131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[14:36]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það hefur áður komið fram á fundinum að gert var sérstakt samkomulag um þá umræðu sem hér fer fram milli forseta og formanna þingflokka. Því hefur verið fylgt býsna vel eftir, t.d. varðandi andsvör sem aðeins voru leyfð á ákveðinn hátt í fyrstu umferð.

Fleira var inni í því samkomulagi. Ég vil sérstaklega vekja athygli á 5. lið þess. Þar segir: „Lögð verður áhersla á að fagráðherrar verði viðstaddir umræðuna.“

Frú forseti. Þannig er ástatt að aðeins eru tveir fagráðherrar staddir í salnum, þ.e. hæstv. landbúnaðarráðherra og hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég verð því að spyrja, frú forseti: Eru fleiri fagráðherrar í húsi? Má búast við því að fleiri fagráðherrar fylgist með umræðunni eins og samkomulagið gerir ráð fyrir?

(Forseti (ÞBack): Forseti mun kanna hvort fleiri fagráðherrar eru í húsinu. Hæstv. fjármálaráðherra fylgist með umræðunum en samkvæmt því skjali sem ég hef í höndum getur forseti ekki séð að fagráðherrar séu almennt í sal og fylgist stöðugt með umræðunum.)

Frú forseti. Ég vek athygli á því að í 5. lið er sagt að lögð verði áhersla á að fagráðherrar verði viðstaddir umræðuna. Ég geri mér grein fyrir því að þannig getur verið ástatt hjá sumum fagráðherrum að þeir séu uppteknir í dag og hafi þá fjarvist. Ég hef leyft mér að skilja samkomulagið þannig að ef fagráðherrar hefðu ekki fjarvist þá væru þeir tiltækir. Ég vil biðja hæstv. forseta um að kanna hver staðan er á því. Ég á eftir að halda ræðu seinna í dag og þá mun ég óska eftir því að a.m.k. fjórir fagráðherrar sem ég þarf að eiga sérstakan orðastað við verði viðstaddir. Í fjárlagaumræðunni hefur fyrst og fremst verið óskað eftir þessu við 1. umr. vegna þess að í 2. og 3. umr. er frumvarpið komið til fjárlaganefndar í vinnslu og ráðherrarnir geta þá fremur verið stikkfrí. Það er eðlilegt að við 1. umr. séu þeir viðstaddir fremur en við 2. umr. Ég óska eftir því við virðulegan forseta að kannað verði hvernig þessum málum er háttað, hvort tryggt sé að þeir ráðherrar sem ekki hafa fjarvist verði viðstaddir umræðuna.

(Forseti (ÞBack): Forseti mun láta athuga hvernig stendur á fjarveru ráðherra, athuga hvort þeir eru í húsi og gera þeim aðvart.)