131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:34]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hér við 1. umr. fjárlaganna ætla ég að takmarka mig við nokkur efni sem ég vil ræða almennt varðandi stefnumótunina. Ég held að ég vilji þá bara byrja á að tala um það sem almennt í umræðunum er kallað þensla á landi hér, að hana beri að varast og það þurfi að gera sérstakar ráðstafanir til að draga úr þenslunni, m.a. eins og vikið er að í fjárlagafrumvarpinu með tillögu um að draga saman framkvæmdir á landinu á vegum ríkisins um tvo milljarða króna. Í því sambandi er einkum vitnað til þess að draga megi m.a. úr vegaframkvæmdum, hægja þannig á framkvæmdagleðinni í landinu og veita þenslunni aðhald.

Ég verð að segja, virðulegur forseti, að mér finnst framsetningin og umræðan um þessi mál á undanförnum árum að því er snýr að þenslu í landinu nokkuð á þann veg að þenslan sé bara alls staðar eins, það sé geysimikið um að vera í öllum landshlutum. Því miður er það ekki svo. Þess vegna vil ég gera þetta að sérstöku umræðuefni hér við umræðu um fjárlög og stefnumótun ríkisins fyrir næsta ár og þarnæsta að þessu leyti.

Virðulegur forseti. Á landinu fara núna einfaldlega fram mjög miklar framkvæmdir, þ.e. á Austurlandi, á Miðausturlandi sérstaklega, sem munu nýtast því svæði vonandi vel í framtíðinni, efla þar störf og fjölga ásamt því að efla þar mannlíf. Vonandi mun íbúum fjölga þar og atvinnuástand verða gott um nokkurra ára skeið. Þegar álverið á Reyðarfirði verður formlega komið í rekstur verður þar vonandi varanlega einhver verulegur fjöldi framtíðarstarfa, ásamt auðvitað þeim margfeldisáhrifum sem fylgja slíkri atvinnustarfsemi.

Það er allt mjög gott um það að segja að mínu viti. Ég tel að það sé afar nauðsynlegt, og vissulega hafi verið mikil þörf á því að efla atvinnustig á Austfjörðum. Það gengur vonandi allt saman eftir eins og til er stofnað.

Það er líka afar ánægjulegt að á Austfjörðum skuli hafa verið staðið fyrir vegaframkvæmdum eins og göngunum á milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar, að þar skuli menn vera komnir í gegnum fjallið og horfi til þess að því verki ljúki mjög farsællega og eðlilega. Ég vil einnig vekja athygli á því að við Almannaskarð munu menn sennilega klára göngin sem þar er verið að gera og komast í gegnum fjallið á næstu dögum. Ef ég man rétt á að fara þar í gegn 8. október. Það er auðvitað líka fagnaðarefni. Þarna er í báðum tilfellum verið að stytta vegalengdir og í raun og veru að komast á það sem ég hef kallað ,,varanlega láglendisvegi“ um landið. Ég er mjög hlynntur slíkum framkvæmdum og minn flokkur hefur beinlínis sett það fram í stefnumörkun að það væri það sem menn ættu að stefna að á landi hér, að komast undir erfiða fjallvegi og yfir firði og stytta þannig vegalengdir á milli landsvæða og staða og einnig almennt inn á aðalþjónustukjarna landsins á suðvesturhorninu. Til þess ættu menn að horfa alveg óhikað. Hér er um að ræða mjög arðsamar framkvæmdir fyrir framtíðina og varanlegar sem við búum að ekki bara í fá ár, heldur áratugi eða jafnvel aldir. Til þess ættum við að horfa sem varanlegra fjárfestinga sem munu skila okkur miklum arði í framtíðinni.

