131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[19:14]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil minna hv. þm. á að við erum í rauninni ekki í neinum stórkostlegum niðurskurði á framkvæmdum þegar við lítum til þess að þrátt fyrir þær miklu fjárveitingar sem við höfum á þessu ári til samgöngumannvirkja þá erum við að fara inn í næsta ár með nánast sömu tölur. Þó að við höfum gert ráð fyrir þessum feiknalegu miklu framkvæmdum í Siglufjarðargöngunum á sínum tíma í samgönguáætluninni þá var tekin ákvörðun um að hægja á því stóra verki og það er stærsti hlutinn af frestuninni sem við erum að tala um. En að öðru leyti höldum við þessu feiknalega háa framkvæmdastigi í samgöngumannvirkjagerðinni sem hefur verið síðustu ár þannig að ég (Gripið fram í.) Hv. þm. ætti bara að líta á þessar tölur. Það er nánast sama tala milli áranna 2004 og 2005. En mér er alveg ljóst að það er dregið saman miðað við samgönguáætlun og þar er fyrst og fremst um að ræða frestun Héðinsfjarðarganganna sem fara síðan af stað árið 2006.