131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:33]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson hefur beint til mín nokkrum spurningum sem mér er bæði ljúft og skylt að svara og reyni ég að gera það eftir fremsta megni. Um hækkunina á skráningargjöldunum upp í 45 þús. kr. er rétt að upplýsa að þetta var ósk sem kom fram á fundi mínum með háskólarektor og fleiri góðum mönnum. Það er sem sagt að ósk háskólans sem þessi hækkun er sett fram. Þetta er fyrst og fremst byggt á því að kostnaður háskólans vegna skráningargjalda og vegna skráningar innan háskólans eða til háskólans hefur aukist mjög fyrir utan það að inni í þessari upphæð eru einnig verðbætur síðustu ára. Þar af leiðandi fórum við að sjálfsögðu afar vel yfir þetta því að ég veit að það eru kannski aðrir en hv. þm. Einar Már Sigurðarson sem eru ef til vill ekki alveg eins vel upplýstir og hann sem mundu fara að leika sér að því að nefna þetta skólagjöld eða að koma eigi skólagjöldum á bakdyramegin. Það er engan veginn verið að gera það heldur er þetta raunkostnaður háskólans þegar kemur að skráningu og að sjálfsögðu fannst mér rétt að verða við þeirri ósk háskólamanna sem töldu þetta nauðsynlegt til að mæta þeim kostnaði sem hefur fallið á háskólann. Við fórum gaumgæfilega yfir þetta.

Í öðru lagi hefur hv. þm. beint til mín þeirri spurningu varðandi reiknilíkanið, hvernig standi á því m.a. að bæði fjármálaráðuneytið og menntamálaráðuneytið standi að þeirri endurskoðun sem lýtur að reiknilíkani varðandi framhaldsskólana. Mér finnst það í rauninni bara jákvætt að þessi ráðuneyti eigi hlut að máli því að það er ekki eingöngu menntamálaráðuneytið sem kemur að málum framhaldsskólans eða menntakerfisins heldur að sjálfsögðu er það líka fjármálaráðuneytið þannig að mér finnst það heldur jákvætt að þessi tvö ágætu ráðuneyti einhendist í það að endurskoða reiknilíkanið.

Ég mun í seinna andsvari mínu reyna að fara betur yfir það út á hvað sú endurskoðun nákvæmlega gengur.