Það hversu vel hefur gengið við þessar framkvæmdir á Austurlandi sýnir okkur enn á ný að þau orð sem ég sagði áðan um arðsemina og varanlegar samgöngubætur eiga við rök að styðjast. Þess vegna vil ég endilega að við tökum þá stefnu að skoða hvernig áframhald eigi að vera á því. Það var nefnilega þannig, virðulegur forseti, að fyrir nokkuð mörgum árum, 1996, voru tekin í gagnið göng á Vestfjörðum sem fóru undir Breiðadals- og Botnsheiðar. Þau tengdu saman byggðirnar á Vestfjörðum. Síðan gerðist nánast ekkert í jarðgangagerð í fleiri ár, því miður, að því er þetta varðar. Þó skulum við ekki gleyma Hvalfjarðargöngunum sem voru unnin í einkaframkvæmd og hafa vissulega bætt mjög mikið almennt í samgöngum á landi hér. Þær áætlanir sem stjórnvöld hins vegar höfðu uppi stöðvuðust nánast þar til hafist var handa við jarðgöng á Austfjörðum.

Ég ætla rétt að vona, virðulegur forseti, að núna standi ekki til að láta annað slíkt tímabil koma á eftir þessum varanlegu framkvæmdum sem verið er að gera á Austfjörðum og að það dragist í missiri eða ár að hefjast handa við frekari jarðgangagerð.

Þess vegna segi ég það, virðulegur forseti, að þenslan sem verið er að tala um að sé e.t.v. eða muni myndast vegna framkvæmdanna á Austurlandi er jú þar og landsvæðið mun vonandi njóta góðs af því. Vafalaust mun suðvesturhornið sem einn aðalþjónustukjarni landsins njóta líka góðs af því, sem og fjármálastarfsemin sem á undirstöðu sína á suðvesturhorninu. Samt er það svo, virðulegur forseti, að jafnvel á suðvesturhorninu nær þessi þensla t.d. ekki í allar byggðirnar á Reykjanesi. Það þarf ekki að fara langt frá kjarnanum í kringum Reykjavík til að finna staði sem hin almenna þensla nær ekki til.

Ég vek athygli á þessu hér við 1. umr. fjárlaga vegna þess að ég tel afar mikilvægt að stjórnvöld átti sig á því að þenslan sem talað er um í stefnumótun ríkisstjórnarinnar er ekki til staðar á stórum svæðum landsins. Ég fullyrði það, virðulegur forseti, að það er engin þensla í Norðvesturkjördæminu. Hún er bara engin. Þar eru að vísu að fara af stað framkvæmdir í syðsta hluta kjördæmisins, í Norðuráli í Hvalfirði, sem munu hafa einhver áhrif á svæðin syðst í Norðvesturkjördæminu. Þar með er það upp talið.

Þess vegna vara ég sérstaklega við því að farið verði í að draga saman framkvæmdir og það látið bitna á landshlutum þar sem engin þensla á sér stað, landshlutum sem þurfa á uppbyggingu að halda. Ég tala nú ekki um eins og vegakerfið er t.d. á Vestfjörðum. Þar hefur vissulega margt gerst á undanförnum árum en því miður erum við bara langt á eftir. Það er svo margt sem þarf að gera til að koma okkur í eðlilegt akvegasamband innan fjórðungs og út úr fjórðungnum. Hið sama á að mínu viti t.d. við um norðausturhorn landsins. Þar er auðvitað mikil þörf á að lagfæra vegi. Ég vara við því alveg sérstaklega og tjái afstöðu mína þannig að ég mun leggjast gegn því, alveg eindregið, að það verði niðurskurður framkvæmda að því er varðar þjóðvegakerfið í Norðvesturkjördæminu. Ég hafna því alfarið. Ef fjármálaráðherra hyggst framkvæma stefnuna þannig varðandi aðhaldið að hún bitni jafnt í vegaframkvæmdum á öllum landsvæðum vil ég fá skýringar hans á því hvaða rök hann hefur fyrir því að leggja málið upp með þeim hætti.

