131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[14:31]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir gott að heyra að hv. þm. Framsóknarflokksins er reiðubúinn að renna á rassinn með þetta, þ.e. reyna að koma ríkisstjórninni til betri vegar og hætta við þessa hækkun. Það er engin afsökun að Háskóli Íslands sé með fjársvelti kvalinn til að leggja fram tillögur um fjáröflun. Ekki voru það stúdentar sem lögðu til að hækka skólagjöldin um 40%. Eða var það svo? Ég skora á framsóknarmenn að standa í lappirnar og keyra þetta til baka. Það er með ólíkindum að stefna Framsóknarflokksins hafi verið svo kúvent í menntamálum á þremur árum. Hafa þeir lagst svo flatir fyrir einkavæðingaráformum Sjálfstæðisflokksins í menntakerfinu að þeir láti allt yfir sig ganga í þeim efnum? Við skulum vona að svo verði ekki, frú forseti.

Eitt meginefnahagsmarkmið þessarar ríkisstjórnar er að skera niður í samgöngumálum frá gildandi samgönguáætlun. Niðurskurðurinn á þessu ári er að mig minnir á milli 1.600 og 1.700 millj. kr. frá gildandi samgönguáætlun. Á næsta ári á að skera samgönguáætlunina niður um tæpa 2 milljarða kr., að mig minnir, eða samtals um nærri 4 milljarða kr. á þessu tveggja ára tímabili. Telur þingmaðurinn að þetta sé það brýnasta í niðurskurðinum, að skera niður vegaframkvæmdir á Norðausturlandi eða á Vestfjörðum? Hefði ekki verið rétt að bíða með þessa tekjuskattslækkun og standa við samgönguáætlunina?