131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:41]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Fulltrúar Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd hafa fjallað um fjárlagafrumvarpið með miklum ágætum og þar með fjallað um afstöðu Samfylkingarinnar til þess. Það eru þau Einar Már Sigurðarson, Jón Gunnarsson og Anna Kristín Gunnarsdóttir og ég þakka þeim sérstaklega fyrir þátt þeirra hér í dag. Ásamt þeim er Helgi Hjörvar einnig fyrir okkur í fjárlaganefnd og hann mun tala hér síðar. Og ég sé sérstaka ástæðu til að nefna þetta fyrir framgöngu þeirra.

Virðulegi forseti. Í fjárlagafrumvarpi má sjá áherslur viðkomandi ríkisstjórnar og það kemur ekkert á óvart í nýframlögðu frumvarpi. Núverandi ríkisstjórn hefur og stendur vörð um hagsmunahópa sína og það skilur ekkert á milli hægri flokksins, sem hefur leitt ríkisstjórnina, og Framsóknarflokksins, sem nú hefur tekið við og er með fullkomna fylgispekt í öllum málum nú orðið. Öll ríkisstjórnarárin hefur ríkisstjórnin átt sérstaka hagsmunahópa. Það eru peningamennirnir, það eru þeir sem eru þóknanlegir. Það eru þeir sem búið er að vinna í haginn fyrir með skattabreytingum fyrri ára og nú á að koma til móts við enn á ný. Núverandi ríkisstjórn er ekki félagslega sinnuð, það sjá allir sem skoða fjárlagafrumvarpið. Það hefur líka komið fram í öllum þáttum þar sem menn hafa verið að kryfja fjárlagafrumvarpið til mergjar og þar sem ekki er fólk frá stjórnarandstöðunni á þingi að fjalla um það sem ríkisstjórnin setur á oddinn.

Ríkisstjórnin hefur sýnt alveg fádæma áhugaleysi varðandi tiltekna hópa. Ég ætla bara að nefna einn, virðulegi forseti, eitt dæmi. Túlkaþjónusta fyrir heyrnarlausa er búin að velkjast í kerfinu í tíu ár frá því sú sem hér stendur var félagsmálaráðherra árin 1994–1995. Og nú á loks endanlega að synja um þessi mannréttindi. Þarna er rödd sem ekki fær að heyrast. Hvað kostar það fyrir þessa ríkisstjórn? Hámark tíu milljónir kostar það að verða við þessum óskum og baráttu heyrnarlausra.

En við, þessi þjóð, erum meðal tíu auðugustu þjóða heims, ekkert minna. Við erum meðal tíu auðugustu þjóða heims. Kemur það vel fram í áherslunum í fjárlagafrumvarpinu? Nei. Við högum okkur nefnilega, eða ríkisstjórnin réttara sagt hagar sér þannig í fjárlagafrumvarpinu eins og við séum fremur snauð.

En fjármálaráðherrann er stoltur með efnahagsstöðu ríkisins og landsins. Það er gífurlega þýðingarmikið að tryggja stöðugleika efnahagsmála. Stærsta málið hverju sinni er að tryggja stöðugleikann og góða efnahagsstöðu. Síðan er hitt málið hvernig maður ætlar svo að fara með árangurinn og afraksturinn af því að það takist og um það erum við að takast á.

Þess vegna er það líka áhyggjuefni að verðbólga mun haldast áfram í hærri kantinum, allt að 4%, og að viðskiptahallinn er algjörlega úr böndunum við þessar flottu aðstæður.

Ég hlýt að benda á að gífurlegar efnahagsbreytingar hafa orðið sl. 10–15 ár. Tveir þættir standa upp úr varðandi þær sem ég vil halda til haga: EES-samningurinn, þegar hagkerfið var opnað og þar með talinn fjármagnsmarkaðurinn, og samkomulag á vinnumarkaði, jafnan kallað þjóðarsáttin. Það er umhugsunarefni hvernig fólki á almennum launamarkaði hefur verið launað það framlag til að snúa við illri þróun sem við vorum öll að berjast við og að komast út úr óðaverðbólgu og óstöðugleika í efnahagslífinu. Því fólki hefur ekki verið vel launað.

Við opnum EES-samningsins varð líka frjáls innflutningur á vinnuafli. Í dag eru yfir 10% af vinnuaflinu á aldrinum 25–40 ára af erlendu bergi brotin. Þetta er athyglisvert. Þetta er fólk á byggingarmarkaði, í ræstingum og í þjónustustörfum, mjög oft í láglaunastörfunum. Þetta fólk á hins vegar mikinn þátt í að draga úr þenslu og að gert er ráð fyrir að verðbólgan haldist þó nokkuð í skefjum, eins og hér er sagt í umræðunni.

Við erum í fyrsta sinn að upplifa góðan hagvöxt og atvinnuleysi samtímis. Það er líka alvarlegt umhugsunarefni. Atvinnuleysi stefnir í yfir 3% á þessu ári og það er mikið. Það er mikið hjá þjóð eins og okkar. Heimilin eru gífurlega skuldsett. Þau mega ekki við niðursveiflu í tekjum, hvað þá tekjumissi vegna atvinnuleysis.