Virðulegur forseti. Mörg sveitarfélög á landinu, einkum kannski hin minni, þó ekkert endilega þau alfámennustu, eiga við talsverða fjárhagsörðugleika að stríða. Við heimsókn forustumanna sveitarfélaganna á fund fjárlaganefndar fyrir nokkrum dögum hygg ég að þeir hafi í langflestum tilfellum tjáð það að sveitarfélögin ættu í talsverðum erfiðleikum og sum hver í miklum erfiðleikum. Þess eru auðvitað dæmi að sveitarfélög hafi helming tekna sinna úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Það er algjörlega ljóst, virðulegi forseti, kannski sérstaklega að því er varðar minni og meðalstórar byggðir hér á landi, sveitarfélög og sjávarútvegsþorp að þar eru menn í miklum vandræðum. Víða hefur verið samdráttur í þessum byggðum í atvinnulegu tilliti, tekjur hafa minnkað, menn hafa kennt ýmsu um en talið að ef til vill væri nú bjartara fram undan. Mér finnst hins vegar rétt að vekja athygli á því að það var vitað hvaða áhrif margt af því sem við höfum verið að gera í sjávarútvegsmálum mundi hafa.

Ég minni á skýrslu sem var gefin út í október 2001 af Byggðastofnun um það hvaða áhrif kvótasetning þorskaflahámarksbátanna þá mundi hafa á Vestfjörðum, en í þeirri skýrslu stóð að fiskvinnslustörfum mundi fækka um tæplega 100, ef ég man rétt, og sjómannsstörfum á Vestfjörðum mundi fækka um tæplega 200. Það lá því algjörlega fyrir að það sem menn voru að aðhafast í stjórnarstefnunni mundi hafa áhrif á atvinnustigið. Sú tilhneiging að menn hafa farið yfir í einkahlutafélögin og þar með breytt tekjustreyminu og greiðslum, hvernig tekjurnar eru uppbyggðar til einstaklinganna, hefur ef til vill líka haft áhrif á tekjur sveitarfélaganna, að minnsta kosti sumra sem hafa haft megintekjur sínar úr sjávarútveginum.

En ég vek athygli á því og minni á það aftur, virðulegur forseti, þetta var vitað. Þetta var skrifað í skýrslu Byggðastofnunar áður en menn aðhöfðust þessa hluti þannig að þetta átti ekki að koma á óvart og var í raun og veru stefna stjórnvalda að áhrifin yrðu þessi.

Á fundi sem nýlega var haldinn norður í Eyjafirði, sem ég frétti af en var ekki á, ég held að það hafi verið sjávarútvegsnefnd sem þar var á ferð, þar upplýstu sjómenn við Eyjafjörð, trillusjómenn, að síðasta aðgerðin sem gerð var við kvótasetningu handfærabátanna mundi hafa þau áhrif við Eyjafjörð að sennilega mundu tapast milli 50 og 60 störf. Ég var því miður ekki á þessum fundi og hef ekki fengið þetta skriflegt en ég hef þessar upplýsingar af fundinum og það er auðvitað mjög miður að við skulum sífellt halda áfram í stefnumótun sem hefur neikvæð áhrif á atvinnustig á landsbyggðinni og í hinum minni sjávarbyggðum því að þar var vissulega nóg að gert í þeim efnum og var ekki á bætandi.

Allt þetta hefur áhrif á stöðu byggðanna og tekjustreymi þeirra og síðan eru auðvitað fjöldamörg verkefni sem smátt og smátt hafa orðið til að auka kostnað sveitarfélaganna samfara lagasetningu hér á Alþingi sem hefur gert það að verkum að sveitarfélögin vantar fé í rekstur sinn.

Mörg minni sveitarfélög nánast um allt land hafa talað um kostnaðinn af refa- og minkaeyðingu sem hefur vaxið talsvert og færst í meira mæli yfir á sveitarfélögin og ég held að framkvæmdina á því atriði og endurgreiðslu ríkisins verði að skoða algjörlega upp á nýtt. Sveitarfélögin ráða einfaldlega ekki við þetta verkefni og þau hljóta að velja önnur verkefni sem þeim ber lagaleg skylda til að veita þjónustu fram yfir þetta og láta þá þetta sitja á hakanum ef því er að skipta. Ég held því að það sé kominn tími til að endurskoða þetta algjörlega upp á nýtt og það væri t.d. hægt að gera með því að ríkið tæki alfarið að sér að sjá um minkaeyðinguna og bæri allan kostnað vegna þess.

