131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[16:56]

Jón Bjarnason (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Við erum í raun að ræða mjög alvarlegt mál, ekki síst í ljósi þess sem verið hefur í umræðunni, þ.e. að þingið haldi ekki sjálfstæði sínu og verði að lúta ráðherravaldi. Forseti þingsins, sem við væntum að væri forseti okkar allra, greindi frá því í sérstakri ræðu á þingsetningardeginum að forsetanum fyndist ekki þingið hafa sjálfstæði gagnvart forsetanum og þjóðinni.

Ákveðið samkomulag var um fyrirkomulag á umfjöllun um fyrsta mál þingsins, þ.e. fjárlagafrumvarpið, þar sem stefnuskrá ríkisstjórnarinnar kemur í raun fram og hvernig einstök ráðuneyti framkvæmdarvaldsins forgangsraða þeim verkefnum sem því er falið. Þingmenn eiga að fjalla um það til undirbúnings fyrir áframhaldandi vinnu við fjárlagagerðina. En þá bregður svo við að ráðherrar eru svo gegnsýrðir af því að þetta séu bara ráðherrafjárlög sem þingið ráði hvort það spjalli um eða ekki. Þeir telja sig ekki hafa ástæðu til þess að vera viðstadda.

Hér hefur ítrekað komið fram krafa um að þingfundi verði frestað uns ráðherrar eru komnir í salinn, a.m.k. kannað hvaða ráðherrar geti verið viðstaddir. Forseti hefur ekki enn tekið afstöðu til þess máls.

Herra forseti. Það er mjög mikilvægt að ráðherrar séu viðstaddir svona umræðu, bæði virðingar sinnar vegna og einnig vegna ábyrgðar þeirra á þeim málaflokkum sem þeir sinna gagnvart þinginu. Einstakir þingmenn eiga líka að geta kallað til ráðherra í slíkri umræðu til að svara spurningum sem upp kunna að koma og heyra viðhorf þeirra og forgangsröðun.

Þetta á ekki að þurfa að vera umræðuefni í fleiri, fleiri tugi mínútna, herra forseti.