131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:09]

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherrar, sem ég bað um fyrr í dag, hafi skilað sér. Ég tel að hæstv. samgönguráðherra hljóti að vera einhvers staðar nærri. Ég sá hann fyrir skömmu.

Ég byrja því þriðju ræðu mína í dag á að spyrja hæstv. ráðherra spurninga sem ég tel mikilvægt að við fáum svör við í þessari umræðu.

Hæstv. félagsmálaráðherra fer, eins og allir vita, með málefni sveitarfélaga. Það hefur býsna mikið verið til umræðu, bæði í þingsal í dag og í samfélaginu, hver fjárhagsstaða þeirra er. Ljóst er að mörg undanfarin ár hafa sveitarfélögin verið rekin með æðimiklum halla, jafnvel þannig að á örfáum árum er það farið að nema tugum milljarða. Því er eðlilegt að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra hvort búast megi við því að reynt verði að gera eitthvað í þessum málum fyrr en síðar.

Býsna lengi hefur verið að störfum nefnd sem ætlaði að fara yfir tekjustofna sveitarfélaga. Að vísu höfum við heyrt það nokkrum sinnum, bæði í almennri umræðu og hér í dag, að nýlega sé búið að rita undir viljayfirlýsingu. Hins vegar væri fróðlegt að fá að heyra frá hæstv. ráðherra hvað hefur tafið störf þessarar nefndar. Það er ekkert nýtt í þessari viljayfirlýsingu sem ekki hefði átt að liggja fyrir þegar þessi ágæti hópur tók til starfa.

Ég hefði einnig viljað bera a.m.k. tvær tölur undir hæstv. ráðherra, þ.e. tölur sem berast úr herbúðum sveitarstjórnarmanna varðandi svokölluð einkahlutafélög, að fjölgun þeirra hafi dregið úr tekjum sveitarfélaga svo nemur á annan milljarð króna. Eins hefur komið fram að hallað hafi á sveitarfélögin varðandi húsaleigubætur, miðað við þau hlutföll sem upphaflega var rætt um, upp á um það bil 300 millj. kr. Það væri fróðlegt að fá að heyra frá hæstv. félagsmálaráðherra hvort þessar tölur eru að mati ráðuneytisins eitthvað nærri lagi.

Ég hafði jafnframt hugsað mér að spyrja hæstv. umhverfisráðherra einnar spurningar. En hæstv umhverfisráðherra er ekki hér og hefur ekki séð sér fært að vera hér áfram. Ég tel líklegt að hæstv. félagsmálaráðherra geti hjálpað okkur við upplýsingar í þeim efnum, þ.e. varðandi átak sem hefur staðið um nokkurt skeið í fráveitumálum sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir að því ljúki á næsta ári. Ég spyr hvort ekki sé öruggt að það átak muni halda áfram. Mér sýnist, miðað við upplýsingar mínar, að áætla megi að jafnvel um helmingur sveitarfélaga verði ekki búinn að ljúka málum sínum eins og stefnt er að þegar tímabilinu lýkur sem gert var ráð fyrir að ríkisvaldið aðstoðaði sveitarfélögin við þær dýru og stóru framkvæmdir.

Ég sný mér næst að hæstv. menntamálaráðherra. Auðvitað eru ýmis mál í fjárlagafrumvarpinu sem tengjast ráðuneyti hæstv. ráðherra. Eðlilegt er að byrja á að spyrja hvernig sú tala er fundin. Hver er ástæðan fyrir því að hún er ákveðin, að hækka innritunargjöld í háskóla um tæp 40%, þ.e. úr 32.500 í 45 þús. kr.? Hvaða röksemdir eru á bak við þessar tölur?

Einnig er nauðsynlegt að fá upplýsingar um það frá hæstv. ráðherra varðandi nemendatölurnar, sem eru meginskýringar þess að aukið fjármagn fer til framhaldsskóla og háskóla, hvernig þær tölur eru fengnar. Er meiri rökstuðningur fyrir þeim tölum heldur en var þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram fyrir ári? Í fjárlagafrumvarpinu fyrir yfirstandandi ár voru þessar tölur mjög fjarri raunveruleikanum. Spurningin er hvort meiri líkur séu á því að þær tölur sem nú eru í fjárlagafrumvarpinu séu réttar en þær sem voru þar í fyrra.

Hæstv. ráðherra verður einnig að upplýsa hvort sama leið er farin í fjárlagafrumvarpinu við að reikna út tölurnar og farin er í fjáraukalagafrumvarpi, sem hér verður að vísu til umræðu eftir tvo daga. Í því fjáraukalagafrumvarpi kemur fram að nemendur í framhaldsskólum á yfirstandandi ári hafi verið mun fleiri en gert var ráð fyrir í fjárlögum, þrátt fyrir að sú tala hafi hækkað nokkuð í meðförum Alþingis. Má ætla að þeim kostnaði sé ekki öllum mætt heldur sé talan fyrir meðalnemandann lækkuð? Það er nauðsynlegt að vita hvort sömu aðferð er beitt í fjárlagafrumvarpinu núna.