Áhyggjur manna af fjarskiptakerfinu hafa líka iðulega verið nefndar á þeim fundum sem sveitarstjórnarmenn hafa komið á hjá fjárlaganefnd og í hvað stefnir. Stefnumótun ríkisins er jú sú að selja Símann og dreifikerfið allt í einum pakka sem er að mínu viti mjög röng stefna. Ég tel að dreifikerfinu eigi algjörlega að halda sér, stofna um það sérfyrirtæki ef menn vilja og ríkið eigi síðan að sjá til þess að allir hafi aðgang að dreifikerfinu eða því fyrirtæki sem ríkið felur að sjá um dreifikerfið og gera þannig úr garði að ásættanlegt sé fyrir alla íbúa landsins. Ég tel að hlutverk slíks fyrirtækis ætti auðvitað líka að vera að vinna að öryggismálum eins og GSM-sambandinu og það seldi síðan síma- og fjarskiptafyrirtækjum aðgang að dreifikerfinu. Það held ég að væri kannski stefna sem hægt væri að ná einhverri sátt um hér í Alþingi, það verður aldrei hægt að ná sátt um að selja Símann með dreifikerfinu og fjármálaráðherra ætti að átta sig á því. Það er verið að mismuna fólki á landsbyggðinni eina ferðina enn með því að fara á þennan hátt í málin og það gengur ekki, hæstv. forseti. Ég held að menn ættu að skoða þá stefnumótun algjörlega upp á nýtt og reyna þá frekar að ná sátt um það að viðhalda dreifikerfinu og tryggja þar eðlilega samskiptamöguleika og jafnræði með fólki á landinu.

Þá langar mig að víkja aðeins að skattstefnu ríkisstjórnarinnar sem mér finnst óásættanleg og við í Frjálslynda flokknum höfum, eins og menn kannski muna og vita, lagt upp aðrar áherslur í skattamálum. Við bentum á það í kosningabaráttunni að það þyrfti að taka á persónuafslættinum og hækka hann þannig að skattalagabreytingar sem menn treystu sér til að gera nýttust betur þeim sem lægri launin hafa. Það held ég að væri miklu raunhæfara en það sem núna er verið að gera.

Við erum algerlega andvíg því að verið sé að fella niður hátekjuskattinn meðan þeir sem lægstu launin hafa sitja eftir. Og það er sjálfsagt alveg rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að skattgreiðendum hefur fjölgað á landinu á undanförnum árum, það eru fleiri sem greiða tekjuskatt. Og hvers vegna skyldi það vera? Það er jú vegna þess að persónuafslátturinn hefur ekki haldið raungildi sínu. Þar af leiðandi fjölgar skattgreiðendum jafnvel meira en þjóðinni fjölgar.

Ég veit ekki hvort það er neitt til að hæla sér af að skattgreiðendum skuli fjölga og að menn séu farnir að greiða tekjuskatt af tekjum sem ekki duga til framfærslu. Í nýlegri blaðagrein hafa forustumenn ellilífeyrisþega, Benedikt Davíðsson, Ólafur Ólafsson og Árni Einarsson, minnir mig, vikið að þessari framkvæmd skattalagastefnunnar og bent á hvaða áhrif hún hefði á ellilífeyrisþegana. Það er algjörlega ljóst miðað við þá framsetningu þeirra, og ég vék að þessu í umræðum í gær undir stefnuræðu forsætisráðherra, að það er algjörlega ljóst að ellilífeyrisþegar greiða núna hærri skatta en þeir gerðu áður. Þar til viðbótar er svo inni í skattkerfinu og bótakerfinu ákvæði um það að ef þetta fólk hefur tekjur úr lífeyrissjóði þá skuli skerða bætur þess.

Um þetta höfum við í Frjálslynda flokknum flutt ákveðið mál og lagt til að allar tekjur ellilífeyrisþega úr lífeyrissjóði undir 50 þús. kr. skertu engar bætur, menn héldu sem sagt fullri tekjutryggingu þó að þeir fengju greiðslur upp á 50 þús. eða minna úr lífeyrissjóði. Ég held að það væri afar vel til fundið að skoða það mál sem við höfum hér flutt til þess að bæta stöðu ellilífeyrisþega í landinu.