131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[16:39]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Vegna þess sem fram kom hjá síðasta ræðumanni þá er það nú stundum þannig að þeir eru skammaðir sem síst skyldi, þ.e. þeir sem eru viðstaddir, því ekki næst í hina.

Kjarni málsins er vitaskuld sá að þessi umræða um fjárlög fer jafnan fram á þessum degi. Þetta eiga hæstv. ráðherrar að vita. Það á ekkert að koma þeim á óvart að þessi umræða sé í dag. Ég hefði talið, virðulegi forseti, að ef einhverjir ráðherrar hafi ekki haft vitneskju um að þessi umræða væri í dag þá væri a.m.k. mikilvægt að koma því til skila.

Annað er kannski enn alvarlegra í þessu máli. Það er að hér hefur verið gert samkomulag. Það er búið að gera samkomulag um ákveðið form á þessari umræðu. Þar er kveðið skýrt á um að ráðherrar séu hér nema í undantekningartilvikum. Að undanskildum þeim tveim ráðherrum sem hér sitja, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. heilbrigðisráðherra, höfum við ekki orðið vör við að aðrir ráðherrar sitji hér eða hafi gefið skýringar á fjarveru sinni. Það vissulega vekur þær hugrenningar hvort hægt sé að gera svona samkomulag, þ.e. ef niðurstaðan er sú að ráðherrar hæstvirtir eru ekki viðstaddir þessa umræðu.

Þess vegna verð ég að segja, virðulegi forseti, að hafi þinginu skjöplast eitthvað við að upplýsa ráðherra um að þessi umræða færi fram í dag eða það á einhvern hátt farið fram hjá hæstv. ráðherrum þá er mikilvægt að þingið upplýsi um það. Þetta skilur svo eftir spurninguna um hvort hægt sé að gera samkomulag um þessa umræðu á komandi árum.