131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[19:39]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er komið að lokum þessarar umræðu sem um margt hefur verið ágæt. Ég vil byrja á því að nota tækifærið og taka undir með hæstv. fjármálaráðherra og óska þess að við fáum að njóta stöðugleika áfram þó að við höfum nokkrir hér í dag verið að vara við ýmsu sem gæti orsakað að svo yrði ekki.

Ég efast ekkert um að ráðuneyti hæstv. ráðherra muni sinna störfum sínum eins og venjulega með fjárlaganefndinni og auðvelda henni störf eins og kostur er. Ég vona að ráðuneytið átti sig á því að nefndin á samt sem áður að halda sjálfstæði sínu í störfum og vonandi verða ekki bréfaskriftir svipað og í fyrra varðandi eðlilegan aðgang stofnana að nefndinni.

Ég tek líka undir það með hæstv. ráðherra að ég vona að við náum því eins og undanfarin ár að halda áætlunum okkar um það hvenær við ljúkum störfum okkar því það hefur sem betur fer gengið býsna vel hin síðari ár.

Ég ætla ekki að eyða þessum litla tíma sem ég hef núna í að fara yfir samanburðarfræðin, ég ætla aðeins að segja að það er eðlilegt að við reynum að nálgast hin alþjóðlegu viðmið. Ég held að það hljóti að vera sameiginlegt markmið okkar að reyna að vinna að því að við séum með sambærilega hluti og almennt viðgengst í nágranna- og viðskiptalöndum okkar. Ég held að það væri ráð að hæstv. ráðherra kæmi í lið okkar með því að við reyndum að ganga frá því á þann hátt að menn séu með þetta sem sambærilegast.

Aðeins að lokum, herra forseti, vegna þeirrar skýrslu sem Ríkisendurskoðun sendi frá sér í vor. Ég get ekki tekið undir með ráðherra um að ekki sé viðeigandi að ræða hana hér. Ég hins vegar nefndi það að hæstv. ráðherra gerði ýmsar athugasemdir. Ég vonaði að ég kæmist hjá því að fara inn á það sem hæstv. ráðherra gerði athugasemdir við.

Ég vil að lokum lesa hér upp örlitla setningu, með leyfi forseta. Hún hljóðar svo, orðrétt:

„Sú umframkeyrsla sem viðgengist hefur hjá ráðuneytum og einstökum stofnunum ár eftir ár hefur leitt til þess að markmið stjórnvalda um hóflega aukningu ríkisútgjalda og hallalausan rekstur síðustu ár hafa ekki gengið eftir.“