Að lokum vil ég beina því til hæstv. menntamálaráðherra að í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að ráðuneyti fjármála og menntamála vinna saman að endurskoðun reiknilíkans framhaldsskóla. Að vísu hefur margoft verið bent á að þar þurfi að lagfæra og endurskoða. Nokkrar skýrslur liggja fyrir þar um. En það væri fróðlegt að fá að heyra frá hæstv. ráðherra hvað hún telur að þurfi að endurskoða í þessu reiknilíkani. Hver er ástæðan fyrir því að tvö ráðuneyti þurfi til að fara yfir þetta reiknilíkan? Fram að þessu hefur menntamálaráðuneytið verið látið duga.

Það væri einnig fróðlegt ef hæstv. ráðherra gæti gefið okkur upplýsingar um hvað orðalagið sem notað er í frumvarpinu þýðir, en orðrétt segir, með leyfi forseta:

„Markmiðið“ — þ.e. með endurskoðun reiknilíkansins — „er að útgjöld skólanna verði í samræmi við fjárveitingar í fjárlögum.“

Má skilja þessi orð sem svo að fram að þessu hafi útgjöld skólanna ekki verið í samræmi við fjárveitingar í fjárlögum? Er þá verið að viðurkenna að það hafi verið rangt gefið undanfarin ár og er þá fyrirhugað að bæta það sem rangt var gert á fyrri árum?

Þá sný ég mér að hæstv. samgönguráðherra en samgönguráðuneytið er, miðað við fjárlagafrumvarpið sem hér liggur fyrir, það ráðuneyti þar sem mest þarf að skera niður. Það er að vísu ekki nýtt að frestað sé vegaframkvæmdum, það hefur verið stundað með reglulegu millibili undanfarin ár. Við fengum að vísu innskot í þá þróun rétt fyrir kosningar þegar 4,6 milljarðar voru settir í flýtiframkvæmdir, og ekki nema gott um það að segja. En við sáum frestun á yfirstandandi ári og aftur er fyrirhuguð frestun á næsta ári. Ég vil biðja hæstv. samgönguráðherra að gera okkur stuttlega grein fyrir því hvaða framkvæmdir þarna eru undir, hvaða framkvæmdum á að fresta á næsta ári sem gert var ráð fyrir í samgönguáætlun.

Herra forseti. Ég átti eftir að bera upp eina spurningu til hæstv. fjármálaráðherra, sem varðar barnabætur. Þær hafa talsvert verið ræddar í dag og verið nokkuð misvísandi frá stjórnarliðum hvert stefnt er í þeim efnum. En fram kemur í fjárlagafrumvarpinu að það sé til athugunar að hækka barnabæturnar.

En svo segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Þar sem eftir er að ljúka nánari útfærslu á þessum málum eru þær óbreyttar milli ára.“

Það er að segja, krónutalan er óbreytt á milli ára og það sama er í fjárlögum þessa árs. Því er nauðsynlegt að hæstv. fjármálaráðherra útlisti örlítið fyrir okkur hvaða útfærslu þarf að ljúka nánar svo hægt sé að hækka barnabætur.

Herra forseti. Ég á eftir einn afar mikilvægan kafla úr ræðu minni sem varðar vinnubrögð en á aðeins eftir eina mínútu af ræðutíma mínum, sem verður að duga. Ég hef örlítið rætt þau í andsvari við hv. þm. Magnús Stefánsson í dag en málið er mun stærra en svo að ég muni ljúka umræðu um það á einni mínútu en vil ekki sleppa því að nefna það. Það er nefnilega gífurlega mikilvægt að löggjafarvaldið sinni hlutverki sínu varðandi fjárlög og framkvæmd þeirra. Framkvæmdarvaldið er nefnilega meira og minna án alls aðhalds hvað varðar framkvæmd fjárlaga og raunverulega gerð fjárlaga.

Ríkisendurskoðun benti okkur á það í gamalli skýrslu að rammafjárlögin héldu ekki nema fram að því að fjárlög eru lögð fram á Alþingi. Síðan gera ráðherrarnir fyrst og fremst tillögur um það að breyta því sem er í römmunum og þar með er allt komið á flot.

Við þekkjum líka skilaboð fjármálaráðuneytisins frá því í fyrra þegar bréf var sent til allra helstu stofnana, meira að segja stofnana sem heyra undir Alþingi, um að stofnanirnar ræddu ekki við fjárlaganefnd. Ég held, herra forseti, að eitt brýnasta verkefni fjárlaganefndar á næstu missirum sé að treysta sjálfstæði sitt og halda uppi merki löggjafans þannig að framkvæmdarvaldið valti ekki algjörlega yfir menn. Einnig held ég að nauðsynlegt sé að ákveðin endurhæfing fari fram hjá einstaka nefndarmönnum í fjárlaganefnd þannig að þeir átti sig á því að þeir eru ekki bara í liði framkvæmdarvaldsins.