131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[13:53]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki hægt að segja að þetta svar hjá hv. þm. hafi skýrt myndina mikið. En það er hægt að aðstoða hv. þm. örlítið og rifja t.d. upp að þróun á endurgreiðslum vegna húsaleigubóta hefur auðvitað verið með þeim hætti að sveitarfélögin hafa þurft að bera þar þyngri hlut en ætlað var og hleypur það á nokkrum hundruðum milljóna.

Við getum einnig rifjað upp einkahlutafélögin sem hafa líka skert þessa skiptingu verulega og er vægt áætlað að það sé eitthvað á annan milljarð króna. Þannig að auðvitað hefur verið að halla á. Síðan er fjöldi annarra dæma sem við vitum um að lög hafa verið sett þar sem sveitarfélögin hafa þurft að taka aukinn hlut í miðað við það sem áður var.

En það er sem sagt þannig að það hallar verulega á sveitarfélögin og ég vona að hv. þm. taki þátt í að reyna að bæta þar úr og reyni að ná sem allra, allra fyrst niðurstöðu í það mál.

Það er auðvitað rétt hjá hv. þm. að sú kjaradeila sem nú stendur snýst ekki fyrst og fremst um þetta en alveg augljóst mál að ef fjárhagsleg staða sveitarfélaganna væri eðlileg stæðum við væntanlega ekki í þeim sporum sem við erum nú, þ.e. að hafa alla grunnskóla landsins lokaða.

Hins vegar var fleira sem kom fram í ræðu hv. þm. sem athygli vakti. Hv. þm. notaði m.a. það orðalag að trúlega mundu barnabætur hækka árið 2007. Barnabætur hækkuðu ekki á yfirstandandi ári og munu ekki hækka á næsta ári miðað við fjárlagafrumvarpið því að enn er notuð óbreytt krónutala þannig að það er greinilegt að það er ekki ætlunin að hækka þær fyrr en 2007. Síðan vonaði hv. þm. að eitthvað yrði gert varðandi virðisaukaskattinn á matvælum og tek ég undir þá von og ósk að það verði fyrr en síðar. En merkast þótti mér þó orðalag hv. þm. þegar hún sagði orðrétt: ,,Við sjálfstæðismenn treystum heimilunum betur en ríkinu að fara með fjármuni.“

Frú forseti. Ég held að ekki sé hægt að taka betur undir gagnrýni okkar þingmanna í stjórnarandstöðu (Forseti hringir.) en með þessum orðum.