131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:04]

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil víkja að öðru í ræðu hæstv. heilbrigðisráðherra. Það lýtur að heilsugæslunni. Hæstv. ráðherra gerði í ræðu sinni ráð fyrir fyrirætlunum og framlögum á fjárlögum til að auka og efla heilsugæsluna. Hann nefndi í því tilliti nýjar heilsugæslustöðvar, bæði í Heima- og Vogahverfi og eins í Hafnarfirði.

Spurning mín lýtur að því hvort menn fái eflt hana, bæði með því að fjölga heilsugæslustöðvum en mig langaði einnig að heyra frá ráðherra fyrirætlanir um að halda úti vaktþjónustu, vaktþjónustu sem mér skilst að búið sé að taka upp á öllum heilsugæslustöðvum. Mig minnir að hæstv. ráðherra hafi líka nefnt það í ræðu sinni að komum á heilsugæslustöðvarnar hefði fjölgað mjög. Við þekkjum yfirlýsta stefnu ráðuneytisins og heilbrigðisnefndar líka undanfarin ár í að efla grunnþjónustu heilsugæslunnar og mæta þörfum allra íbúa, helst þeirra sem þröngt hefur verið um á höfuðborgarsvæðinu.

Vaktþjónustan sem ég tel að sé komin á allar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu hefur leitt til þess að komum á heilsugæslustöðvar hefur stórlega fjölgað. Um leið er heilsugæslan dýrari í rekstri en hún hefur verið. Heyrst hefur að þeir hafi farið fram úr og geti ekki haldið sömu þjónustu áfram.

Spurning mín til hæstv. ráðherra er í raun hvort hann geri ekki ráð fyrir því í fjárlögunum að þessi þjónusta, eins og hún hefur verið síðustu vikurnar, verði veitt á næsta ári. Við erum öll sammála um að það sé þjóðhagslega hagkvæmara að efla heilsugæslustöðvarnar sem er ódýrasta þjónustan. Það er líka álitaefni hvort ekki teljist líklegt að kostnaðurinn við rekstur bráðamóttökunnar á Landspítalanum og annarrar vaktþjónustu verði jafnframt ódýrari.