131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[16:49]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég verð að segja að mér blöskraði þegar það var kallað lýðskrum að þingmenn í salnum færu fram á að fagráðherrar væru til staðar til að svara spurningum og taka þátt í umræðum við 1. umr. um fjárlög. Það ætti ekki að þurfa að boða ráðherra til umræðunnar þegar klukkuna vantar tíu mínútur í fimm og umræðan hefur staðið síðan 10.30 í morgun. Þótt einhverjir ráðherrar hafi sýnt sig á göngunum ætti það að vera skylda þeirra, maður mundi ætla það, að vera viðstaddir. Ætla mætti að það væri hluti af starfsskyldum þeirra að vera viðstaddir þegar þessi umræða fer fram. Ég verð að segja að þetta er lítilsvirðing við þingið. Þetta er lítilsvirðing við þá sem taka þátt í þessari umræðu, að vera ekki til staðar til að svara fyrir málaflokka sína.

Ég veit ekki betur en að gert hafi verið samkomulag um að þeir væru viðstaddir. Ég spyr: Er ekki hægt að gera samkomulag um nokkurn hlut við þessa ráðherra? Geta þeir ekki staðið við neina samninga eða samkomulag? Ég ætlaði að ræða við hæstv. heilbrigðisráðherra, sem hefur verið viðstaddur í allan dag, um samkomulag sem ekki hefur verið staðið við, samkomulag við stóran hóp í samfélaginu sem hefur verið svikið. Er ekki einu sinni hægt að halda lítið samkomulag um umræðuna í þinginu? Hvar endar þetta?

Ég fer, eins og aðrir á undan mér, fram á að gert verði hlé á þessari umræðu þangað til hæstv. ráðherrar treysta sér til þess að vera a.m.k. viðstaddir það sem eftir er af umræðunni í dag.