131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[14:33]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er merkilegur frasi sem Vinstri grænir nota oft um okkur framsóknarmenn, að við séum að renna á rassinn í máli eftir máli gagnvart Sjálfstæðisflokknum. Ég held að hv. formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Steingrímur J. Sigfússon, hafi ekki verið í svo friðsömu stjórnarsamstarfi. Starfið gengur ágætlega og er enginn að renna á rassinn, hvorki framsóknarmenn né sjálfstæðismenn í því ágæta samstarfi. Það er virkilega ánægjulegt að heyra þann áhuga sem Vinstri grænir sýna stefnumálum okkar framsóknarmanna, sérstaklega í menntamálum. Þar standa aldeilis yfir framkvæmdir.

Nú stendur yfir endurskoðun á Lánasjóði íslenskra námsmanna, þ.e. það stendur fyrir dyrum. Með því á að bæta hag íslenskra námsmanna. Ef Vinstri grænir hefðu stjórnað menntamálaráðuneytinu, er ekki víst að við hefðum fengið að sjá að einkaskólar — það er víst ekki fallegt orð þótt þetta séu sjálfseignarstofnanir og ekki reknar út frá hagnaðarsjónarmiði — að slíkar stofnanir hefðu blómstrað eins og þær hafa gert á síðustu árum. Það hefði varla gerst ef Vinstri grænir hefðu verið við völd. Ríkið verður að eiga allt á þeim bænum og verður að hafa bönd á öllum atvinnurekstri í íslensku þjóðfélagi. Það er bara þannig. Ég fullyrði að íslenskt skólastarf og íslenska menntakerfið hefur aldrei staðið styrkari fótum. Það hafa aldrei verið jafnmargir nemendur í íslenskum framhalds- eða háskólum. Íslenskt skólastarf hefur aldrei verið blómlegra en í dag og framlög stjórnvalda til menntamála hafa aldrei verið hærri en einmitt á fjárlagaárinu 2005 sem nú fer að renna upp.