131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[19:35]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. fer enn villur vegar. Hann segir: Villan er alltaf í sömu átt. Það eru alltaf meiri útgjöld eftir á en tekjur.

Þetta er ekki rétt. Á árinu 1999 ollu þessir óreglulegu liðir því að það var 20 milljarða kr. betri afkoma miðað við ríkisreikninginn en fjárlögin höfðu gert ráð fyrir. Samfylkingin náttúrlega kaus að sleppa því ári, byrja bara árið 2000 á sömu reikningum og reikna svo til 2003. Það hentar þeim betur þó að nýi uppgjörsgrunnurinn hafi byrjað strax á árinu 1998. Þetta er auðvitað ekkert rétt. Menn geta bara horft á þetta eins og eðlilegt er með því að sleppa þessum óreglulegu liðum sem er margbúið að útskýra hvers vegna á að gera.

Ef hv. þm. sem hér talaði síðast hefur ekki áhuga á því að hafa það sem sannara reynist í þessum efnum ætti hann kannski að fara á námskeið hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni sem býður upp á kennslu í ríkisfjármálafræðum.