Mjög mikil hagræðing hefur orðið í atvinnulífi á Íslandi. Sameiningar hafa orðið í fyrirtækjum, yfirtökur í atvinnulífinu og fyrirtæki halda þess vegna að sér höndum með mannaráðningar. Það er líka eitthvað sem við eigum að vera á verði gagnvart. Fyrirtækin halda að sér höndum því þau eru líka að hugsa um að fara í frekari sameiningar, frekari hagræðingar. Tækniþróunin og hraðar breytingar á vinnumarkaði skúbba fólki af honum. Það er það sem hefur skapað breytinguna, að svo margir hafa dottið út af vinnumarkaði. Störf sem fólk hafði lært til hafa úrelst. Sérhæfing hefur orðið einskis virði í breyttu samfélagi á breyttum vinnumarkaði. Fólk sem komið er yfir miðjan aldur og lendir í þessum breytingum upplifir að þetta hefur haft áhrif á heilsu og líðan. Meðal annars þeir sem verða fyrir svona áföllum lengja listann yfir öryrkja í dag, listann sem skammast er yfir. Það er ekki sagt: Þetta þurfum við að skoða. Þetta er alvarlegt íhugunarefni fyrir okkur stjórnvöld. Getum við brugðist einhvern veginn við? Nei, sagt er: Það er svo dýrt fyrir okkur hvað öryrkjar eru orðnir margir. Sá er tónninn. Sá er tónninn hjá ríkisstjórninni. Ríkisstjórnin skilur ekkert og virðist ekki vita hvað hefur verið að gerast og gerir sér ekki grein fyrir að það fólk sem þarna hefur lent inni á löngum lista er fórnarlömb.

Þjóðarsáttin, EES-samningurinn og ný sóknarfæri á öllum sviðum áttu að opna fyrir fjölbreytni og þróun nýrra fyrirtækja og starfa. Ríkisstjórnin er hins vegar gamaldags. Árum saman hefur verið einblínt á hagvaxtaruppsveiflu eins og við gerðum þegar efnahagslögsagan var færð út í 12 mílur, 50 mílur og 200 mílur. Alltaf kom uppsveifla og nýtt hagvaxtarskeið hverju sinni. Það var þetta sem við sóttumst í. Það var líka hagvaxtarskeið þegar álverið í Straumsvík kom og virkjanirnar voru byggðar. Núna erum við inni í stóru sveiflunni, hagvaxtarsveiflunni, sem verður til vegna Kárahnjúka og álvers. Ég spyr: Ætlum við alltaf að vera að leita að nýrri sveiflu? Ætlum við alltaf að vera að leita að því hvernig við komumst inn í nýtt hagvaxtarskeið út af því nýja sem við ætlum að gera? Við í Samfylkingunni ætlumst til þess að á þessu skeiði verði tíminn nýttur vel til að mennta alla, til að skapa fjölbreytni á vinnumarkaði, til að búa til aðstæður fyrir smáfyrirtæki. Við skulum muna skattaleikfimina síðast þegar skattur á fyrirtæki var lækkaður gífurlega og nýttist bara þeim sem voru með miklar tekjur. Um leið var tryggingagjaldið hækkað hjá litlu sprotafyrirtækjunum sem reið sumum þeirra að fullu.

Í stefnuræðunni í gærkvöld benti hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir á mismununina sem alltaf viðgengst hjá þessari ríkisstjórn. Hún fór yfir fjármagnstekjuskattinn og tekjuskattinn, að þeir ríkustu greiða 12% í skatt og þeir með lágu og meðaltekjurnar 25–27%. Helmingur þeirra 5 milljarða sem ríkisstjórnin ætlar að verja til skattalækkana næsta ár fer í vasa þeirra 25% tekjuhæstu, 2,5 milljarða í vasa þeirra tekjuhæstu.

Við komum alltaf að hagsmunahópum þessarar ríkisstjórnar og skattastefnunni. Þess vegna ætla ég að minna á svar fjármálaráðherra hér á Alþingi um skiptingu skattbyrðarinnar sem lögð var fram á þingi skömmu fyrir kosningarnar í fyrra og var mjög til umræðu, bæði í kosningabaráttunni og hér á þingi. Þyngsta skattbyrðin var í neðstu hópunum. Þessu var skipt upp í 10 10% hópa og í 4–5 lægstu hópunum var þyngsta skattbyrðin. Það er ekki verið að taka á þeim hópum núna. Það er ekki verið að taka á hópunum sem ekki bera skatt. Fyrir kosningar vildu líka þessir stjórnarflokkar skoða matarverðið og lækka matarskattinn. Nú hefur Hagfræðistofnun Háskóla Íslands skilað ábendingum og komið með tillögur en ríkisstjórnin ætlar að setja svigrúmið í tekjuskattslækkun fyrir hópana sína. Hún er enn við sama heygarðshornið. Það sama má segja um þetta fjárlagafrumvarp, ríkisstjórnin sér um sína.