131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[16:34]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vakti athygli á því fyrr í dag að það væri hluti af samkomulagi sem hefði verið gert milli forseta og formanna þingflokka að, eins og segir hér í 5. lið, áhersla yrði lögð á að fagráðherrar verði viðstaddir umræðuna.

Nú gerði ég ekki þá kröfu fyrr í dag að fagráðherrar væru hér í allan dag heldur tilkynnti að ég þyrfti að eiga orðastað við fjóra hæstv. fagráðherra og gaf þar af leiðandi nokkuð góðan frest til þess að þeir mættu vera hér í húsi þegar ég héldi ræðu mína. Það hefur aðeins einn hæstv. ráðherra orðið við þessari beiðni, hæstv. heilbrigðisráðherra. En hinir hæstv. ráðherrarnir hafa ekki látið sjá sig.

Ég hlýt því að ítreka þá ósk mína að það sé lágmarkskrafa að þegar ég held þriðju ræðu mína á eftir, verði hér komin í hús hæstv. félagsmálaráðherra, hæstv. menntamálaráðherra og hæstv. samgönguráðherra og ef ekki eru fullnægjandi fjarvistarástæður hæstvirtra ráðherra þá er óhjákvæmilegt að umræðunni verði frestað þar til hæstv. ráðherrar geta látið svo lítið að láta sjá sig hér í húsi.