131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[16:43]

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ástæða er að leggja áherslu á að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur verið við umræðuna í allan dag. Það er rétt sem fram kom í hans máli. En hann er undantekningin sem nánast sannar regluna. Aðrir ráðherrar hafa ekki verið hér nema þá í mýflugumynd. Þetta er staðreynd.

Af því að vísað er í samkomulag sem menn hafa gert um fyrirkomulag þessarar umræðu þá vil ég segja að það gengur út á það að stytta hana verulega. Ef við hefðum farið að hefðbundnum þingskapareglum hefðu ræður verið 20 mínútur eða 40 mínútur ef óskað hefði verið tvöföldun ræðutíma sem iðulega er gert. En það var tekin sú ákvörðun að stytta umræðuna þannig að þingmenn aðrir en talsmenn flokkanna fengju einvörðungu tíu mínútur hver. Hér segir svart á hvítu, með leyfi forseta:

„Lögð verður áhersla á að fagráðherrar verði viðstaddir umræðuna.“

Nú hefur verið óskað eftir því formlega hér úr ræðustól að tilteknir ráðherrar komi til umræðunnar. Við erum að nálgast lok hennar núna — eða það þótti fyrirsjáanlegt. Þetta kann að breyta einhverju um það reyndar hvenær henni lýkur — og þá á það að ráðast hvort þeir koma til þings eða ekki.

Þess vegna ítreka ég fyrri óskir sem hér hafa verið settar fram um að hlé verði gert á þingfundinum þannig að við getum ráðið ráðum okkar og hægt verði að ganga úr skugga um hvort þeir ráðherrar sem hefur verið óskað eftir að komi í þingsalinn og verði hér við umræðuna séu yfirleitt á leið til þingsins.

Ég legg áherslu á að gert verði stutt hlé á þingfundinum þar sem við getum fengið botn í þetta mál.

(Forseti (BÁ): Forseti vill upplýsa að boðum hefur verið komið til þeirra ráðherra sem nefndir hafa verið. Skilaboðin eru á þá leið að félagsmálaráðherra hæstv. og samgönguráðherra séu svo til komnir í hús.)