131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[17:41]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Herra forseti. Ég vil byrja þar sem hv. síðasti ræðumaður endaði, að fara nokkrum orðum um samkomulagið við öryrkja. Það var samkomulag. Það var ekki undirskrifaður samningur, það skiptir ekki máli. Það var samkomulag og þau orð hafa staðið. Það var samkomulag um að tvöfalda bætur til yngstu öryrkjanna, taka upp aldurstengdar örorkubætur og verja til þess rúmum milljarði kr. Í samræmi við það samkomulag var flutt frumvarp á Alþingi í fyrra til þess að staðfesta það. Í því frumvarpi voru ákvæði í athugasemdum um að málið yrði síðan skoðað á miðju ári. Við gerðum það og þá kom í ljós að sú leið sem farin var kostar 1.200 millj. kr. á þessu ári og mun kosta 1.300 millj. kr. á næsta ári.

Það er rétt að Öryrkjabandalagið hafði í huga útfærslu sem sagt var frá í blaðagreinum og við létum reikna út þá útfærslu, það er rétt hjá hv. 9. þm. Reykv. n., en í yfirlýsingunni voru ákvæði um að tvöfalda bæturnar til yngstu öryrkjanna og taka upp aldurstengdar bætur. Það stóð og þau orð hafa staðið. Ég legg áherslu á það.

Hins vegar er í frumvarpinu í fjáraukalögunum og fjárlögunum u.þ.b. 2 milljarða kr. viðbótarfjármagn til örorkubóta, m.a. vegna hinna margumræddu fjölgunar öryrkja. Það er alrangt að ég hafi nokkurs staðar nokkru sinni látið liggja að því einu orði að öryrkjar hefðu eitthvert óhreint mjöl í pokahorninu. Ég vísa því algerlega á bug. Hins vegar hefur fólki á örorkubótum fjölgað langt fram yfir fjölgun þjóðarinnar og ástæða fyrir okkur til að athuga hvað veldur. Hvað er það í þjóðfélagsgerðinni sem gerir þetta? Ég held að það sé öryrkjum hagsmunamál að það sé gert. Ég hafna því að þetta sé eingöngu heilbrigðismál. Þetta getur verið í atvinnulífinu.

Öryrkjar hafa sagt það sjálfir og forustumenn þeirra að þetta geti verið vegna hörku á vinnumarkaði, breytinga á vinnumarkaði. Það er það sem við þurfum að láta skoða. En ég hafna því algerlega og hef aldrei sagt það nokkurs staðar að fólk væri að gera það að gamni sínu að komast á örorkubætur eða að það ætti að skammast sín og skila þeim, eins og einn hv. þm. orðaði það svo smekklega í gærkvöldi. Það hefur aldrei verið látið að því liggja af minni hálfu.

Það voru nokkrar fleiri fyrirspurnir til mín en nokkuð margir hafa komið inn á öryrkjamálið sem eðlilegt er, og það hefur verið spurst fyrir um hvernig Landspítalinn sé afgreiddur fyrir næsta ár. Við afgreiðum Landspítalann þannig að 500 millj. kr. er bætt inn í grunninn. Ekki er gerð krafa til hans um hagræðingu upp á 1% eins og fjöldamargra annarra stofnana sem þýðir eitthvað um 260 millj. Það eru tæpar 670 millj. í fjáraukalögum til spítalans til að koma til móts við uppsafnaðan halla spítalans og við erum einmitt að fara yfir þann halla en í fjáraukalögum er þessi upphæð til þess og ég tel að með því eigi að vera hægt að reka spítalann án þess að draga saman þjónustu. Hins vegar er spítalinn ekki felldur undan aðhaldi eins og aðrar stofnanir. Ég tel að Landspítalinn sé á góðu róli og þær aðhaldsaðgerðir sem hann greip til í upphafi árs hafi tekist og leitt til sparnaðar í rekstri hans. Og það sem betra er: Spítalinn hefur aukið afköst sín á árinu og stytt biðlista stórlega. Ég tel því að þar hafi verið unnið gott starf og hann eigi að geta veitt þá þjónustu sem við ætlumst til af honum en við gerum miklar kröfur til hans.

Hv. 7. þm. Norðaust. spurði einnig um komugjöld á heilsugæslustöðvar. Það er rétt að við ætlum að auka almenn komugjöld á heilsugæslustöðvar um 100 kr., úr 600 í 700 kr. Á móti því er hagræðingarkrafan felld út að við tókum þá leið. Árið 2001 voru komugjöldin 850 kr., ef ég man rétt, þannig að við tókum því þessa leið. Ég tek fram að heilsugæslan hefur verið að auka þjónustu sína. Komum þangað fjölgaði á síðasta ári. Í fjárlagafrumvarpinu eru fjármunir til að auka þjónustu á höfuðborgarsvæðinu, bæði í Voga- og Heimahverfi og í Hafnarfirði þannig að það er eitt af því jákvæða í fjárlagafrumvarpinu sem lagt hefur verið fram.

Hvað varðar málefni aldraðra þá spurði hv. 4. þm. Reykv. s. um það hvort samráðsnefndin yrði kölluð saman. Ég hef farið fram á að hún verði kölluð saman. Það hefur að vísu dregist ýmissa hluta vegna en það er ætlan mín að hún hittist sem allra fyrst og fari yfir þau mál sem ríkisstjórnin og aldraðir eiga sameiginleg. Við höfum verið að vinna að því að framkvæma áætlun sem byggð er á samkomulagi við aldraða um heimahjúkrun, hjúkrunarheimili og hækkun bóta. Það hefur verið unnið að þessu á undanförnum árum en við þurfum að fara yfir það í samráðsnefndinni hvað stendur út af í því. Ég hef ætlað mér að kalla samráðsnefndina saman eins fljótt og verða má og það eru engin áform um að leggja hana niður.

Ég vona að ég hafi svarað þeim spurningum sem til mín var beint. Ég endurtek að í þessu frumvarpi er hvergi slakað á varðandi velferðarkerfið í landinu, það skiptir miklu máli. Ég tek undir með formanni fjárlaganefndar að auðvitað má alltaf gera betur en hins vegar tel ég að með þessum frumvörpum, bæði til fjárlaga og fjáraukalaga, stöndum við myndarlega við velferðarkerfið í landinu.