131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:12]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er verið að gera meira en það, það er ekki bara um flata prósentulækkun á öllum tekjuskatti að ræða. Það er verið að lækka sérstaklega álagið á hærri laun, á það sem menn hafa borgað aukalega fyrir tekjur fyrir ofan viss viðmiðunarmörk. Það er verið að fletja íslenska skattstigann út og það er auðvitað búbót sem kemur eingöngu hinum tekjuháu til góða.

Það er ekkert verið að gera fyrir þá sem liggja um eða neðan við skattleysismörkin, en það er því miður hin dapurlega staðreynd að það er mikill fjöldi fólks sem er á tryggingabótum eða jafnvel launum sem eru rétt við þau mörk, því miður.

Ég var ekkert að fjalla um amerískt samfélag almennt eða ameríska þjóð og það er alveg fullkomlega ástæðulaust að vera svo ofboðslega viðkvæmur fyrir hönd Bandaríkjamanna að það megi ekki nefna skattamál í Bandaríkjunum, að þá sé það talin vera árás á bandarísku þjóðina. Ég var ósköp einfaldlega að benda á að það verður ekki rekið öflugt samábyrgt velferðarkerfi á grundvelli hins norræna módels, eins og oft er kallað, með skatthlutföllum upp á ameríska vísu þar sem samneyslan er langtum minni, þar sem menn eru með einkatryggingar og annað því um líkt til þess að komast einhvers staðar inn á sjúkrahús ef þeir veikjast o.s.frv.

Það er margt mjög gott í bandarísku þjóðfélagi en það er líka margt mjög skelfilegt þar. Þar eru tugir milljóna manna án undirstöðuheilbrigðisþjónustu. Þar eru milljónir heimilislausra. Ég vil ekki svoleiðis þjóðfélag þó að það sé fínt að eiga dýra og fína háskóla sem þeir komast inn í sem geta borgað há skólagjöld. Og þó að það sé margt glæsilega gert í vísindum og listum í Bandaríkjunum þá er líka mjög margt miður í því samfélagi sem ég vildi ekki sjá hér á Íslandi.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson skrifaði blaðagrein á dögunum þar sem hann sagði að kröfur um aukin framlög til háskólans væru sama sem kröfur um skattahækkanir. Þá virtist hv. þm. skilja samhengið. Er þá ekki skattalækkun sama og niðurskurður einhvers staðar? Ég held það, ef maður tekur hv. þm. á orðinu. Og ég held að það sé ekki svigrúm til að lækka skatta ef ekki (Forseti hringir.) er hægt standa við samninga við öryrkja, ef leggja þarf á 100 millj. í ný skólagjöld í Háskóla Íslands og ef ná þarf inn 26 millj. kr. í hækkun komugjalda á heilsugæslustöðvar.