þess að þessi árangur hefur náðst er hve vel hefur tekist til með að halda uppi atvinnuuppbyggingu í landinu. Það er gömul saga og ný að öflugt og arðsamt atvinnulíf er það sem skiptir grundvöll efnahagslegra framfara og varðar hagsmuni ríkissjóðs hvað mest. Það er síðan að sjálfsögðu undir stjórnvöldum hverju sinni komið hvernig spilað er úr.

Í stjórnartíð núverandi stjórnarflokka hefur tekist vel til við fjármálastjórn ríkisins. Haldið hefur verið uppi aga og aðhaldssömum aðgerðum sem hefur skilað árangri, en í því sem öðru er ljóst að alltaf má gera betur. Það er mikilvægt að ná upp sem mestum aga í öllu sem varðar rekstur ríkissjóðs og starfsemi ríkisins.

Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2005 birtast í megindráttum sömu markmið og áður. Stjórnarflokkarnir ætla sér að viðhalda góðum efnahagslegum árangri. Samhliða frumvarpinu hefur verið lögð fram þjóðhagsspá þar sem m.a. er gerð grein fyrir spá og markmiðum varðandi ríkisfjármál næstu árin. Fram kemur að áfram er gert ráð fyrir bættum hag ríkissjóðs og þjóðarbúsins í heild. Það er mikilvægt markmið að vinna að því að allt þetta gangi eftir, enda felast í því hagsmunir alls almennings í landinu.

Nú eru mikil umsvif í hagkerfinu og svo verður allra næstu árin. Það er því mikilvægt að góð festa verði í hagstjórninni. Hagspekingar hafa lagt mikla áherslu á gott aðhald í ríkisfjármálum við þessar aðstæður og að afgangur fjárlaga verði sem mestur til þess að hamla gegn óæskilegum þensluáhrifum og meðfylgjandi óáran í efnahagsmálum. Markmið stjórnarflokkanna eru skýr í þessum efnum og samrýmast þessum sjónarmiðum.

Eins og fram hefur komið gerir fjárlagafrumvarpið ráð fyrir tekjuafgangi sem nemur rúmlega 11 milljörðum kr. sem eru um 1,25% af landsframleiðslu. Er það hærra hlutfall af landsframleiðslu en fjárlögin 2004 gera ráð fyrir. Það er afar mikilvægt að þessi áform nái fram að ganga, enda í takt við yfirlýst markmið um efnahagsstjórnina.

Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir tekjum af sölu hlutabréfa í Landssíma Íslands og er það eðlilegt þar sem ekkert liggur fyrir um hverjar tekjur af sölunni verða og er því um ákveðið varfærnissjónarmið að ræða í þessu efni.

Virðulegur forseti. Um rekstur ríkissjóðs á það sama við og allan annan rekstur, hvort sem um er að ræða heimilin, atvinnufyrirtæki eða annað. Það er mikilvægt til framtíðar að halda skuldunum í lágmarki. Það hefur verið eitt af meginmarkmiðum stjórnarflokkanna að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Náðst hefur góður árangur í þeim efnum og samfara því hafa útgjöld vegna vaxta minnkað verulega undanfarin ár. Sem dæmi má nefna að ef hlutfall vaxtakostnaðar af vergri landsframleiðslu væri svipað nú og var árið 1998, þyrfti að gera ráð fyrir 11 milljarða kr. meiri útgjöldum til þess en raunin er. Það eru fjármunir sem koma sér vel varðandi aðra útgjaldaþætti fjárlaga, svo sem til velferðarmála. Lækkun á skuldabyrði ríkissjóðs er auðvitað hagsmunamál til framtíðar og þar með til hagsbóta fyrir komandi kynslóðir.

Með fjárlagafrumvarpi fylgir nú í annað sinn langtímaáætlun til fjögurra ára sem lýsir stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum næstu árin. Þessi nýbreytni sem tekin var upp fyrir ári síðan skiptir miklu máli og er til þess fallin að styrkja trúverðugleika efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og þar með skapar þetta ákveðinn grunn er varðar efnahagslegan stöðugleika. Í þessari áætlun koma fram markmið um aðgerðir til að ná þeim árangri sem að er stefnt. Eitt meginmarkmið er að ríkisfjármálum verði beitt með öflugum hætti til að halda aftur af innlendri eftirspurn þegar stórframkvæmdirnar standa yfir og til að örva hagvöxtinn þegar þeim lýkur.

Samkvæmt langtímaáætluninni er gert ráð fyrir miklum hagvexti næstu tvö árin. Það er ljóst að eftir þann tíma er útlit fyrir minni hagvöxt og því ljóst að við verðum að búa okkur undir að mæta þeim breytingum sem þá verða.

Virðulegur forseti. Við 1. umr. um fjárlagafrumvarpið 2005 er umræðan eðlilega meira á almennum efnahagslegum nótum en í smáatriðum um einstaka liði frumvarpsins, enda hefur fjárlaganefndin ekki hafið eiginlega umfjöllun um það. Ég mun því láta nánari umfjöllun um einstaka þætti bíða 2. umr. eftir að fjárlaganefnd hefur fjallað efnislega um frumvarpið. Þá mun ég heldur ekki taka þátt í þeirri talnaleikfimi stjórnarandstöðunnar sem verið hefur uppi síðustu daga og þeirri samanburðarfræði sem fram hefur komið á þeim vígvelli.

