131. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2004.

afleiðingar kennaraverkfallsins fyrir þjóðlífið.

[13:46]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það gefur augaleið að afleiðingar kennaraverkfallsins fyrir þjóðlífið eru geysimiklar þegar þúsundir kennara hafa lagt niður störf og tugþúsundir nemenda eru án reglulegs skólahalds. Óhætt er að fullyrða að víða er farið að þrengjast í búi hjá kennurum en þeir hafa verið launalitlir í á þriðju viku. Ekki er ólíklegt að verkfallið bitni mismikið á börnunum og að öllum líkindum verst á þeim börnum sem standa hvað verst félagslega. Ef verkfallið dregst mjög á langinn er hætt við að það raski samræmdum prófum og valdi skólastarfi miklu tjóni sem erfitt verður að bæta úr. Stór hætta er á að los komi á skólastarf og góðir kennarar fari í önnur störf.

Ríkisstjórnin hefur ítrekað reynt að firra sig ábyrgð á bágri fjárhagsstöðu sveitarfélaganna. Hæstv. forsætisráðherra ætti að vita manna best að víða á landsbyggðinni glíma sveitarfélög við mikinn vanda í atvinnumálum og fólksfækkun en þar ber hann mesta ábyrgð sjálfur. Greinilegt er að hann er meira fyrir að eyða peningum okkar í sendiráð og fínerí í útlöndum en að styrkja fjárhagsstöðu sveitarfélaganna í landinu. Ég tel að bág fjárhagsstaða sveitarfélaganna sé orsök þess hve erfitt er að leysa úr þessari kjaradeilu.

Lítið er að heyra frá hæstv. menntamálaráðherra í þessari kjaradeilu nema hvað hún sendi frá sér bækling á dögunum þar sem fram kemur að af og til hugsi hún til þess að kennarar lesi oftar kjarasamningana en námskrána. Hvað veldur því? Ég veit í rauninni ekki hvað svona sendingar eiga að þýða. En það er löngu orðið tímabært að ríkisstjórnin átti sig á því að það eru ekki eingöngu samningsaðilar sem bera hér ábyrgð heldur ber ríkisstjórnin ábyrgð á hve verkfallið er harðvítugt og erfitt að leysa úr því og að forsætisráðherra geri sér grein fyrir því að hann ber þar mikla ábyrgð.