131. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2004.

afleiðingar kennaraverkfallsins fyrir þjóðlífið.

[13:37]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég deili að sjálfsögðu áhyggjum hv. þm. af þessu verkfalli. Við höfum öll áhyggjur af því. Það snertir allt þjóðfélagið, meira og minna hvert einasta heimili í landinu. Grunnskólinn er ein almikilvægasta stofnun okkar samfélags og að sjálfsögðu er það mjög alvarlegt þegar slík stofnun stöðvast og þeir sem þar starfa hvort sem það eru börn eða kennarar ganga ekki til vinnu sinnar.

Það er hins vegar svo að það var ákveðið 1996 í fullu samkomulagi við sveitarfélögin að færa þetta mikilvæga verkefni yfir á ábyrgðarsvið sveitarfélaganna og um það var full samstaða. Hvað þýðir það? Það þýðir að sjálfsögðu að mál eins og þetta á að leysa á þeim vettvangi þar sem ábyrgðin er. Það vill svo vel til að nú standa yfir viðræður í þessu erfiða máli. Það hafa verið samtöl undanfarna daga og eitthvað hefur þokast. Hv. þm. spurði hvort ég sem forsætisráðherra hafi haft samband við deiluaðila. Að sjálfsögðu hef ég ekki gert það með beinum hætti. Ég hef hins vegar fylgst með málinu í gegnum ríkissáttasemjara og það er eðlilegur vettvangur fyrir forsætisráðherra að fylgjast með alvarlegri deilu af þessu tagi. Það er engin venja fyrir því að forsætisráðherra blandi sér inn í alvarlegar deilur með því að tala beint við samningsaðila. Það hefur komið alveg skýrt fram hjá fulltrúum sveitarfélaganna á undanförnum dögum að þeir hafa lýst því yfir að málið sé í höndum samninganefndar þeirra og að þessum sveitarfélögum standa allir stjórnmálaflokkar í landinu t.d. eins og hér í höfuðborginni. Það hefur verið alveg skýr afstaða R-listans sem flokkur hv. þm. á aðild að og fleiri. Ég deili skoðunum þessa fólks í sveitarstjórnunum að málið á að vera á vettvangi samninganefndanna og það er beinlínis rangt að trufla það mikilvæga starf sem þar fer fram og gefa einhverjar falsvonir um lausnir einhvers staðar annars staðar. Það væri ábyrgðarlaust af okkar hálfu.

Hins vegar vænti ég þess að menn finni lausn hið fyrsta á þessu máli og nái sanngjarnri niðurstöðu fyrir alla aðila. En sú sanngjarna niðurstaða verður að sjálfsögðu að vera í samræmi við fjárhagslega getu þeirra aðila sem þurfa að greiða. Það er alveg ljóst að því er varðar fjárhagsleg samskipti ríkisins og sveitarfélaganna að þau eru í þeim farvegi sem viljayfirlýsing þeirra núna aðeins fyrir nokkrum dögum hljóðar upp á og það er samkomulag milli sveitarfélaganna og ríkisins um þann farveg. Það eiga sér ávallt stað viðræður milli sveitarfélaganna og ríkisins um fjárhagsmál og tekjumál. Nú hafa bæði ríkið og sveitarfélögin fallist á að koma þeim málum í ákveðinn farveg og það liggur alveg ljóst fyrir og algerlega ástæðulaust að vera að blanda því inn í þá alvarlegu deilu sem nú stendur yfir og við skulum vona að leysist sem fyrst.