Ég vil þó segja í framhaldi af umræðu sem hefur verið varðandi fjárlögin og framkvæmd þeirra að ég tel að áætlanagerð fjármálaráðuneytisins, ráðuneytanna og stofnana hafi farið mjög mikið fram á síðustu árum. Það er auðvitað vel og mikilvægt markmið að svo sé, vegna þess að það er auðvitað grunnur að því sem við erum að vinna með.

Ég vil hins vegar við þessa umræðu víkja aðeins að aðstöðu fjárlaganefndar til vinnu við fjárlagafrumvarpið.

Það er ljóst að sem fyrr er mikill þrýstingur á aukin útgjöld umfram það sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Það er gömul saga og ný og út af fyrir sig eðlilegur hlutur. Eins og fyrr mun fjárlaganefnd berast fjölmörg erindi þar sem leitað er eftir fjármunum til hinna ýmsu mála og eru þessi erindi jafnan mjög vel rökstudd. Það er því ljóst að hægðarleikur væri að ráðstafa mun meiri fjármunum en frumvarpið gerir ráð fyrir og til ráðstöfunar eru. Hins vegar legg ég áherslu á að við verðum að hafa það meginsjónarmið ríkjandi að halda vel utan um og vinna að þeim markmiðum um niðurstöðu fjárlaga sem lagt er upp með. Vísa ég þar m.a. til stöðu efnahagsmála almennt og þeirra markmiða sem tengjast þeim.

Hvað varðar fjárlagaferlið, þ.e. þá verkferla sem unnið er eftir í vinnslu fjárlagafrumvarpsins, þá var lagt upp með það fyrir ári síðan að skoðaðir yrðu allir verkferlar og verkefni nefndarinnar með gagnrýnum augum, með það að markmiði að auka skilvirkni og bæta fagleg vinnubrögð. Um það gildir sama og fjölmargt annað að alltaf má bæta góða hluti og í okkar umhverfi á sér stað mikil þróun á mörgum sviðum sem við verðum að fylgjast með og bregðast við. Þessi vinna fór af stað síðasta haust og hefur verið lögð mikil vinna í að greina verkferla. Haft hefur verið samráð við fjölmarga aðila. Það hefur verið leitað upplýsinga frá öðrum þjóðþingum og safnað upplýsingum m.a. frá OECD þar sem mikið hefur verið fjallað um fjárlagaferli ýmissa landa og vinnubrögð í tengslum við það.

Fjárlaganefnd hafði forgöngu um að kalla til fulltrúa ráðuneyta og stofnana til að fara yfir verklag og samskipti við nefndina. Út úr því komu upplýsingar sem nefndin þarf að vinna úr. Ég á von á því að nefndin muni fljótlega fjalla um þessi mál, en hins vegar er ljóst að allar breytingar á verkferlum og vinnubrögðum verða að vera vel ígrundaðar og við verðum að gefa þeim þann tíma sem þarf til þess að allt gangi sem eðlilegast fyrir sig.

Þegar hafa átt sér ákveðnar úrbætur í þessum efnum. T.d. hefur verið gert átak í því að bæta upplýsingastreymi til einstakra ráðuneyta, Ríkisendurskoðunar og innan Alþingis. Þá er ýmis þróunarvinna í gangi eins og að auka upplýsingagjöf og gagnsæi upplýsinga enn frekar.

Ég ítreka það að fjárlaganefnd mun við fyrsta tækifæri fjalla frekar um þessi mál og fara yfir þá vinnu sem þegar hefur verið unnin.

Ég legg áherslu á að verkefni fjárlaganefndar Alþingis er ekki eingöngu að taka við fjárlagafrumvarpinu úr hendi hæstv. fjármálaráðherra, fjalla um það og skila tillögu til Alþingis um afgreiðslu á því. Ekki síður mikilvægt hlutverk nefndarinnar er að fylgjast með framvindu fjárlaga hverju sinni og veita framkvæmdarvaldinu ákveðið aðhald til þess að fjárlögin haldi. Ég lít á eftirlitshlutverk fjárlaganefndar sem mikilvægan þátt hvað varðar það að halda festu í rekstri ríkissjóðs og tryggja sem best að hin mikilvægu markmið efnahagsstjórnarinnar náist hverju sinni. Þar getum við eflaust gert betur. Við eigum að hafa það sem markmið að gera enn betur en við höfum gert.

Virðulegur forseti. Ég vænti þess í lok ræðu minnar hér að við eigum gott samstarf í fjárlaganefndinni nú sem fyrr og einnig gott samstarf við þá fjölmörgu aðila sem munu koma að vinnu nefndarinnar á næstu vikum. Fram undan er annatími í störfum nefndarinnar og það er því mikilvægt að okkur takist að vinna vel og markvisst þannig að starfsáætlanir gangi eftir. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að svo verði, enda hefur reynslan sýnt að jafnan gengur það allt saman mjög vel.