131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[14:39]

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Hér hafa farið fram ágætar umræður um fjárlagafrumvarpið. Fjármálaráðherra gerði í upphafi skýra grein fyrir frumvarpinu og stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum. Við höfum búið við trausta fjármálastjórn ríkisins mörg undanfarin ár og þetta fjárlagafrumvarp sýnir að hér er öflugt athafna- og efnahagslíf. Jafnvægi og stöðugleiki í fjármálum ríkisins verður áfram tryggður með frumvarpinu.

Lífskjör þjóðarinnar hafa á undanförnum árum batnað svo um munar. Hagstjórn undanfarinna ára hefur leitt til þess að kaupmáttur hefur vaxið meira en dæmi eru um síðustu áratugi. Forsendur stöðugleika eru hóflegar launahækkanir og lítil verðbólga. Stöðugleikinn er grundvöllur þess að kaupmáttur vaxi enn frekar.

Kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna jókst umtalsvert á síðasta ári, þ.e. um 5,5%. Í þessu frumvarpi er annað árið í röð lögð fram stefna ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum til næstu fjögurra ára. Slík stefnumörkun styrkir trúverðugleika efnahagsstefnunnar og stuðlar að stöðugleika í efnahagslífinu. Helstu markmiðin eru að fylgja aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálum og þannig verði árlegur vöxtur samneyslu ekki umfram 2% að raungildi. Dregið verði úr framkvæmdum ríkisins um 2 milljarða kr. árið 2005 og aðra 2 milljarða kr. árið 2006. Framkvæmdir verða síðan aftur auknar um 2 milljarða kr. árið 2007 og aðra 2 milljarða kr. árið 2008. Reyndar hefur komið í ljós að þensla vegna hinna miklu framkvæmda við Kárahnjúka hefur ekki orðið eins mikil og búist hafði verið við.

Skuldir ríkissjóðs hafa minnkað um nær helming frá árinu 1995. Heildarskuldir hafa lækkað úr rúmu 51% af landsframleiðslu árið 1995 í 27%, samkvæmt áætlun þessa frumvarps. Þetta er hagsmunamál allra.

Hæstv. forseti. Aðhaldssöm stefna í ríkisfjármálum er ekki einungis mikilvæg forsenda fyrir stöðugleika í efnahagsmálum næstu árin heldur einnig fyrir framgang lækkunar skatta. Strax á næsta ári verða skattar lækkaðir um 1% og á árunum til 2007 um 3% til viðbótar. Það er eðlilegt að skattar lækki við þær aðstæður sem við búum við í dag. Skattalækkun kemur öllum til góða sem greiða skatta.

Á milli stjórnarflokkanna fara fram viðræður um lækkun virðisaukaskatts og auknar barnabætur. Tillögur þar að lútandi munu líta dagsins ljós innan skamms.

Hæstv. forseti. Um 60% af útgjöldum ríkisins ganga til heilbrigðismála, almannatrygginga, velferðarmála og fræðslumála. Þetta eru einnig þeir útgjaldaflokkar sem mestar sviptingar eru um á hverju ári enda eru þetta meginstoðirnar í samfélagi okkar. Ef við lítum á einstaka þætti frumvarpsins er helst til að nefna að rekstrargjöld heilbrigðis- og tryggingaráðuneytisins, að frádregnum sértekjum, eru áætlaðar um 61 milljarður kr. og hækka því um 4,2 milljarða kr. frá fjárlögum þessa árs. 500 millj. kr. viðbótarframlag er til Landspítala – háskólasjúkrahúss sem ætlað er að styðja rekstrargrunn sjúkrahússins miðað við óbreytta starfsemi. Þar að auki er á fjáraukalögum viðbót á þessu ári um 667 millj. kr. Heildarútgjöld Landspítala – háskólasjúkrahúss eru áætluð 26.120 millj. kr.

Þá verður rúmlega 400 millj. kr. aukning á framlögum til öldrunar- og endurhæfingarstofnana og rúmlega 300 millj. kr. til heilbrigðisstofnana. Hjúkrunarrýmum aldraðra mun fjölga á næsta ári um 55. Á undanförnum árum hefur markvisst verið unnið að því að stytta biðlista fatlaðra eftir búsetu. Rýmum á sambýlum mun fjölga um 110 frá árinu 2001 til 2005. Þar með hefur þessum biðlistum verið eytt. Þá hefur verið mörkuð stefna til að tryggja fullnægjandi meðferð á búsetuúrræði fyrir geðfatlaða á árunum 2006–2010.

Hæstv. forseti. Lífskjör hafa batnað umtalsvert á síðustu árum og ef áætlanir ganga eftir ætti kaupmáttur að aukast enn frekar á næstu árum. Flestir efnahagslegir mælikvarðar sýna sterka stöðu Íslands í alþjóðlegum samanburði. Hagvöxtur er meiri hér en annars staðar. Atvinnuleysi er langt undir því sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar en er samt meira en við sjálf getum sætt okkur við. Staða ríkisfjármála er einnig mun betri og það sama gildir um skuldastöðuna. Verðbólga er einnig svipuð þótt hún sé nærri efri mörkunum. Það stafar einkum af því að hagvöxtur er hér mun meiri en annars staðar.

Sé horft fram í tímann kemur í ljós að staða okkar er betri en víðast hvar annars staðar. Lífeyrissjóðakerfið er mun öflugra hér á landi þar sem það er að verulegu leyti byggt á sjóðssöfnun en ekki gegnumstreymi. Þetta þýðir að ekki þarf að grípa til sérstakra ráðstafana hér til að mæta hlutfallslegri fjölgun ellilífeyrisþega, hvorki með hækkun skatta né skerðingu lífeyrisréttinda.

Hæstv. forseti. Í þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins er mjög fróðleg samantekt á atvinnumálum landsmanna. Þar sem tími minn er stuttur þá ætla ég aðeins að hlaupa á einni starfsgrein. Í þessari þjóðhagsspá kemur fram að margar atvinnugreinar sem tengja má einkaneyslu og ferðaþjónustu hafa dafnað vel eins og ýmis smásala, bílasala, hótel- og veitingahúsarekstur. Umsvif í fjármálaþjónustu og atvinnugreinum sem tengjast rekstri og sölu fasteigna hafa aukist gífurlega og þá er gert ráð fyrir að uppbygging ýmissa hátæknigreina haldi áfram eins og til að mynda lyfjaframleiðsla.

Mikill vöxtur hefur verið í uppbyggingu ferðaþjónustu að undanförnu. Samhliða mikilli fjölgun erlendra ferðamanna til landsins hefur hótelrými um allt land aukist verulega. Fyrstu 7 mánuði ársins komu 30 þúsund fleiri ferðamenn til landsins í gegnum Keflavíkurflugvöll en á sama tíma í fyrra sem er 17% aukning. Heildarfjöldi farþega þessa mánuði nam 202 þúsundum alls. Bjartsýni manna um 350 þúsund ferðamenn í ár, sem er metfjöldi, stefnir í að ganga eftir og gott betur. Þessi þróun endurspeglast í auknum tekjum af erlendum ferðamönnum sem voru 15 milljarðar kr. á fyrra helmingi ársins og jukust um ríflega 5% að raungildi frá fyrra ári. Þetta sýnir okkur hve þessi atvinnugrein er mikilvæg fyrir þjóðarbúið.

Virðulegi forseti. Ég ætla að láta hér staðar numið og óska eins og aðrir eftir góðri samvinnu og samstarfi í fjárlaganefnd.