131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[19:41]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framlag hans hér til umræðunnar í dag sem hefur verið mikið og gott eins og hans er vani.

Hann nefndi það sem ég kom inn á varðandi breytt og samræmt uppgjör þessara mála sem er hið samræmda uppgjör Sameinuðu þjóðanna, svokallað SNA-uppgjör.

Í þessu hefti hér, Þjóðhagsspánni, er að finna slíkt uppgjör sem er aðeins öðruvísi en við eigum að venjast. Þar kemur það öðruvísi út og meira í takt við það sem almennt tíðkast á alþjóðavettvangi. Mæli ég með því að menn kynni sér það.

Þá kemur líka í ljós að það sem haldið hefur verið hér fram að undanförnu um afkomu ríkissjóðs á ekki við rök að styðjast. Það er sama hvar borið er niður. Þetta stenst ekki, enda er þetta bara áróður sem hefur þann tilgang að byrgja fólki sýn í umræðum um þessi mál.