131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[19:12]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er svo sem ágætt að hæstv. ráðherra hafi ekki áhyggjur af þessu. Ég held hins vegar að hægt sé að líta til reynslunnar og sjá að stundum hefur verið farið af stað með framkvæmdir í stóriðjunni með tiltölulega litlum fyrirvara og við vitum að áhugi er á nýjum stóriðjuframkvæmdum.

Það er svolítið merkilegt sem ég sagði áðan, og hæstv. ráðherra svaraði ekki, hvernig á því stendur að hann er svo vaskur þegar verið er að kynna nýtt átak í vegamálum, að hafa þá til staðar verkefnin sem stendur til að fara í og jafnvel ný verkefni sem ekki hafa verið á vegáætlun en þegar menn bregða niðurskurðarhnífnum þá er ekki hægt með sama hætti að gera grein fyrir því hvernig eigi að standa að málum og hæstv. ráðherra kýs að þegja um það. Það hlýtur hins vegar að vera umhugsunarefni hvernig menn ætla að bregðast við í framtíðinni ef svo miklar framkvæmdir sem í stefnir í landinu munu teygjast á langinn og þá þurfa menn kannski að hugsa hlutina með öðrum hætti en gert hefur verið. Alla vega geta menn ekki bara treyst á það að hægt sé að skera niður í vegaframkvæmdum til þess að vinna á móti þenslunni. Og ég er heldur ekki sannfærður um að slíkt virki svo óskaplega vel til þess að draga úr henni.