131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:01]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra svarar ekki spurningunni. Hann sagði sjálfur í þessum ræðustól að það vantaði 500 millj. kr. upp á að samkomulagið væri efnt, að síðari áfanginn væri 500 millj. kr. Eina ábyrgðarleysið í þessu máli, hæstv. heilbrigðisráðherra, er að efna ekki samkomulag sem maður sjálfur gerir sjálfum sér til upphefðar í kosningabaráttu og árangurs í kjöri. Það er ekki hægt að segja að það að ganga á bak því samkomulagi sé í þágu öryrkja eða að það þurfi að skoða ungar konur í hópi öryrkja, 25–30 ára, hæstv. ráðherra. Það er ekki í þágu þeirra kvenna sem ég trúi að við hittum báðir oft í viku og þekkjum erfiðar aðstæður og hin kröppu kjör þeirra og brýnar þarfir. Í þágu þeirra er að standa við það samkomulag sem hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson gerði með þér þegar hann sjálfur virtist ekki ætla að ná kjöri til Alþingis í Reykjavíkurkjördæmi norður, samkvæmt ítrekuðum skoðanakönnunum. Við slíka samninga eiga menn að standa, hæstv. heilbrigðisráðherra.