131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:19]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. vakti athygli á því að samgönguráðuneytið þyrfti að fresta framkvæmdum í samræmi við fjárveitingar og að teknu tilliti til samgönguáætlunar sem er í gildi. Vegna fyrirspurnar hv. þm. minni ég á að við afgreiðslu fjárlaga þessa árs kom það skýrt fram að við gerðum ráð fyrir að hægja á framkvæmdum á árinu 2004 og á árinu 2005 til þess að ná þeim markmiðum í efnahagsmálum sem við höfum gert ráð fyrir að ná. Á þessu ári hefur þetta allt saman gengið upp og hægt var á nokkrum framkvæmdum. Stærsta einstaka framkvæmdin sem tekin var ákvörðun um að fresta eru göngin, svokölluð Héðinsfjarðargöng. Það er langstærsta fjárhæðin sem kemur í frestun vegna þessara ára og fyrir næsta ár, 2005, liggur fyrir að sú framkvæmd verði boðin út en framkvæmdin mun ekki hefjast að neinu marki fyrr en árið 2006. Það er í samræmi við þau áform sem kynnt voru við afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár eins og ég gat um áður.

Hvað aðrar framkvæmdir varðar liggur það ekki fyrir en verður tekið til meðferðar við endurskoðun á samgönguáætluninni. Sú vinna er að hefjast, endurskoðuð samgönguáætlun verður væntanlega lögð fram í byrjun næsta árs á grundvelli þeirra fjárlaga sem afgreidd verða í haust. Þangað til verður að sjálfsögðu unnið að uppstillingu á þeim áformum en ég lít svo til að það eigi ekki að verða neitt stórvandamál. Stærsta frestunarframkvæmdin er Héðinsfjarðargöngin og tekur hún kúfinn af þeim fjárhæðum sem þarna er um að ræða.