131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[13:51]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég kom inn á í ræðu minni er það svo að fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga eru viðvarandi verkefni þessara tveggja stjórnsýslustiga.

Þingmaðurinn spurði hvort rétt væri skipt. Við höfum farið yfir það oft og einatt og í þeim nefndum m.a. sem ég nefndi, bæði tekjustofnanefnd og jöfnunarsjóðsnefnd, farið yfir fjármál sveitarfélaganna og hvernig þeim væri best fyrir komið, hvaða tekjustofna sveitarfélögin þyrftu að hafa til þess að standa undir sínum rekstri.

Eins og ég nefndi er þetta viðvarandi verkefni. Við komumst að niðurstöðu árið 2000 og við komumst að niðurstöðu árið 2002 í samstarfi ríkis og sveitarfélaga um þetta efni. (GÁS: Það var ekki samkomulag.) Og þrátt fyrir að einn nefndarmaður hefði skilað séráliti í annarri nefndinni, eins og hann vill greinilega koma hér á framfæri í þingsalnum, hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, um eitt atriði. (Gripið fram í: Eitt?)

En það er fráleitt eins og hv. þm. var að reyna að gefa í skyn að það að sveitarfélögin eigi núna í samningaviðræðum við kennara hafi eitthvað með þetta að gera. Og það veit hv. þm. og hefur oft um það fjallað að það eru alls óskyld mál, kjarasamningar kennara eða einstakra stétta sem sveitarfélögin semja við og það hvernig fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga eru að öðru leyti. (Forseti hringir.) Það er allt annar málaflokkur sem við fjöllum um á öðrum vettvangi.