131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:37]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi reiknilíkanið get ég tekið undir með hv. þm. Einari Má að ákveðnar veilur hafa komið fram á því en ég tel þær ekki vera mjög stórvægilegar. Engu að síður eru þar hlutir sem við þurfum að fara vel yfir. Ég tel einnig að rétt sé að draga fram ákveðna kosti sem reiknilíkanið hefur haft í för með sér og helstir eru þeir að mínu mati að reiknilíkanið hefur leitt það m.a. af sér að meiri aðsókn er í framhaldsskólana en var áður. Menn segja mér það líka að stjórnunin innan skólanna sé mun betri og stýring á fjármagni innan skólanna er mun betri en áður m.a. á grundvelli reiknilíkansins og síðast en ekki síst er alveg ljóst að brottfallið hefur minnkað m.a. út af reiknilíkaninu. Menn leiða sem sagt minnkandi brottfall til þess hvernig reiknilíkanið gagnvart framhaldsskólunum er byggt upp. Það eru því bæði kostir og gallar við þetta kerfi en að sjálfsögðu eins og um öll önnur líkön og í rauninni öll önnur kerfi ber að fara mjög gaumgæfilega yfir þau. Þess vegna höfum við ákveðið að fara í þetta verkefni í sameiningu og í samvinnu við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands.

Síðan er hitt atriðið, hvaða áætlanir liggja til grundvallar og hvernig það kemur fram, þá höfum við í ráðuneytinu verið að reyna að setja reglur um það hvernig hægt er að áætla nemendur þannig að það virkilega komi fram strax í byrjun hvað það eru margir sem sækja og vilja sækja framhaldsskólana. Í dag er mun erfiðara að áætla hverjir munu sækja framhaldsskólana m.a. út af þeirri jákvæðu þróun að eldri nemendur eru að koma í auknum mæli inn í framhaldsskólann en síðan er hitt atriðið að mjög erfitt er að aðgreina í dag muninn á þeim sem sækja dagskóla, kvöldskóla eða fjarnámið. Eins og kemur fram í fjárlagafrumvarpinu eru menn að skipta á milli þessara þrepa eða aðgreiningar á framhaldsskólunum, þ.e. dagskóla, kvöldskóla eða fjarnáms. Það er því ekki alltaf hægt að áætla þetta. Þess vegna höfum við gert ráð fyrir m.a. að hafa í fjárlögunum 190 nemendur, óráðstafaða, sem við getum þá sett á milli framhaldsskóla og mætt þar af leiðandi þeim þörfum og kröfum sem framhaldsskólarnir setja hverju sinni. Það munum við gera. Þess vegna er m.a. þessi mikla hækkun til framhaldsskólanna sem ég vil sérstaklega vekja athygli á en raunhækkunin og útgjaldahækkunin til framhaldsskólans er 1.205 milljónir.