131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[14:47]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Drífa Hjartardóttir gat þess að þensluáhrifin vegna stóriðjuframkvæmdanna fyrir austan hefðu orðið minni en ráð var fyrir gert. Eftir því sem mig minnir hafði verið gert ráð fyrir að allt upp undir 70% af því vinnuafli sem þyrfti við framkvæmdir þarna væri innlent. Það hefði verið í fyrstu áætlunum. Nú hafa þessar áætlanir breyst. Mig langar til að spyrja: Telur þingmaðurinn það vera gott að hlutfall innlends vinnuafls við framkvæmdirnar lækkar stöðugt? Stöðugt stærri hluti er erlendur. Erlent vinnuafl, erlendir verktakar sem halda niðri launum. Miklu minni hluti innlends vinnuafls en ráð var fyrir gert. Finnst þingmönnum það gott?

Auk þess vil ég inna þingmanninn eftir öðru. Hv. þm. Drífa Hjartardóttir kom inn á heilbrigðismálin. Ég veit að hv. þm. er mjög annt um heilbrigðismál og leggur sig fram í þeim málaflokki. Þess vegna spyr ég: Er þetta sæmandi? Hvað finnst henni? Að ráðist sé á komugjöld til heilbrigðisstofnana og þau hækkuð um 20 milljarða kr. eða nær 21 millj. kr. samkvæmt þessu frv.? Komugjöld á heilsugæslustöðvar eru hækkuð um 26,2 millj. Samtals eru þarna 46,8 millj. kr. sem eru teknar bara í auknum komugjöldum. Þetta er ekki há upphæð en þetta sýnir innrætið gagnvart þeim sem þarna þurfa að leita þjónustu. Er hv. þm. sammála þessum áherslum og þessu innræti sem hér er lýst og kemur fram í frv.?