131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[16:58]

Drífa Hjartardóttir (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það hafa verið gerðar ráðstafanir til að ráðherrar geti verið viðstaddir. En það eru ekki margir þingmenn sem hafa tekið þátt í umræðunni í dag sem beðið hafa sérstaklega um að ráðherrar verði hér, nema þá hv. þingmaður Einar Már Sigurðarson. Hann tilgreindi þá fjóra ráðherra sem hann vildi að væru hér. Þeir eru komnir og hafa verið hér meira og minna í dag.

Það sem ég var að tala um áðan var þegar hv. þm. sem ekki hafa setið hér í dag koma og láta ljós sitt skína. Það er ekki bara við þessa umræðu, þetta hefur æðioft gerst. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson er núna genginn úr salnum. Hann hefur nánast ekkert verið hér í dag en kemur og hrópar og kallar og heimtar að aðrir séu viðstaddir umræðuna. (ÁRJ: Menn eru nú að fylgjast með annars staðar.) Það gera líka fleiri.