131. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2004.

afleiðingar kennaraverkfallsins fyrir þjóðlífið.

[13:41]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Barátta grunnskólakennara og skólastjórnenda fyrir bættum kjörum snýst um grundvallaratriði. Hún snýst ekki bara um laun og launatölur, hún snýst líka um skólaþróun. Þróun í skólastarfi byggir á menntastefnu sem stjórnvöld á hverjum tíma setja og við í þessum sal tökum afstöðu til meðal annars með því að setja hana í lög. Þess vegna kemur það ástand sem nú er uppi og nær til um 200 grunnskóla í landinu okkur alþingismönnum og ekki síst ríkisstjórninni við.

Samkvæmt lögum eru sveitarfélögin ábyrg fyrir rekstri skólanna og ríkisvaldið er ábyrgt fyrir menntastefnunni. Þannig höfum við komið því fyrir. Menntastefnan sem grunnskólinn býr við í dag er afar metnaðarfull, enn betri skóli, þeirra réttur, okkar skylda. Hún hefur að vísu ekki öll komist til framkvæmda enn þá en það er önnur saga sem verður komið betur að síðar.

Alþingi og ríkisstjórn hafa á undanförnum árum aukið kröfurnar sem gerðar eru til grunnskólans. Við höfum ákveðið að grunnskólinn skuli mæta þörfum allra nemenda, að hann skuli vera skóli án aðgreiningar og við erum sátt við þá ákvörðun. En hún útheimtir talsverðar breytingar á skólastarfinu, öfluga stoðþjónustu, aukna samvinnu milli kennara og aukið samstarf við foreldra. Skólarnir hafa orðið við kröfunni um hærra þjónustustig og það hefur kostað peninga. Í mínum huga bera þar tveir ábyrgð, ríki og sveitarfélög.

Menntastefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs byggir á því að horft sé heildstætt á menntakerfið allt frá fyrsta skólastiginu, sem er leikskólinn sem við viljum að sé gjaldfrjáls, og upp í háskóla og út í lífið. Grunnskólinn er bara einn hlekkur í þeirri keðju. Ef hann slitnar eða er að veikjast er það auðvitað svo alvarlegt mál sem þing og þjóð, ríki, sveitarfélög og kennarar verða að sameinast um að leysa. Og ég verð að segja að fjarvera ráðherra í umræðunni upp á síðkastið hefur verið áberandi og að mínu mati ekki eðlileg. Menntamálaráðherra og ríkisstjórnin öll hefur sýnt fálæti sem er í ósamræmi við ábyrgð þeirra og á skjön við samþykkta menntastefnu.