131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[17:20]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langaði til að koma inn á nokkur atriði í þessari umræðu. Þingmenn Samfylkingarinnar sem sitja í fjárlaganefnd hafa nú allir tekið hér til máls og reifað helstu þætti sem þeir telja ástæðu til þess að vekja athygli á og vekja máls á hér. Jafnvel fleiri hafa tekið þátt í þessari umræðu. Mig langaði aðeins til að koma að velferðarmálunum og beina nokkrum fyrirspurnum til hæstv. heilbrigðisráðherra. Mun ég aðallega koma að kjörum aldraðra, kjörum öryrkja og rekstrinum á Landspítala – háskólasjúkrahúsi.

Ég tók eftir því er ég hlýddi á ræðu hæstv. fjármálaráðherra í morgun að hann talaði um að bætt staða ríkisfjármála hefði skapað skilyrði til þess að stórauka greiðslur til elli- og örorkulífeyrisþega. Ég verð að segja að mig rak í rogastans, en kannski var hæstv. ráðherra að tala um að hann hafi aukið greiðslurnar vegna þess að fjölgað hafi í þessum hópi. Það er svo að greiðslur til lífeyrisþega, aldraðra sem eru með greiðslur frá almannatryggingunum úr Tryggingastofnun hækkuðu um 619 kr., þ.e. ellilífeyririnn, um síðustu áramót. Síðan hækkaði tekjutryggingin um rúmar 3.000 kr. Inni í þeirri upphæð er hækkun sem samið var um sérstaklega haustið 2002. Ef maður skoðar greinar frá fulltrúum aldraðra í blöðunum undanfarið þá er alveg ljóst að þessi hópur sem er yfir 30 þúsund manns, þ.e. aldraðir eldri en 67 ára, er að bíða eftir kjarabótum.

Hæstv. ráðherra talaði einnig um að dregið hefði verið úr tengingu bóta við atvinnutekjur. Ég velti fyrir mér hvað hæstv. ráðherra sé að tala um þar. Er hæstv. ráðherra að tala um lagabreytinguna þar sem tekjutengingin var færð úr 67% niður í 45% á tekjutryggingaraukanum, eins og tekjutryggingartengingin er?

Þegar tekjutryggingaraukinn var settur í lög höfðu menn varla heyrt um aðra eins tekjutengingu og var sett á tekjutryggingaraukann, 67%. Það var yfirgengilegt. Því var ekki nema sanngjarnt að breyta þeirri tekjutengingu og ég er ekkert viss um að það skili sér til neitt sérstaklega margra því ekki það margir eiga rétt á þessu nema þá kannski þeir allra verst settu.

Fyrir kosningar leitaði ríkisstjórnin til þessara hópa sem hún hafði vanrækt má segja á síðasta kjörtímabili og fór að gera samninga. Sett var á laggirnar samráðsnefnd við fulltrúa aldraðra fyrir kosningar þar sem átti að ræða um kjarabætur og annað sem sneri að þeim hópi. Það verður að segja eins og er að sú samráðsnefnd hefur ekki verið kölluð saman frá því löngu fyrir kosningar. Maður veltir því fyrir sér hvaða kosningabrella hafi verið þar á ferðinni. Eða stendur til að kalla þá samráðsnefnd saman á næstunni? Það væri fróðlegt að fá að heyra það hér í þessari umræðu hvað líður því nefndastarfi.

Vegna þess að menn hafa verið að tala hérna nokkuð um jafnréttismálin þá minni ég á að þeir sem eru hvað verst staddir af öldruðum eru konur því fullorðnar konur sem eru á lífeyrisgreiðslum í dag eru mjög margar í þeirri stöðu að hafa aldrei greitt í lífeyrisjóð og þurfa að draga fram lífið af almannatryggingagreiðslunum. Þær eru að því er ég fullyrði undir framfærslumörkum, þær sem þurfa að lifa á almannatryggingabótunum einum saman. Mér þætti fróðlegt að heyra hér hjá hæstv. heilbrigðisráðherra hverja hann telji framfærsluþörf aldraðs einstaklings.

Félög eldri borgara hafa farið fram á að tilgreindur verði kostnaður við lágmarksframfærslu og að síðan verði skattleysismörk í samræmi við þann kostnað. Þeir hafa einnig farið fram á að frítekjumark almannatrygginga verði leiðrétt í samræmi við launaþróun og að ellilífeyrir hækki til samræmis við launaþróun síðustu ára. Þeir mótmæla því að þurfa að draga fram lífið á þeim upphæðum sem þeim er boðið upp á og benda á að sífellt stærri hópur aldraðra búi við versnandi heilsugæslu og að þeir lifi við mjög kröpp kjör og hafi ekki efni á því að taka út lyfin sín.

Ég ætla að láta hér skilið við málefni aldraðra. Ég ætla að reyna að koma að fleiri þáttum en vildi gjarnan fá svör við þessu frá hæstv. ráðherrum.

Varðandi öryrkjana þá er náttúrlega yfirgengilegt að gera samning rétt fyrir kosningar við öryrkja um aldurshækkanir á örorkubótum og svíkja hann síðan þegar stór hluti öryrkja hefur gengið til kjörborðsins með þetta samkomulag hugfast og greiddi jafnvel atkvæði í ljósi þess að verulegar kjarabætur áttu að koma til þessa hóps. Það var ekki samið út frá kostnaðarmati. Það var gerður ákveðinn samningur um hvernig örorkugreiðslurnar ættu að hækka miðað við aldur.

Ég sé að tími minn hleypur frá mér. En mig langar aðeins til að nefna nokkur atriði sem varða Landspítala – háskólasjúkrahús. Það hefur komið fram og kemur fram í þessum fjárlögum að Landspítalinn þurfi að draga saman um 600–700 millj. kr. á næsta ári miðað við þær fjárveitingar sem spítalanum eru ætlaðar á þessu ári. Við vitum að á síðasta ári var mjög þrengt að spítalanum. Þar þurfti verulega að draga saman og þar var sagt upp eða var fækkað um 180 dagvinnustöðugildi, yfirvinna minnkuð og vöktum fækkað.

Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvernig ætlast hann til þess að Landspítalinn komi til móts við þessa stöðu sem hann stendur frammi fyrir, þ.e. samdrátt um 600–700 milljónir? Hvernig á að mæta honum? Á að fækka starfsfólki? Hverjum á að segja upp? Er það fólkið á gólfinu? Er það fólkið sem er í umönnunarstörfunum? Eru það yfirmennirnir? Við vitum að 70% af kostnaði við rekstur spítalans eru laun. Því er mjög mikilvægt að stjórnvöld svari því hver stefna ríkisstjórnarinnar sé í þessu máli. Það er ekki alltaf hægt að vísa þessu yfir á starfsfólk, yfir á embættismenn, á yfirmenn spítalans. Það eru stjórnmálamenn sem eiga að taka ákvarðanir um slíkt. Það er stjórnmálamannanna að forgangsraða. Því geri ég ráð fyrir því að hæstv. ráðherra hafi svör á reiðum höndum um þetta. Á að draga saman þjónustu Landspítalans? Á að fækka starfsfólki? Eða hver verða tilmæli hæstv. ráðherra til yfirmanna spítalans í þessum efnum, þ.e. hvernig þeir eiga að mæta þeim samdrætti sem er fram undan vegna þeirra fjárveitinga sem spítalinn fær miðað við þetta fjárlagafrumvarp?