131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[19:16]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, við erum að tala um kannski 70, 80 störf að meðaltali við framkvæmd svona mikils mannvirkis eins og Reyðarfjarðargöngin eru. Ég býst ekki við að við séum almennt að tala um fleiri störf hvort sem göngin eru einhverjum kílómetrum lengri eða ekki.

Ég velti því fyrir mér, virðulegi forseti, hvort það sem nú er boðað varðandi Héðinsfjarðargöngin hafi síðan þau áhrif að göngin milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar, sem Vestfirðingar hafa beðið eftir í nokkuð mörg ár, frestist einnig. Ég ætla að leyfa mér að hafa þá skoðun þangað til mér verður sýnt fram á annað að tilfærsla á 70, 80 störfum, hvaðan sem menn eru af landinu við þau störf, hafi veruleg áhrif varðandi það hvert þenslustigið er í landinu. Ég tel að þau svæði landsins þar sem engin þensla er í gangi og vantar í raun og veru störf ættu a.m.k. að fá að njóta þess vafa og þar reyndu menn að halda framkvæmdunum áfram.

Ég vil minna á að þegar trillurnar voru kvótasettar fækkaði fiskvinnslustörfum á Vestfjörðum um 100 og fiskveiðistörfum um 200. Við handfæratrillurnar núna fækkaði störfum við utanverðan Eyjafjörð og á Eyjafjarðarsvæðinu sennilega um 50–60. Ég held því að menn verði að líta á verk sín í samhengi og ríkisstjórnin geti ekki bara horft á það að kvótakerfið sé fullkomið en síðan eigi að skera niður að öllu öðru leyti til þess að forðast einhverja þenslu.