131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:22]

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður Jón Bjarnason velti hér upp tveimur málum og spurði hvort það sé stefnubreyting í Framsóknarflokknum varðandi innritunargjöldin í Háskólann. Því er til að svara að hér er fyrst og fremst um að ræða uppfærslu vegna verðlagsbreytinga. Það hefur engin stefnubreyting orðið í þessu máli. Það sama má segja um komugjöld á heilsugæsluna þar sem er gert ráð fyrir að komugjöldin skili 46,8 milljónum (Gripið fram í.) 46,8. Ég leiðrétti hv. þingmann, ég veit að hann hefur bara misskilið þetta eitthvað.

Þetta er einfaldlega svarið. Þarna er um að ræða uppfærslu vegna verðlagsbreytinga. Ég er þeirrar skoðunar að gjöld eins og þessi t.d. sem eru í föstum krónutölum, eigi að uppfærast á hverju ári. Það er ekki gott að láta slíkt liggja í mörg ár jafnvel og taka síðan eitthvert skref í að leiðrétta það einhver ár aftur í tímann. Það veldur bara óþægindum og er óþarfi að mínu mati. Ég tel að uppfærsla miðað við verðlagsbreytingar eigi að gerast á hverju ári.